29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í C-deild Alþingistíðinda. (4347)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég get svarað þessari fyrirspurn hv. 2. þm. Skagf., en vitanlega eingöngu fyrir þann tíma, sem ég hefi setið í stjórn.

Það hefir ekki komið til minna kasta að heimta af eftirlitsmanninum almennar skýrslur, og hann hefir ekki heldur komið með neinar aðvaranir eða séð ástæðu til að vekja athygli fjmrn. á ástandi þeirra stofnana, sem undir hann heyra, að einni undanskilinni. Þessi stofnun er Útvegsbankinn. Mér hefir verið það ljóst síðan ég tók við stöðu fjmrh., að ráða þurfti fram úr málum Útvegsbankans með aðstoð þings og stjórnar. Ég hafði því fengið hjá eftirlitsmanninum greinagóðar upplýsingar, sem áttu þátt í því, að ég gat tekið skjóta afstöðu til málsins. Að öðru leyti hefi ég ekki leitað til eftirlitsmannsins nema um samþykktir á reglugerðum sparisjóða og öðrum slíkum minni háttar störfum, sem skylt er að fá álit hans um. En hvernig hans starfi hefir verið varið áður en ég kom í stj., get ég ekkert sagt um, en tel þó, að hann hafi ekki verið svo fastur við starfið sem skyldi. En ég hygg, að erindisbréf hafi aldrei verið gefið út, og ég tel rétt, ef þetta starf heldur áfram, að slíkt bréf verði gefið út, en ef embættið verður niður fellt, þá kemur það vitanlega ekki til greina.

Það var upphaflega ætlazt til þess með stofnun þessa embættis, að draga ýms viðkvæm fjármál banka og sparisjóða út úr svæsnum flokkadeilum. Sú hugsun var réttmæt, og er vonandi, að þetta starf verði unnið framvegis á þann hátt, að hinum upphaflega tilgangi verði náð.

Ég er ekki með þessum orðum að fella neinn almennan dóm um starf þess manns, sem nú gegnir þessu embætti; til þess er ég ekki nægilega kunnugur hans starfi, en ég veit, að þeir, sem á undan mér hafa verið í ríkisstj. hafa ekki kvartað, en um samstarf þeirra veit ég ekki.

Ég álít, að eftirlitsmaðurinn geti orðið að miklum notum og gefið fjmrn. upplýsingar, sem það getur ekki án verið.