29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í C-deild Alþingistíðinda. (4340)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Sveinbjörn Högnason:

Ég hefi gerzt meðflm. að frv. þessu um að afnema eftirlitsstarfið með bönkum og sparisjóðum, og skal játa strax, að fyrir mér vakir sparnaður, sem hægt sé að framkvæma án þess nokkuð tapist. Við heyrum daglega um það rætt, bæði hér á þingi og utan þess, að nauðsynlegt sé að spara á sem flestum sviðum. Og það er ekki nema eðlilegt að heyra slíkar raddir í því árferði, sem nú er.

Stjórnmálafundir víðsvegar um land brýna fyrir þingmönnum og Alþingi yfir höfuð að gæta hans ýtrasta sparnaðar hvar sem því verður við komið. Ég minnist þess frá þingmálafundum í Rangarvallasýslu, að þar voru samþ. till. í þessa att, og m. a. mjög eindregnar áskoranir til þingsins um að afnema öll óþörf eða lítt þörf embætti. Og svipaðar áskoranir úr öðrum kjördæmum landsins hefi ég rekizt á í þingmalafundargerðum og heyrt sumar lesnar hér upp.

Nú er það svo, að orkað getur mjög tvímælis, hvort embætti er óþarft eða ekki, því að eitthvert gagn má af allflestum embættum hafa, og fer það þá vitanlega að nokkru eftir því, hvaða menn sitja í þeim. Mig rekur ekki minni til, að í þeim mörgu þingmalafundargerðum, sem ég hefi kynnt mér, sé minnzt á nein sérstök óþarfa embætti, sem leggja beri niður, nema þetta eina: um eftirlit með bönkum og sparisjóðum. Og sú áskorun er komin úr Norður-Ísafjarðarsýslu. Þegar því hv. þm. G.-K. segir, að með frv. sé fyrir tilstilli Framsóknar ráðizt á þetta embætti með það fyrir augum að ná sér niðri á pólitískum andstæðingi, þá vil ég benda honum á, að óskin um að fella þetta sérstaka embætti niður kemur úr einhverju allra sterkasta kjördæmi hans flokks, — einu höfuðvígi flokksins, ef svo mætti að orði kveða — en alls ekki úr framsóknarkjördæmi.

Að líkindum eru fá embætti svo gersamlega gagnslaus, að ekkert þarft eða gott geti af þeim hlotizt. En um þetta embætti veit ég ekki til, að hægt sé að benda á neitt, sem sýni, að af því hafi hlotizt nokkurt gagn. Á undanförnum árum hefir verið talsvert mikill öldugangur í fjármálum okkar, og hefði þá mátt vænta þess, að starf og athuganir eftirlitsmannsins kæmu að einhverjum notum. En svo er ekki, svo hægt sé að benda. á.

Hv. þm. G.-K. sagði, að Framsóknarfl. hefði gert sér far um að ná undir sig bönkunum og peningaverzluninni í landinu. En þetta er í litlu samræmi við það, sem hann sagði litlu seinna, að raunar hefðu atvikin hagað því svo, að allt þetta vald hefði komið upp í hendur Framsóknar.

Nú er vitanlegt um hin stórfelldu töp, sem bankarnir hafa orðið fyrir, og einmitt á þeim árum, sem liðin eru síðan eftirlitsmaðurinn var skipaður. Ekki er að sjá, að starf hans hafi komið þar að miklu liði. Og það, að bankarnir hafa orðið hvað eftir annað að leita á náðir ríkissjóðs, sýnir, að eftirlitsmaðurinn hefir ekkert gert í því að fylgjast með og engar bendingar komið frá honum um, hvað væri á ferðinni.

Hv. þm. G.-K. fórust svo orð í sambandi við starf eftirlitsmannsins: „Það eru engin rök í sjálfu sér, að þetta hafi ekki komið að liði“. M. ö. o., að þó að starfið sé einskis nýtt, þá á samt að halda því uppi. (ÓTh: Ekki sagði ég nú þetta). Ójú, hv. þm. sagði þetta; ég hefi skrifað það hér orðrétt eftir honum. — (ÓTh: Nú, stendur það skrifað þarna!). En það er gott, að hv. þm. sér ósamræmið í orðum sínum, enda býst ég við, að honum takist ekki að rekja þetta mál svo langt, að hann sýni það, að bönkunum hafi komið hjálp úr. þessari átt.

Nokkrir flokksbræður hv. þm. G: K. bera fram frv. um að afnema fræðslueftirlitið í landinu, sem margir menn hafa með höndum, en kostar þó ríkissjóð ekki meira en þessi eini maður, sem hér um ræðir. Þetta fræðslueftirlit, sem ég hygg, að ekki hafi staðið nema eitt ár, hefir þó þegar synt, að af því er margfalt meira gagns að vænta en af bankaeftirlitinu, og get ég því ekki séð, hvert samræmi er í því að vilja afnema það, en berjast með hnúum og hnefum gegn afnámi þessa gagnslausa bankaeftirlits.

Hv. þm. G.-K. sagði, að bankaeftirlitsmaðurinn væri nákunnugur öllu því, sem gerzt hefði í sparisjóðum landsins á undanförnum árum. Sennilega getur hv. þm. lagt fram nákvæma skýrslu um þetta, sem kemur fyrir þá hv. n., er frv. fær til athugunar. Það sest þá, hvernig sparisjóðirnir standa sig gagnvart innstæðufé því, er þeir hafa tekið að sér að ávaxta, hvernig þeir hafa lánað út og hvernig það fé er tryggt. Ef slík skýrsla er í nokkru lagi, ætti að mega sjá á hverjum tíma sem er, í hvað miklum ábyrgðum hver einstakur stendur í hverri einstakri lánsstofnun. Ef eftirlitið hefir starfað raunhæft, þá sest af þessum væntanlegu skýrslum, hvar það hefir komið að liði. En mín spá er, að hv. þm. G.-K. takist ekki að leggja fram þær skýrslur, er sýni, að eftirlitið með bönkum og sparisjóðum hafi komið að nokkru minnsta gagni.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði mest um þörfina á þessu eftirliti, en leiddi hjá sér að benda á gagnið, sem af því hefði komið. Þetta getur nú verið álitamál frá mínu sjónarmiði. Að vísu get ég fallizt á, að ef eftirlitið er gott, þá megi vænta þess, að það gæti komið að einhverju gagni. En það er betra að hafa ekkert eftirlit og reiða sig ekkert á það, en að hafa eftirlit, reiða sig á það meira og minna, jafnvel ósjálfrátt, þar sem það er til, en að það bregðist svo ætíð, þegar á það reynir. Þess vegna er bankaeftirlitið, eins og það hefir verið rækt, hreint og beint skaðræði fyrir alla, sem hlut eiga að máli. Upphaflega var það sett til þess að gera menn öruggari, og menn hafa reynt að treysta því óafvitandi, en svo hefir komið á daginn, að á því er ekkert að byggja og engu að treysta í því sambandi.

Hv. þm. G.-K. kvaðst þess fús að taka höndum saman við okkur og leggja niður önnur óþarfa embætti, er hann nefndi svo. Ef hann vill ekki vera meiri í orði en verki, þá vil ég benda honum á, að hér er tækifæri fyrir hann að sýna það, með því að taka höndum saman við okkur, er að þessu frv. stöndum, og samþ. það. Annars er ég þess fús að taka höndum saman við hann og vinna með honum að öllum skynsamlegum sparnaði á hvaða sviði sem er. Aðeins vona ég, að hann fari ekki í manngreinarálit og vinni einhuga að sparnaðinum, án tillits til þess, hvort flokksbræður hans eigi í hlut eða ekki.

Um það eru allir sammála, eins og fjárhag ríkissjóðs er komið, að ýtrasti sparnaður á öllum sviðum er eina færa leiðin út úr því öngþveiti, sem kreppan hefir kornið þjóð okkar í um stund. Og ég veit, að þjóðin væntir þess af fulltrúum sínum hér á Alþingi, að þeir hafi skilning á þessu og jafnframt vilja til framkvæmda.