06.04.1932
Neðri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í C-deild Alþingistíðinda. (4424)

162. mál, sala þjóðjarða og kirkjugarða

Magnús Guðmundsson:

Ég vil taka undir það með hæstv. forsrh., er hann sagði viðvíkjandi frv., og eins það, er hann sagði það vera fjarstæðu eina, að þessi lagasetning um sölu kirkju- og þjóðjarða hefði orðið til ógagns. Hefir hún einmitt orðið til hins mesta gagns. En þótt svo væri, að þessi lög hefðu orðið til óþurftar landbúnaðinum, þá væri þó þetta frv. of seint fram komið, því að það er nú búið að selja flestar þær kirkju- og þjóðjariðir, sem hægt er að selja. Ég veit, að það er skoðun hv. þm. Seyðf., að ríkið eigi að eiga allar jarðir. Hann vill láta taka jarðirnar af bændum, segir, að þeir eigi þær ekki, af því að þeir séu svo skuldugir. Vil ég minna hann á það, fyrst hann heitir Haraldur, að á 9. öld var annar Haraldur, er vildi taka óðulin af bændum í Noregi. Þeir kjarnmestu þeirra vildu ekki sætta sig við þetta, flýðu land og leituðu hingað. Er undarlega breyttur hugur íslenzkra bænda frá því, sem þá var, ef þeir vilja nú gerast leiguliðar. Held ég ekki að slíkt gæti orðið til bóta. Ég held, að ekki sé hægt að gera íslenzkum landbúnaði betra en að stuðla að því, að bændur eigi sín býli sjálfir. Býst ég við, að þeir, sem farnir eru að eldast, muni, hvernig þjóðjarðir og byggingar á þeim skáru sig úr um litlar jarðabætur í samanburði við sjálfseignarbýli, enda lagði ríkið ekki rækt við þessar jarðir, og var engan styrk hægt að fá til bygginga á þeim. Annars álit ég óþarfa að láta þetta frv. tefja lengur störf þingsins og fer því ekki lengra út í þessa sálma.