29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í C-deild Alþingistíðinda. (4352)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Einar Arnórsson:

Hv. 2. þm. Rang. hefir misskilið það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Mér hefir aldrei komið til hugar að segja, að ef bankaeftirlitsmaðurinn rækti ekki sitt starf, þá ætti fjmrh. einn sök á því, það var alls ekki mín meining.

En ef það hefir komið á daginn, að þetta starf hefir verið vanrækt, og ef það hefir verið rækt eins slælega og hv. 2. þm. Rang. taldi öll þau ár síðan embættið var stofnað, þá er það líka áreiðanlega sök yfirboðara eftirlitsmannsins, því að þeir hefðu átt að aðvara hann eða finna að við hann, ef þeim hefði þótt ástæða til. En ef þeir hafa ekki gert það, þá ber það vott um eitt af tvennu, að þeir hafi verið ánægðir með starfrækslu hans eða að þeir hafi brugðizt skyldu sinni um að fylgjast með því. Ég veit ekki, hvort af þessu er réttara, en ég vil ganga út frá hinu fyrrtalda, að þeir hafi verið ánægðir með starfrækslu eftirlitsmannsins.

Um árangurinn af svona starfi er ekki gott að fullyrða, og okkur þm. brestur aðstöðu til þess að dæma um það. Það er hæstv. fjmrh., sem hefir mestan kunnugleik á því, og eftir því sem hann lýsti áðan í ræðu sinni, þá hefir hann haft talsvert gagn af starfi eftirlitsmannsins síðan í sumar, og er það eini vitnisburðurinn, sem fyrir liggur um þetta atriði. Hitt má vel vera, að stj. hafi ekki fundið ríka ástæðu til þess að krefja eftirlitsmanninn um skýrslur um ástæður Íslandsbanka, ekki sízt vegna þess, að einn af fyrrv. fjmrh., Magnús Kristjánsson, var jafnframt í bankaráði Íslandsbanka og að forsrh. var alltaf formaður bankaráðsins, svo að stj. var í lófa lagið að fylgjast með um hag bankans. Þó mun bankaeftirlitsmaðurinn hafa rannsakað skjöl og bækur Íslandsbanka 1926, og að líkindum gefið stj. skýrslu eða bendingar um, hverjir af viðskiptamönnum bankans væru verst settir og hvar búast mætti við, að bankinn yrði fyrir töpum. Eftir það hlaut stj. því að hafa sérstakan ugg gagnvart þeim skuldunautum, sem á var bent, og gæta þess, hvernig um þá færi.

Þetta bankaeftirlitsstarf er fyrst og fremst stofnað til þess að tryggja almenningi, að fjárgeymsla banka og sparisjóða sé í góðu lagi, en það hefir líka mikilsverða þýðingu fyrir þá, sem stjórna bönkunum, að fá leiðbeiningar hjá eftirlitsmanninum um athugaverðar lánveitingar, ýmiskonar bókfærsluatriði og fleira, sem þeir kynnu að vilja spyrja hann um. Þetta embætti er því jöfnum höndum stofnað fyrir almenning og þá, sem stjórna bönkum og sparisjóðum, alveg á sama hátt og endurskoðendur eru nauðsynlegir til leiðbeiningar raðherrum og til fræðslu alþingismönnum og almenningi. Það getur oft og tíðum bjargað stofnunum frá hruni, þegar endurskoðendur benda gjaldkerum þeirra á eitt eða annað, sem þeim ber að varast eða taka til greina.

Ég held, að það sé allt of mikil svartsýni hjá hv. 2. þm. Rang., að hér á landi finnist varla hæfir menn til þess að gegna slíku starfi. Ég hygg, að það megi finna ýmsa á meðal starfsmanna í bönkunum og þeirra, sem hafa verið löggiltir endurskoðendur, er væru vel færir um þetta starf, auk núv. eftirlitsmanns. Reynslan hefir sýnt það annarsstaðar, t. d. í Danmörku, að löggiltir endurskoðendur hafa gefizt vel á þessu sviði. Þessi mótbára er því einskis virði.

Það virtist koma fram í ræðu hv. flm. frv., einkum ræðu hv. 2. þm. Rang., að frv. þessu er stefnt gegn þeim manni, sem nú hefir þetta embætti. (SvbH: Hvernig kom það fram?). Ég spurði hv. þm., hvort hann hefði ekki haldið því fram, að starfið hefði verið slælega rekið, og hann kinkaði kolli því til samþykkis, og allur andinn í ræðu hans benti líka til þess; ég hygg, að enginn þdm. hafi verið svo óþefvís, að hann hafi ekki skilið, hvert ræðunni var stefnt.