31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í C-deild Alþingistíðinda. (4406)

174. mál, hámark launa

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ég hefi samið allýtarlega grg. með þessu frv. og get því að mestu leyti látið mér nægja að vísa til hennar. Ég ætla aðeins að benda stuttlega á þær höfuðreglur, sem ég tel, að eigi að gilda viðvíkjandi kaupgreiðslum ríkisins, og vildi mælast til, að yrðu viðurkenndar af hv. d. og hv. þm. yfirleitt með samþykkt þessa frv.

Aðalreglan verður að vera sú, að menn, sem hafa fullkomin störf á hendi fyrir ríkið, séu svo hátt launaðir, að hægt sé að krefjast þess, að ríkið eigi alla starfskrafta þeirra óskipta, enda megi þeir ekki taka að sér önnur störf, nema fyrir ríkið, og þá án aukaþóknunar.

Önnur aðalregla á að vera sú, að hið fyllsta samræmi sé í launagreiðslum allra starfsmanna ríkisins, hvort sem þeir eru embættismenn eða annarsháttar starfsmenn.

Nú kann alþjóðarheill að krefjast, að þessar höfuðreglur séu brotnar og að fela þurfi embættismanni eða starfsmanni slík störf, er greiða þarf fyrir, ef þau eiga að fast unnin, og er þá rétt, að lagaheimild komi til.

Launahámark það, sem hér er farið fram á að sett verði, er valið nokkuð af handahófi og getur verið álitamál. Og raunar eru höfuðakvæði frv. varla framkvæmanleg, meðan hin úreltu launalög frá 1919 eru í gildi. Vil ég, að hv. þdm. geri sér þegar ljóst, að samþykkt frv. leiðir af sér tafarlausa endurskoðun þeirra laga. Mér er ljóst, hverjum erfiðleikum það er bundið að fá fullt samræmi í allar launagreiðslur ríkisins — milli hinna einstöku starfsgreina. Það leiðir af samkeppninni við einkafyrirtækin. Ríkið verður að borga markaðsverð fyrir hvert starf. Meðan læknar vinna sér inn með „praksis“ 2–3-faldar tekjur á við bezt launuðu embættislækna, verður ríkið að fylgja á eftir með launagreiðslur til þeirra eða eiga á hættu að fá lakari menn. Embættislausir lögfræðingar, margir hverjir, fá margföld laun á við prófessora og dómara. Hér var nýlega getið um einn málaflutningsmann, sem fékk 25 þús. kr. greiddar fyrir flutning á einu máli. Það þótti að vísu talsvert ósvífin kaupkrafa, en sennilega hefði það þótt sæmileg kurteisi, ef hann hefði farið fram á meðalárslaun prófessors fyrir þetta viðvik. Annað eins og þetta hlýtur að hafa áhrif á embættislaun lögfræðinga. Líkt er með bankastjórana. Það er von, að hátt kaup þurfi til að tryggja sér hæfa menn til þeirra starfa, meðan forstjórar einkafyrirtækja fá þau laun, sem almennt er að greiða þeim.

En þó að þetta sé svo, er hitt vel framkvæmanlegt, að hafa fullt samræmi í launagreiðslum innan hverrar starfsgreinar. Lengra verður ekki komizt, nema það takist að setja hömlur á hátekjur einstaklinga og hálaunagreiðslur einkafyrirtækja.

Samræmis vegna væri líklegast réttast að bæta því inn í frv., að einnig skuli setja hámarkslaun fyrir starfsmenn bæjar- og sveitarfélaga, og þótt slíkt væri ýmsum vandkvæðum bundið, væri engin fjarstæða að láta sér detta í hug, að hið sama yrði einnig látið ná til einkafyrirtækja — hinna þýðingarmestu þeirra a. m. k. Og fel ég væntanlegri n. að taka það til rækilegrar athugunar.

Ég get búizt við að heyra þær undirtektir undir þetta frv., að þó að það fari í rétta átt, sé engin leið að samþ. það, á meðan launalögin eru í þeim skorðum, sem þau eru. En þá er að endurskoða launalögin jafnframt, og er meira en kominn tími til þess. Þættist ég ekki hafa til einskis flutt þetta frv., ef það gæti ýtt undir þá endurskoðun. Og ekki skal ég gera það að ágreiningsmáli, ef menn kjósa heldur að fella ákvæði þessa frv. inn í endurskoðuð launalög, og skal játa, að þar eiga þau fullt eins vel heima og í sérstökum lögum.