25.05.1932
Sameinað þing: 11. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (4374)

714. mál, atkvæðagreiðsla alþingiskjósenda um áfengislöggjöfina

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Mér þykir það vel viðeigandi, að þetta þing, sem nú fer að ljúka störfum, þó störfin séu engin eða verri en engin, sem eftir það liggja, geri það með því að spjalla með líkum hætti og hv. þm. Barð. um áfengismál og reyni að bjarga þjóðinni út úr kreppunni með því að láta hana fá í viðbót við það, sem er í landinu, brennivín, whisky og koníak. Ég segi, að það sé viðeigandi, að þingið nú á þessum tímum ljúki störfum með því, að mikilsmegandi maður í ráðandi þingflokki klykki út með svipuðum ummælum og hugleiðingum eins og hv. þm. flutti hér áðan. Þingið hefir nú setið hér í liðlega 100 daga. Stjórnarskrármálið er óleyst. Það er vitað, að atvinnuhorfur í landinu hafa aldrei verið ömurlegri en nú, og í allan vetur hafa að jafnaði verið á 3. þús. manns atvinnulausir. Það er vitað, að togaraflotinn er að hætta veiðum, og það er víst, að síldarútgerðin verður lítil í sumar og lítið sem ekkert verður unnið að opinberum framkvæmdum á þessu ári og því næsta. Verðlag á ýmsum afurðum er lægra nú en nokkur dæmi eru til. Yfirleitt virðist stefna til hreins ófarnaðar fyrir þjóðina. Tollar hækka á almenningi, enginn eyrir fæst til atvinnubóta. En föðurlandsvinir og framsýnir stjórnmálamenn í flokki stj. sjá það helzt til ráða að leyfa að brugga öl, sem menn geta orðið fullir af, og þar að auki að flytja inn brennivín, romm, whisky og koníak. Svona ætla þeir að hjálpa þjóðinni á þessum erfiðu tímum.

Áður en ég drep á till. sjálfa, vildi ég víkja nokkrum orðum til forseta. Það bíða ýms mál afgr. í Sþ., m. a. till. frá mér og ýmsum öðrum í sama máli og þessu, sem ekki hefir þó gengið lengra en að skora á stj. að brýna fyrir lögreglustjórum og öllum landsmönnum að sjá um, að áfengislögunum sé hlýtt. Ég skal játa, að þetta er ekki jafnstórkostleg framkvæmd til kreppuráðstafana eins og í till. hv. þm. Barð., en ég vænti þess, að þar sem ekki er lengra gengið og þar sem till. kom fyrr, þá tæki forseti hana á dagskrá á undan þáltill., sérstaklega vegna þess, að það liggur í augum uppi, að hvernig atkvgr. fer um hana, hlýtur að hafa áhrif á það, hvernig atkvgr. fer um þessa till. Ég hafði mælzt til þess við forseta, að hann tæki hana á undan á dagskrá, en við það var ekki komandi.

Þá skal ég víkja að till. sjálfri. Ég er hv. flm. sammála um það, að rétt sé að spyrja þjóðina, hvað hún vilji í þessu máli. Þegar bannlögin voru samþ., þá var það gert samkv. yfirlýstum vilja þjóðarinnar með atkvgr., sem fram fór um það mál. En þegar bannlögin voru afnumin, eða þegar Spánarundanþágan var veitt, þá var það gert að þjóðinni forspurðri, og virtist þó sjálfsagt að skjóta því undir dóm alþjóðar, úr því að þjóðaratkvgr. fór fram, þegar bannlögin voru sett. Ég skal nú fallast á það, að ástæða sé til þess að spyrja þjóðina um álit hennar á þessu máli. En þá verður að leggja þessa spurningu skýrt og refjalaust fyrir þjóðina, en það er ekki gert í till. hv. flm.

Ennfremur verður að leggja spurninguna þannig fyrir, að ekki blandist saman við hana önnur mál, þegar greidd eru atkv. um hana. Ég lít svo á, að óheppilegt sé allra hluta vegna, að slík atkvgr. fari fram samtímis almennum þingkosningum. Það er sjálfsagt að láta fara fram sérstaka atkvgr. um þetta, lausa við önnur mál, og ekki á þeim tíma, sem heitastar eru pólitískar deilur í sambandi við kosningar, enda lýtur að því 1. brtt. mín og hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 747.

Þá er í öðru lagi spurt um það í till., hvort kjósandi telji rétt að nema úr lögum bann það, er nú gildir um innflutning áfengra drykkja. Ég kysi heldur, að þessi málsgr. væri orðuð eins og í brtt. okkar hv. 1. þm. Reykv. Það er sem sé ekki til neins að vera að breiða snotra blæju yfir það, sem verið er að spyrja um. Það, sem verið er að spyrja um, er þetta, hvort kjósandinn vilji fá til viðbótar því, sem fyrir er af Spánarvíni, smygluðu áfengi og heimabrugguðu víni, leyfðan innflutning á sterkum drykkjum. Þannig er spurningin lögð fyrir blátt áfram og hreinlega, og henni verður kjósandinn að svara. Hv. þm. sagði líka, að það væri gert í „agitations“-augnamiði að orða greinina svona. Vitaskuld er það gert til þess að þeir, sem greiða atkv. um þetta, vaði enga villu, hvað hér sé um að ræða, sem sé að hleypa þessum sterku drykkjum inn í landið til viðbótar við það, sem fyrir er.

Um 2. lið till. er það að segja, að eins og hann er orðaður er hann verri en enginn. Hv. þm. sagði, að meiningin með því að spyrja að þessu væri sú, að fá vitneskju um, hvort kjósendur vildu setja skynsamlegar reglur um meðferð áfengis. Ég geri ráð fyrir, að enginn kjósandi hafi á móti því að setja skynsamlegar reglur um meðferð áfengis, en það kynni að vera, að þeim sýndist sitt hverjum um það, hvað væri skynsamlegt í þessu efni. Það er ekki til neins að vera að tala um að setja reglur, þegar ekkert er gefið í skyn, hvernig reglurnar eigi að vera. Það er því verra en einskis virði. Ég skal skýra þetta með dæmi. Það eru mismunandi reglur um meðferð áfengis. Á Ísafirði gilda sérstakar reglur um sölu áfengis, þar sem sölutíminn er styttri en annarsstaðar, ekki selt fyrir helgar og ekki langan tíma fyrir stórhátíðir. Hugsa hv. flm. sér, að einhverjar reglur líkar þessum yrðu settar? Ég tel óumflýjanlegt, ef á að greiða atkv. með till., að gera sér grein fyrir því, hvernig reglur menn hafa hugsað sér.

Ég vona, að forseti hafi ekkert á móti því, að fyrst komi til atkv. brtt. á þskj. 748, því hún gengur lengra hvað snertir breyt. á upphaflegu till. Ég er sammála þeim hv. flm. um það, að það eigi að spyrja kjósandann um þrennt. Í fyrsta lagi, hvort hann vilji una við núv. ástand, í öðru lagi, hvort hann vilji leyfa innflutning á sterkum drykkjum, brennivíni, whisky, koníak og þessháttar, og í þriðja lagi, hvort hann vilji þrátt fyrir allt hverfa að því ráði að taka upp algert innflutningsbann. Eigi að vita um vilja manna í þessu efni, þá er óhjákvæmilegt að spyrja um þetta, svo skoðun manna komi skýrt fram. Ég mun því greiða atkv. með brtt. á þskj. 748, en að henni fallinni mun ég að sjálfsögðu greiða atkv. með mínum brtt. og hv. 1. þm. Reykv., en óbreyttri till. get ég ekki greitt atkv. mitt.