29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í C-deild Alþingistíðinda. (4351)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Magnús Guðmundsson:

Það mátti skilja á orðum hv. 2. þm. Rang., að hann vildi gera lítið úr því, sem hæstv. fjmrh. sagði, af því að hæstv. ráðh. vildi ekki bera vitni með honum í þessu máli. Ég hygg, að það sé skylda hæstv. fjmrh. að gera grein fyrir áliti sínu á nauðsyn þessa embættis, og mér virtist hann gefa um það yfirlýsingu, sem ég fyrir mitt leyti skildi vel. Þá vildi hv. þm. telja sér vísan stuðning minn við þetta frv., en hann getur sparað sér það ómak að tíunda mitt atkv., og yfirleitt allar áhyggjur af því, hvernig ég snýst við þessu máli. Ég hefi aldrei sagt, að ég teldi þetta embætti óþarft, en hitt sagði ég, að ég hefði aldrei gert mér miklar vonir um árangurinn af þessu embætti.

Um mitt atkv. í þessu máli fer nokkuð eftir því, hvað verður um önnur sparnaðarfrv., sem lögð hafa verið fyrir þingið. ég vil gjarnan sjá, hvernig hv. þm. og samflokksmenn hans snúast við öðrum sparnaðartill., sem snerta þeirra flokksmenn. ég, vil sjá, hvort þeir ráðast á þetta embætti af því, að það er stjórnmálaandstæðingur þeirra, sem þar á hlut að máli.

Þessi bankaeftirlitsmaður var á sínum tíma skipaður af stjórn Framsóknarfl., enda stoð hann þeim flokki þá nær en nú. Það er því ekki útilokað, að það hafi nokkur áhrif á suma flokksmenn hæstv. stj., að eftirlitsmaðurinn er nú í andstöðu við þann flokk.

Þá minntist hv. þm. á, að sá maður, sem gegnir þessu embætti, yrði að helga því alla starfskrafta sína, en það skilst mér hann geta að mestu, þó að hann sé þm. að auki, eins og hv. 2. þm. Rang., sem hratt fyrir prestsembættið getur rækt þingmennskustarfið. Núv. bankaeftirlitsmaður hefir ekkert annað aukastarf en þingmennskuna. Hv. þm. talaði um, að eftirlitsmaðurinn hefði sýnt megna vanrækslu í sínu starfi, en það eru engin rök fyrir niðurlagningu embættisins, heldur ætti, ef sú ásökun væri á rökum byggð, að setja manninn frá embætti, ef hann vildi ekki bæta ráð sitt. Annars er það alger misskilningur hjá hv. 2. þm. Rang., þar sem hann heldur því fram, að af því að bankaeftirlitsmaðurinn hafi ekki fengið neitt erindisbréf, þá hafi hann ekki gert annað en hirða laun sin. Starfsvið bankaeftirlitsmannsins er ákveðið í lögunum um stofnun embættisins, og auk þess geta störf hans verið ákveðin samkv. viðtölum við fjmrh. á hverjum tíma. Ég veit að vísu ekki, hvort þessu hefir verið þannig hattað í tíð núv. stj., en hitt er mér ljóst, að það er vel hægt. Þess vegna sé ég ekki, að Það skipti miklu máli, þó að þetta umtalaða erindisbréf hafi ekki verið gefið út til birtingar í stjórnartíðindunum.