31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í C-deild Alþingistíðinda. (4407)

174. mál, hámark launa

Ólafur Thors:

Í grg. þessa frv. stendur, að í ráði hafi verið, að ég flytti þetta frv. með hv. þm. Ísaf., og segist hann hafa beðið mig um það og ég hafi lofað því. Þetta eru rakalaus ósannindi. Hv. þm. hefir aldrei beðið mig að flytja frv. með sér, og ég veit, að honum hefði verið síður en svo vel við, að ég hefði flutt það með honum; hann hefði víst ógjarnan viljað fá svo góðan liðsmann með frv. sem mig, og eiga þannig fremur á hættu, að það yrði samþ. Því það vita allir, að þetta frv. er flutt vegna grg., og meðal hv. þm. gengur það undir nafninu: „Frv., sem samið var vegna grg.“ Það kemur líka glögglega í ljós í grg., að þessi hv. þm., sem orðið hefir fyrir talsverðu aðkasti hér í hv. d. fyrir það, hve hann er orðinn hlaðinn bitlingum, er með þessu frv. að gera einskonar Pílatusaþvott á sjálfum sér.

Hv. þm. segir frá því í grg., að það sé ótækt, að embættismenn ríkisins hafi ekki hærri laun en þeir nú hafa, og láti svo ríkinu í té alla starfskrafta sína, í stað þess að hafa lág laun og vera svo hlaðnir bitlingum, eins og t. d. hann sjálfur. En svo bætir hann við, að ef nú samt sem áður þurfi að hækka þessi laun, þá eigi ekki að gera það í neinu pukri, heldur með vitund og vilja Alþ. Hann segir í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Ef ástæða er til að gera undantekningar frá þessu í einstökum tilfellum“ — hann meinar náttúrlega landlæknisembættið í þessu tilfelli — „á það ekki að vera neitt stjórnarpukur, heldur á opinber samþykkt Alþingis að liggja fyrir um hvert einstakt tilfelli. Aukastörfin og greiðslur fyrir þau hljóta að koma misjafnlega og óréttlátlega niður og stjórnarvöldunum er með þessu“ — svo kemur nú rúsínan — „gefinn óþarfur möguleiki til að beita hlutdrægni og þar með hættulegt vald yfir þeim embættismönnum og starfsmönnum, sem kunna að hafa hjartað þar, sem peningarnir eru.

Ég sem flyt þetta frv., er áður en ég veit af orðinn einn af þessum bitlingaembættismönnum — —“, þessum, sem hafa hjartað þar, sem peningarnir eru. Það er ákaflega gaman að heyra þessa játningu hv. þm. Það er sem sé vitað, að peningarnir hafa komið svo við hjartað í hv. þm., að hann er nú orðinn á báðum áttum í stjórnmálunum. Stj., sem kann að nota sér fjármuni ríkissjóðsins til að kaupa fyrir fylgi, hefir notað sér þetta „vald yfir embættismanni, sem hefir hjartað þar, sem peningarnir eru“. Og nú er hann allt í einu búinn að fá svo mikla sómatilfinningu, að hann er farinn að hálfskammast sín fyrir þetta. En hann treystir sér ekki til að standa einn og hjálparlaus gegn freistingu fjármunanna. Það er með hann eins og yfirfallinn drykkjumann, sem vill gjarnan hætta að drekka, en treystir sér ekki til þess án þess að fá utanaðkomandi styrk, og fer því í stúku. Nú er landlæknirinn að reyna að finna upp nokkurskonar stúku fyrir hálaunaða bitlingamenn, með því að vilja nú láta lögbanna mönnum að taka hærri laun en að ákveðnu hamarki. Og þetta gerir hann, þó hann viti, að af þessu leiðir þau vandræði, að hæfir menn fast ekki í embættin. Hann segir að vísu, að það sé sama, hver situr í landlæknisembættinu, og er það sjálfsagt rétt, úr því hann hefir verið skipaður í það, því sjálfsagt hefði nú verið hægt að fá eins hæfan mann í það fyrir lítil laun. „En verr getur farið um önnur störf“, segir hv. þm., „því að þó reynt sé í frv. að koma á sem mestum jöfnuði milli embættismanna og starfsmanna ríkisins og starfsmanna við stofnanir ríkisins, verða einkastörfin hættulegir keppinautar. Í minni starfsgrein bendi ég á landsspítalann, sem að sjálfsögðu yrði að loka, ef frv. yrði samþ. að öðru óbreyttu“. — „Er raunar vissara fyrir væntanlega nefnd, sem þetta mál fær til meðferðar, að svipast víðar um, hvort ekki beri nauðsyn til að gera annarsstaðar tilsvarandi ráðstafanir“.

Um leið og hann ber fram þetta frv. segir hann, að í hans starfsgrein verði afleiðingin af því sú, að það verði að loka landsspítalanum og að það sé vissara að athuga, hvort afleiðingin af því verði ekki sú sama víðar. Hvað er nú þetta annað en látalæti? Ef hv. þm. er nú farinn að iðrast eftir, hvað hann hefir þegið mikið af bitlingum, og yfir því, hvaða áhrif þeir hafa haft á hans stjórnmálaskoðanir, þá held ég, að hann ætti að ganga til altaris hjá hv. sessunaut mínum (HV), krjúpa á kné og biðja guð að hjálpa sér og snúa á betri brautir, og það skal ég segja amen í minni ræðu. En að vera að koma til þingsins og biðja það að hjálpa sér frá mammon og öllum hans árum, það er bara til athlægis fyrir mann, sem er landlæknir. Það geta víst fáir trúað því, að landlæknirinn hafi í alvöru borið fram frv., sem hefir þær afleiðingar, að það verður að loka landsspítalanum.

Í þeim ræðustúf, sem hv. þm. flutti, kom það fram, að það, sem hann er að byggja frv. sitt á, er tóm vitleysa. Hann segir, að það sé ekki hægt að skera niður laun lækna á meðan „praktiserandi“ læknar hafi tvöföld eða þreföld laun á við hæstlaunuðu embættislækna og meðan „praktiserandi“ lögfræðingar hafi margföld laun á við prófessora. Allt, sem hv. þm. sagði, voru rök á móti frv., enda veit ég, að hann vill láta fella frv. sjálfs sín vegna. En því er hann þá að flytja það?

Hv. þm. sagði, að hann og aðrir jafnaðarmenn — hann hefði nú átt að segja bara „hann og jafnaðarmenn“, því það er nú mjög dregið í efa, það hann sé lengur jafnaðarmaður, því hann er almennt álitinn vera Tímabolsi, eins og það er kallað í daglegu máli — hefðu ráð við þessu, og það væri, að öll einkafyrirtæki séu afnumin, því þá geti engir menn haft hærri laun en það opinbera skammtar þeim. Ég vildi heyra það, hvernig hv. þm. ætlar að koma í veg fyrir það, að dugandi læknar og lögfræðingar, og yfirleitt aðrir menn, sem duglegir eru að komast áfram í lífinu, geti haft meiri laun.

Ég endurtek það að lokum, að ég kann illa við það, að hv. flm. sé að fara með bein ósannindi um mig í grg. frv., og beini því til hæstv. forseta, að það sé óviðeigandi, að hv. þm. fari með bein ósannindi í grg. fyrir þeim málum, sem þeir flytja. Þetta er að vísu fátítt; ég man ekki nema tvo dæmi þess áður, að þetta hafi verið gert. Það var í grg. fyrir fimmtardómsfrv. á vetrarþinginu 1931, og í grg. fyrir ömmufrv. 1931; þá var sagt, að grg. fyrir ömmufrv. hefði ekki verið þinginu til skammar af því, að grg. fyrir fimmtardómsfrv. hefði verið þinginu til enn meiri skammar. Hér bætist nú við þriðja frv. í þessa verðlaunasamkeppni. Ég endurtek það, að ég áfellist þessi ósannindi í grg.

Ég vil svo biðja hv. dm. að hjálpa nú hv. flm. til að fella frv.