17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í C-deild Alþingistíðinda. (4306)

152. mál, stóríbúðaskattur

Einar Arnórsson:

Mér hefir þótt gaman og að sumu leyti fróðlegt að hlýða á sennu hv. flm. frv. og hinna tveggja kommúnista, er hér hafa tekið til máls. Það var nógu gaman að heyra þá lýsa sökum á hendur Framsókn og Íhaldinu, sem þeir kölluðu. Hv. þm. Seyðf. tók skynsamlegar á málunum heldur en hv. 3. þm. Reykv., þar sem hann sagði hreinan og beinan sannleikann, að flokkur þeirra væri svo magnlítill, að hann kæmi engu af áhugamálum sínum fram. Hefði svo litla tiltrú hjá landsmönnum. Að hv. þm. Seyðf. skyldi halda þessu fram, er sökum þess, að hann er greindur maður á blettum, og getur því stundum greint skil á réttu og röngu. (ÓTh: Þetta er oflof). Það má vel vera, en þetta, sem hann nú sagði, ber þó vott um greind hjá honum. Þó að hv. jafnaðarmenn finni börn sín hjá vinum sínum, framsóknarmönnunum, skiptir engu máli. Það fer sennilega vel um þau þar. Er það því mjög á annan veg en fyrir þeim mönnum, sem missa börn sín í hendur bófa og illmenna.

Svo ég snúi mér að frv. sjálfu, þá held ég, að það sé rétt, sem kommúnistarnir heldu fram, að upphæð sú, 18 þús. kr., sem miðað er við fyrir 5 manna heimili, sé of lág, því að það mun ekki ætlun flm. að útiloka það, að menn byggi sæmilegar íbúðir fyrir sig. Vænti ég því, að þeir geti fallizt á brtt. til lagfæringar á þessu. Annars var það ánægjulegt að heyra baða kommúnistana, sem töluðu, vera á sama máli og ég er í þessu efni. Þeir skilja nú orðið glöggt sjálfir, hvar skorinn kreppir í þessum hlutum, þar sem þeir eiga skrautlegar hallir og reynslan hefir sýnt, að óhæfilegt er að gjalda skatt af íbúðum, sem í raun réttri gera ekki meira en fullnægja almennum heilbrigðiskröfum og menningar.

Eftir því, sem byggingarkostnaður er hér í Rvík, þá eru það ekki góðar íbúðir, sem ekki fara fram úr 18 þús. kr. með lóðarverði. Menn byggja hér alls ekki góð hús fyrir 18 þús. kr., ef þeir þurfa að kaupa. lóðina með. Mér skilst nú, að lög þessi eigi að ná til alls landsins, en þá ber þess að gæta, að byggingarkostnaður er eigi alstaðar hinn sami á landinu. Ég þori t. d. að fullyrða, að hús, sem hægt er að byggja fyrir 18 þús. kr. á Akureyri, myndi kosta nær 30 þús. hér í Rvík. Það er því auðsætt, að úti á landi er hægt að byggja lúksusíbúðir, sem þessi skattur næði ekki til, sem þó myndi lenda skattur á, ef þær væru hér. Þetta vil ég biðja þá hv. n., sem mál þetta fær til meðferðar, að athuga.

Þá held ég, að hv. flm. hafi tekið nokkuð léttum tökum á sumum fyrirmælum frv. Í 3. gr. stendur t. d.: „Stóríbúðaskattur samkv. lögum þessum skal ákveðinn af skattstofunni í Reykjavík og af skattanefndum annarsstaðar á landinu“. — Ég geri ráð fyrir, að það verði töluvert margbrotið verk að ákveða þennan skatt. Að vísu er það ekki margbrotið þar, sem einn maður býr í sama húsinu, en þar, sem eigandinn býr ekki aðeins sjálfur í húsinu, heldur margir fleiri, þar hlýtur það að verða margbrotið. Til þess að ákveða þennan skatt þar, sem svo stendur á, fæ ég ekki annað séð en að rannsaka þurfi hverja íbúð. Fasteignamat hússins nægir alls ekki í því tilfelli. Það þarf að meta hverja íbúð út af fyrir sig. Ef t. d. á B og C búa í sama húsinu, getur íbúðunum verið skipt þannig á milli þeirra, að ein íbúðin sé skattfrjáls, en hinar falli undir skattinn. Ég geri nú fullkomlega ráð fyrir, að rannsóknir þær, sem óumflýjanlegar myndu verða til þess að hægt yrði að framkvæma ákvæði þessara laga, myndu hafa mikinn kostnað í för með sér. Er mér því m. a. s. ekki grunlaust, að hann myndi verða svo mikill, að hann hyggi allverulegt skarð í tekjurnar af frv., þar sem varla er vitanlegt um eitt einasta hús fyrirfram, hvaða skattur ætti að greiðast af því.

Þá eru nýmæli í 4. gr. frv., að húseigendur skuli vera ábyrgir fyrir skattgreiðslu leigjenda sinna. Það er að vísu til í lögum fyrirmæli um það, að húsbændur greiði gjöld fyrir hjú sín, en það mun ekki vera nema ellistyrktarsjóðsgjald og kirkjugjald, sem hvorttveggja eru mjög lágar upphæðir, og húsbændunum er innan handar að halda því eftir af kaupi þeirra. Ég vil nú spyrja: Hvers vegna eiga húseigendur frekar að vera ábyrgir fyrir þessum skatti leigjenda sinna heldur en öðrum sköttum, t. d. tekju- og eignarskatti? hér getur verið um stóra upphæð að ræða, sem þeir beinlínis eigi erfitt með að greiða. Ég fyrir mitt leyti tel þetta háskalegt og ekki í samræmi við nein skattalög. Það á kannske að bæta úr, að skatturinn á ekki að greiðast fyrr en eftir á, en ég tel það litla bót. Leigusali á undir högg að sækja hjá leigutaka með að ná skattinum, og standi leigutaki í vanskilum með húsaleiguna, tapar leigusali ekki aðeins henni, heldur verður hann að greiða skattinn í ofanálag.

Að síðustu vil ég beina því til hv. n., sem málið fær til meðferðar, hvort ekki sé ástæða til þess að taka öll þessi atriði, sem ég hefi bent á, til rækilegrar athugunar.