10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (4341)

540. mál, áfengisbruggun og önnur áfengislagabrot

Jón Auðunn Jónsson:

Ég er þakklátur hv. flm. að einu leyti. Þeir hafa sýnt greinilega fram á það, hver hætta stafar af heimabrugginu. Þeir kveða svo fast að orði í till., að stj. eigi að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til að útrýma brugginu.

Eftir því sem hv. flm. fórust orð, þá veitti ekki af að setja löggæzlumann í hvern hrepp og rannsóknardómara í hvert lögsagnarumdæmi. Hitt mun menn greina nokkuð á um, hvort unnt er að útrýma brugginu með þessum hætti. Ég er sannfærður um, að þótt löggæzlumaður væri settur í hvern hrepp og rannsóknardómari í hvert lögsagnarumdæmi, þá mundi heimabruggun ekki verða útrýmt fyrir því. Hæstv. dómsmrh. hefir fært nokkur rök fyrir því, hve erfitt er að halda bruggurunum í skefjum.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að það væri minna drukkið hér en annarsstaðar. Þessa fullyrðingu er ómögulegt að sanna eða afsanna. Það er mikið flutt inn af ólöglegu áfengi. Bruggunin eykst daglega. Hversu miklu nema þau vínföng? Því er ómögulegt að svara. En hitt mun flestum koma saman um, að á Íslandi hafi undanfarið verið drukkið verr en í nokkru öðru landi.

Hv. þm. sagði, að allar tilslakanir á banninu hefðu orðið til að auka drykkjuskapinn. Mér er nú ekki kunnugt um aðra tilslökun en Spánarundanþáguna. En það hefir hvað eftir annað verið hert á þeim. M. a. hafa sektir verið hækkaðar og fangelsisvist aukin. Ég er sannfærður um, að það hefir haft áhrif til hins verra. Það eru nú færri menn, sem vilja kæra yfir bannlagabrotum, en áður var, meðan sektirnar voru lægri. Það er vitanlegt, að flestir veigra sér við að kæra samborgara sína, þegar vitanlegt er, að þeir verða að fara í fangelsi eða greiða stórkostlegar fjársektir, sem eru í engu samræmi við efnahag þeirra eða afbrot það, sem þeir eru dæmdir fyrir.

Ég verð að segja það, að ég get vel skilið, að dómarar og sýslumenn landsins gangi linlega fram í bannlagaeftirliti. En svo er þar ástatt, að þeir, sem brotlegir verða, fá margra mánaða og jafnvel ára fangelsi, og það fyrir brot, sem eftir almenningsálitinu jafnast ekki einu sinni á við smærri glæpi. En nú er refsað fyrir brot á bannlögunum sem stórglæp.

Hv. þm. sagði, að ekki væri hægt að brugga svo í fámennum sveitum, að það kæmist ekki upp. Ég held þvert á móti, að mjög sé auðvelt að framkvæma bruggun í sveitum, ekki sízt fámennum sveitum. Til þess liggja svo eðlilegar ástæður, að óþarfi er að skýra þær.

Hv. þm. kom með þá uppástungu, að setja skyldi einkasölu á pressuger, og virtist hann líta á þetta sem einhvern Kína-lífs-elixír banninu til handa. Þessi till. er annaðhvort borin fram í gamni eða að svo lítt hugsuðu máli, að ekki tekur því að eyða um hana orðum. Hv. þm. Dal. minntist á nokkur efni, sem búa má til áfengi úr, t. d. kartöflur. Á síðastl. ári urðu mjög miklar skemmdir á kartöflum í Þýzkalandi, og lágu þar 6000–7000 tonn undir eyðileggingu. En hvað haldið þið, að hafi verið tekið til bragðs? Það var bruggað áfengi (spíritus) úr öllum þessum skemmdu kartöflum, en við það jókst áfengisframleiðslan svo gífurlega, að engin leið var að selja það allt til drykkjar. En svo í febr. í vetur sem leið voru sett lög þess efnis, að blanda allt benzín með svo og svo miklum spíritus, svo að hægt væri að eyða þeim miklu spíritusbirgðum, sem til voru, og gera sér einhverja peninga úr.

Flestar korntegundir mun hægt að nota til áfengisbruggunar, og er það því sannarlega næsta broslegt að tala um að hefta sölu eða innflutning á korni, kartöflum, geri o. s. frv.

Það er svo, að því meiri höft sem sett eru, því verr er vínið notað. Ég er sannfærður um það, að það er alveg rétt, sem hæstv. dómsmrh. sagði um víntímann á hótel Borg. Þegar menn fá ekki þann tíma, sem þeir þurfa til þess að drekka með allri skynsemi, þá verður það til þess, að menn fara að drekka ósiðsamlega: Við vitum það allir, sem höfum ferðast erlendis, að þar er drukkið öðruvísi en hér. Hæstv. dómsmrh. hélt því fram, að nú sæist ekki fullur maður í Reykjavík á götum úti. Ég fór af þingfundi kl. 2 eina nótt og niður í togara; ég þurfti að tala við skipstjórann. En á heimleiðinni sá ég 15–20 ölvaða menn. Og þeir sjást á hverjum degi fleiri eða færri hér í höfuðborginni. Ég skal líka benda á, til að afsanna þessi ummæli hæstv. dómsmrh., að samkv. skýrslu lögreglustjóra hafa sektir fyrir ölvun hér í Rvík aukizt stórlega, 1926 voru þau 153, 1927 127, 1928 234, 1929 416, 1930 809 og 1931 516.

Ég mun þá ekki ræða meira um þessa till. að sinni. Hún er borin fram af góðum hug, en þau ráð, sem þar eru upp tekin, verða engin happaráð til útrýmingar heimabrugginu, en geta kostað ríkissjóð nokkur hundr. þús. kr. Hæstv. dómsmrh. hefir nú hælt svo mjög sínum aðgerðum í þessu máli, að ég sé ekki, að við getum gert annað betra við till. en að vísa henni til stjórnarinnar.