25.05.1932
Sameinað þing: 11. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (4375)

714. mál, atkvæðagreiðsla alþingiskjósenda um áfengislöggjöfina

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 748 við þáltill. þessa, með hv. 3. landsk. Ég þarf ekki mörg orð um þessa brtt., vegna þess að hún er að nokkru leyti samhlj. brtt. á þskj. 747, sem hv. þm. Seyðf. og hv. 1. þm. Reykv. flytja. En að því er snertir sérstaklega 1. og 2. tölul. brtt. þykir mér rétt að minnast ofurlítið á þá liði. Ég vil þá taka fram og undirstrika það, sem hv. þm. Seyðf. sagði, að þegar þjóðin er spurð, þá er sjálfsagt að spyrja hana skýrt og ákveðið, svo hægt sé að svara játandi eða neitandi. En mér virðist till. eins og hún liggur fyrir frá hv. flm. vera mjög óákveðin. Í 1. lið brtt. okkar er spurt að því, hvort kjósandinn vilji algert aðflutningsbann á áfengi. Í umr. nú hefir ekki verið minnzt á þennan lið, nema lítilsháttar af hv. þm. Seyðf. Aðalflm. till. minntist ekki á hann. En hér liggur að mínu viti fyrir sú spurning, sem að öllu leyti er ákveðin og refjalaus. Ég bjóst við, að aðalflm. þáltill. og jafnvel aðrir flm. mundu fúsir vilja ganga inn á, að þjóðin væri spurð á þennan hátt; því vitanlegt er, að aðalflm. fylgir þeirri stefnu, að aðflutningsbannið verði afnumið, og því eðlilegt, að hann vilji fá svar við því frá þjóðinni. En 1. liður í till. hv. flm. er alls ekki nógu skýr, vegna þess að þar er tekið svo til orða, hvort kjósandinn vilji nema úr lögum bann það, sem nú gildir um innflutning áfengra drykkja. Nú vita allir, að það er ekki lengur að tala um neitt bann, það er ekki nema takmörkun á innflutningi. Þess vegna álít ég, að þar sem þjóðin hefir áður verið spurð um þetta sama efni, um algert innflutningsbann, þá sé alveg sjálfsagt að spyrja hana nú um það. Ég sé ekki neina ástæðu fyrir þá að vera á móti þessari brtt., nema þeir óttist, að það kynni að vera tilfellið, að meiri hl. kjósenda í landinu vildi ennþá aðflutningsbann, og þess vegna væri betra að spyrja á huldu. Ég get ekki skilið það öðruvísi.

2. liður í till. okkar hljóðar um það, hvort kjósandinn vilji una við núgildandi áfengislöggjöf með þeim umbótum, sem hægt væri að gera á henni án þess að afnema Spánarsamninginn. Ég tel sjálfsagt að spyrja um þetta, því það er það eina, sem kjósendurnir þekkja ákveðið og geta sagt já eða nei við. Á annan hátt tel ég ekki rétt að spyrja. Það verður að spyrja þannig, að þjóðin geti svarað játandi eða neitandi, því þó að svarið verði játandi því, að kjósandinn vilji setja reglur um meðferð áfengis, þá er ekkert sagt um það, hvernig þær reglur eigi að vera, eins og hv. þm. Seyðf. hefir réttilega tekið fram.

Um 3. liðinn get ég verið fáorður, því hann er shlj. 2. lið í brtt. hv. þm. Seyðf. og hv. 1. þm. Reykv., og hefir hv. þm. Seyðf. mælt fyrir honum, svo ég sé þess vegna ekki ástæðu til að orðlengja um hann.

Ég sé ekki heldur ástæðu til þess að fara út í ýmislegt, sem fram kom í ræðu hv. þm. Barð., þótt hann gæfi nokkurt tilefni til þess. Ég geri ekki ráð fyrir, að þau ummæli, sem hann viðhafði um bann yfirleitt, hafi áhrif á úrslit þessarar till., sem hér liggur fyrir. Ég álít, að það eigi tæplega við, þegar verið er að tala um atkvgr. þjóðarinnar, að þm. fari að vega að þeim, sem eru annarar skoðunar en hann sjálfur. Ég vildi aðeins drepa á þetta til þess að benda hv. aðalflm. á, að það fór ekki vel á því. Hvernig sem á er litið, þá get ég ekki búist við öðru en að bak við þessa till. liggi það, að fá hrein og skýr svör þjóðarinnar. Og þá get ég ekki séð annað en að allir hljóti að vera sammála um að hafa spurningarnar svo skýrar, að hægt sé að svara þeim játandi eða neitandi, því á annan veg á kjósandinn ekki kost á að svara. Deilan verður þá um það aðeins, hvort efni till. er það, sem vera á. Ég get búizt við því af því, sem ég hefi heyrt á máli manna síðan brtt. kom fram, að um það geti verið skiptar skoðanir, sérstaklega um 1. lið brtt. En ég ætla ekki að fara út í að svara því fyrr en þeim, sem þannig kunna að líta á, hefir gefizt kostur á að færa fram sín rök fyrir því. Sjálfur lít ég svo á, að sjálfsagt sé að spyrja þjóðina, hvort hún vilji algert bann eða ekki; og út frá þeirri skoðun er þessi brtt. flutt. Hinsvegar skal ég taka til athugunar aths., sem fram kunna að koma viðvíkjandi þessari till., en það geri ég ekki fyrr en rök hafa verið færð fyrir þeim. Ég skal svo ekki orðlengja um þessar brtt. að sinni. Ég vænti þess, að þingið, ef það á annað borð tekur þá ákvörðun að bera þetta undir atkv. þjóðarinnar, beri fyrirspurnirnar hreint og refjalaust fram.