18.03.1932
Neðri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í C-deild Alþingistíðinda. (4310)

152. mál, stóríbúðaskattur

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það hefir í raun og veru verið tekið fram flest það, er segja þarf um frv. Er því ekki þörf á langri ræðu. En ég verð þó að segja það, að mig undrar það, að þessir menn, sem ganga leitandi og þefandi að efni í skattstofn fyrir ríkið, skuli ekki enn hafa komið auga á ýms önnur gæði, sem mönnum eru þó veitt. T. d. Þetta einmuna goða tíðarfar. Það mætti setja vissan skatt fyrir hvern dag, sem menn fá að hreyfa sig úti í þessu dásamlega veðri. Það væri ekki ósanngjarnara eða vitlausara en sumt annað, sem fram er borið. Annars fer þessi eltingarleikur að nálgast það að vera hlægilegur. Ef sú regla er upp tekin að líta á öll lífsins þægindi ekki sem menningarvott, heldur sem skattstofn, þá má vissulega ganga langt í því. Ég er að vísu sammála hv. þm. G.-K. um það, að ekki sé nein fjarstæða að leggja skatt á mjög stórar íbúðir, ef um þær væri að ræða. Ef maður á og notar hús, sem kostar 70–100 þús. kr. eða e. t. v. meira, einungis fyrir fjölskyldu sína, þá væri rétt að skattleggja slíkt, ef reglur um það væru komnar í ákveðið kerfi. Það er skoðun mín, að miklu réttara sé að leggja á mikla eyðslu heldur en á miklar tekjur. Það er engin ástæða til að draga úr viðleitni manna til að eignast eitthvað, því tekjur slíkra manna koma þjóðarheildinni jafnan á einhvern hátt til goða. En á mikla eyðslu er ávallt miklu réttara að leggja, og þá einnig á óhófsíbúðir sem annað. En það er hið argasta rangnefni og blekking að kalla þetta frv. frv. um stóríbúðaskatt, þar sem miðað er við aðeins 18 þús. kr. hámark á skattfrjálsri íbúð. Hér er aðeins miðað við hið allra minnsta, sem hægt er að komast af með. Það er menningarmál, ekki síður en heilbrigðismál hverrar þjóðar að geta veitt sér góðar íbúðir. Það blátt áfram mannar fólkið að búa í góðum húsakynnum. En þetta frv. fer alveg í gagnstæða átt. Það þrengir mönnum til þess að láta sér nægja lélegar íbúðir og getur því kallast reglulegt skrælingjafrv.

Hér í Rvík kostar sómasamleg íbúð fyrir fjölskyldumann 30–35 þús. kr. Og ég vil ekki skattleggja þá menn, sem geta veitt sér slíkar íbúðir, og tel þær engan óþarfa. Ég tel það engan óþarfa, þó hver meðlimur fjölskyldunnar hafi herbergi fyrir sig. A. m. k. mætti þó gera þá kröfu, að piltar væru sér og stúlkur sér. Að allt heimilisfólk eigi að láta sér nægja eitt svefnherbergi, er hreinasti skrælingjabragur. Mig undrar, að menn skuli vilja koma með till., er stuðlar að slíku.

Frv. villir því á sér heimildir. Það talar um stóríbúðir, en er bara tilraun til þess að neyða menn til að búa í svo litlum íbúðum, að teljast mega alveg óviðunandi fyrir stærri fjölskyldur.

En það er annað um tilgang frv., sem ég hefi að athuga við. Það skín að vísu ekki beint út úr frv. sjálfu, en það kom glöggt fram í ræðu hv. flm. Hann sagði, að þetta væri ekki borið fram sem tekjuaukafrv. Það var þó hið eina, sem gat verið skynsamlegur tilgangur þess. En hv. flm. lagði áherzlu á, að þetta frv. ætti að vera til að bæta úr húsnæðisvandræðunum hér í bæ. Það vantar nú sannarlega ekki frv. um þessi efni. En það gengur eins og rauður þráður gegnum þau öll, að þau beinlínis fæla menn frá að byggja, og það gera þau með því að leggja aukna skatta á húsin. Það er hreinasta hugsunarvilla, að þetta verði til þess að skipta íbúðunum í sundur. Það gæti að vísu orðið til þess, að eitthvað losnaði af einbýlisherbergjum, en á þeim er enginn skattur. Vegna kreppunnar er nú meira framboð en eftirspurn á þeim. Þetta hljóta þessir hv. flm. að vita, ef þessi skattgræðgi hefir ekki hlaupið svo í heilann á þeim, að þeir séu beinlínis orðnir vitlausir. Ef ég t. d. hefi 4 herbergi og eitt eldhús, hvernig á ég þá að skipta því í tvær fjölskylduíbúðir? Húsin eru þannig byggð, að það er ekki hægt að setja í þau eldhús hvar sem er. En vera má, að hv. flm. hafi sýnar fyrirmyndir frá Rússlandi, þar sem hver fjölskylda hefir aðeins eitt herbergi til umráða. Með því að taka það til fyrirmyndar, þá mætti kannske koma 5 fjölskyldum fyrir þar, sem er sæmileg íbúð fyrir eina fjölskyldu nú. ég veit hreint ekki, hvernig hv. flm. hugsar sér, að þetta frv. bæti úr húsnæðisvandræðunum, nema því aðeins, að hann gangi með einhverja slíka hugsun. Það er því hugsunarvilla, að hægt sé að skipta sundur íbúðum, en afleiðingarnar verða aðrar. Skatturinn hlýtur að hækka leiguna á íbúðunum. En aðalafleiðingin verður þó sú, að draga úr byggingum.

Hv. 2. þm. Reykv. hefir glögglega sýnt, hvað húseigendur hér mundu eiga við að búa í sköttum, en auk þess eiga þeir að ábyrgjast skattinn hjá leigjendum sínum. Gæti þá farið svo, enda þótt leigjendur stæðu ekki í skilum með húsaleigu, að húseigendur yrðu að borga skattinn fyrir þá. Upp á slík býti mundi enginn vilja byggja hús, nema þá með svo litlum íbúðum, að hættulaust gæti talizt, að þær kæmust undir skatt.

Það er lagt til, að skatturinn hvíli sem lögveð á húsinu. Það sést þó ekki, hvort hann á að ganga á undan 1. veðrétti til veðdeildar. Ef svo er, þá verð húsin óveðhæf fyrir slíkum lánum. Það dregur enn úr byggingum, ef hlaðið er lögveðum á húsin, sem ganga eiga fyrir 1. veðrétti. Veðdeild getur því ekki lánað út á húsin, nema ákvæði komi í frv., að þetta lögveð komi á eftir 1. veðrétti. Ekki verður heldur hægt að byggja svo, að tryggt sé, að íbúðirnar komi ekki undir ákvæði þessara laga. Það fer eftir fasteignamati í hvert sinn. Og þó virðing á íbúðum sé fyrir neðan hámark hinna skattfrjálsu íbúða þegar byggt er, þá er ekki víst, að svo verði síðar. Og þótt þetta hámark sé sett nú, þá er viðbúið, að skattaþefarar síðari tíma fari fram á, að það verði lækkað, og fái því framgengt. — ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Vegna þess, hvað mér finnst frv. mikil fjarstæða, mun ég greiða atkv. gegn því þegar við þessa umr.