31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í C-deild Alþingistíðinda. (4410)

174. mál, hámark launa

Ólafur Thors:

Það er rétt hjá hv. þm. Ísaf., að ég kom til hans og spurði hann, hvort við ættum ekki að flytja saman frv. um, að þeir, sem hæst laun hefðu, mættu ekki taka bitlinga. Og ég hefi aldrei séð hv. þm. Ísaf. verða skömmustulegan fyrr en þá. Ég hafði aldrei séð honum bregða fyrr en þegar ég stakk upp á þessu. En það eru alger ósannindi, að hann hafi sýnt mér frv. (VJ sýnir honum blað). Já, ég sé það þarna. Og það getur vel verið, að hv. þm. hafi verið með eitthvert blað, sem hann hafi veifað framan í mig. Þessi hv. þm. hefir alltaf verið að snúast í kringum mig og dingla að mér einhverju skotti síðan á dögunum, að hann var hér með síldarmálið, af því að hann fyrirverður sig fyrir framkomu sína í minn garð þá. En ég hefi ekki getað verið að taka hann alvarlega. Hann sagði við mig um daginn: „Heyrðu góði! Ég hefi ekkert á móti þér; það var hann HG, sem var að biðja mig að skamma þig; mér dettur ekki í hug, að þú eigir nokkra sök á því, að síldarmalin voru of stór“. Og sama segir hann úti á gangi við ýmsa flokksmenn mína, hv. þm. N.-Ísf. o. fl.: „Það er langt frá því, að ég ætli, að ÓTh eða aðrir framkvæmdarstjórar Kveldúlfs hafi ætlað að falsa síldarmalin“. En þegar hann kemur hér inn í d., þá segir hann, að ég mætti vera mikill heiðursmaður, ef ekki ætti að falla á mig grunur um að hafa haft of stór síldarmal af ásettu ráði. En sem sagt, þó þessi hv. þm. hafi verið að dingla skotti framan í mig og viljað hafa með mér samstarf, þá hefi ég hvorki litið á skottið né frv.

Hann segir, að ég hafi snúið út úr fyrir sér, þar sem hann talar um, að landsspítalanum verði að loka, ef frv. verði samþ., því það sé hægðarleikur að koma hér í gegn annari löggjöf, svo samþykkt þessa frv. leiði það ekki af sér, að landsspítalanum verði lokað. En ef hv. þm. er það ljóst, að samþykkt þessa frv. leiði það af sér, að landsspítalanum yrði lokað, því hefir hann þá ekki komið með sérstakt frv. til að koma í veg fyrir það? Hv. þm. hefir játað, að með því að bera fram þetta frv. stofni hann til þess, að landsspítalanum verði lokað. Og hans sök yrði alveg jöfn fyrir því, þó aðrir hv. þm. beri fram frv. til þess að ekki hljótist þjóðarvandræði af frv. þessa hv. þm.

Í sambandi við hálaunamenn getur hv. þm. um í grg., að hann, sem ekkert er nema óeigingirnin, hafi farið úr embætti, sem var þriðjungi betur launað en landlæknisembættið. „— — embætti það, sem ég hefi og er nú með aukastörfum þriðjungi verr launað en staða sú, er ég sleppti fyrir það, þó að ég hefði getað mælt mér þar í stærri málum eftir beztu fyrirmyndum — —, segir hann. Ég skil það svo, að hann eigi hér við það, að hann hafi gefið fátæklingum af launum sínum. Ég man nú ekki, hvernig það er orðaða í skattalögunum, en þar er þó tekið fram, að menn eigi að borga skatt af þeim gjöfum, sem þeir kunna að gefa öðrum. Það gæti verið fróðlegt að rannsaka skattaframtal hv. þm. Ísaf. og sjá, hvort hann hefir nú greitt skatt af þessum gjöfum til fátæklinganna, úr því hann er að miklast af því, að hann hafi ekki gengið harðara eftir greiðslu fyrir læknisverk sín hjá fátæku fólki en annara lækna er siður. Það vita allir, að það er venja um flesta lækna að vera ekki kröfuharðir við fátæklinga í heim efnum.

Og ég hefði gaman af að fá að vita, hvernig hv. flm., sem, eftir því sem ég las upp áðan úr grg., hefir búið við 20 þús. króna laun undanfarið, en mun þó láta lítið yfir því, að hann sé eignamaður, hugsar sér að lifa framvegis, ef enginn má hafa meira en 5 þús. króna laun, eða rúmlega það. Ég hefði gaman af, ef hv. þm. vildi skýra það fyrir okkur, hvernig hann ætlar að fara að því að lifa í þessu himnaríki jafnaðarmanna, þegar þeir eru búnir að koma því svo fyrir með sínum viturlegu ráðum, að enginn megi hafa hærri laun en þetta