06.04.1932
Neðri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í C-deild Alþingistíðinda. (4428)

162. mál, sala þjóðjarða og kirkjugarða

Jónas Þorbergsson:

rétt um aldamótin seinustu, þegar þjóðjarðasalan var fyrst uppi hér á Alþ., var það mikið hitamál. þáverandi þm. S.-Þ. (P.J.) gerðist harðastur andmælandi þjóðjarðasölunnar. Ávallt síðan hefir sú skoðun verið uppi í Þingeyjarsýslu, að það myndi orka mjög tvímælis, til hve mikilla hagsbóta það væri bændastétt landsins, að þær jarðeignir, sem væru eign ríkisins, gengju úr eign þess.

Fyrir allmörgum árum — ég held það hafi verið 1910 eða litlu seinna — átti þessi skoðun sér svo mikið fylgi í Þingeyjarsýslu, að það var tekið að berjast fyrir henni með tímariti, og stóðu að því nokkrir ungir menn þar í sýslunni. Þetta tímarit hét Réttur. Í því tímariti voru teknar til túlkunar skoðanir Péturs á Gautlöndum, þær sem hann hélt fram í þessu máli, og þær skoðanir áttu rót sína að rekja til hagfræði Henry George, sem hefir verið talinn einn hinn merkasti hagfræðingur Ameríkumanna. Henry George leit svo á, að einstaklingseign á landi væri undirrót flestra meinsemda þjóðfélaganna. Hann leit svo á, að allt landnam hafi upphaflega verið byggt á fullkomnu réttleysi og af handahófi, venjulega á þann hátt, að einhver landnámsmaðurinn sló eign sinni á eitthvert ákveðið landflæmi, sem hann þá hafði svo stórt sem við varð komið, og braut þannig undir sig réttindi, sem með eðlilegum hætti hefðu átt að vera réttindi allrar þjóðarinnar. Hann leit svo á, að jörð, vatn, sjór og loft væru hlutir, sem eftir eðli sínu ættu ekki að vera einstaklingseign, heldur almenningseign.

Enda þótt í þessum skoðunum sé djúpt tekið í árinni, munuð flestir játa, að í þeim sé fólginn mikill sannleikur í þessu máli. Þær almennu framfarir, sem verða fyrir atbeina ríkisins, miða til þess að hækka verðmæti þjóðarinnar, jarðeignir og lóðir, í verði. Þess vegna er ekki neinn vafi á því, að það er réttmætt, að sú verðhækkun, sem á þann hátt verður fyrir atbeina hins opinbera, verði grundvöllur undir þeim sköttum, sem sanngjarnt verður að teljast að leggja á lóða- og jarðaverð.

Ég er að vísu sammála hv. andmælendum þessa frv. og grg. fyrir því á þskj. 162 um þá meginhugsun, sem liggur að baki andmælum þeirra. Þeir líta svo á, að sjálfseign fylgi meira öryggi fyrir ábúð og að menn leggi sig meira fram um að bæta jarðirnar, ef þeir eiga þær sjálfir. Að því leyti er ég sammála þeim, að ég tel, að sjálfsábúðaröryggið eigi að vera alltaf fyrir hendi. En ég tel, að lífstíðarábúð og þó sérstaklega erfðafestuábúð geti komið í stað sjálfsábúðar, ef öryggi er jafnmikið fyrir ábúðinni. Það, sem ég tel aðalatriði í þessu máli, er það, að ábúandi hafi rétt og öryggi eiganda til afnota jarðar; hitt skiptir minna máli, hvaða ákvæði gilda um eignarrétt jarðar, sem menn búa á.

Ég er því mjög sammála hv. flm. frv. um það, að það orki mjög tvímælis, til hve mikilla hagsbóta og blessunar sú ráðabreytni hafi orðið fyrir þjóðina að selja jarðirnar.

Ég tel, að jarðabraskið og lóðabraskið sé þjóðhættulegt böl og að ærin ástæða sé fyrir löggjafarvaldið að stemma stigu fyrir því. Ég lit svo á, að ef jarðir standa undir ráðstöfunarvaldi hins opinbera, þá sé fremur unnt að koma í veg fyrir óeðlilega mikla verðhækkun þeirra. Af þeim ástæðum mun ég verða meðmæltur þessu frv. Og mér þykir furðulegt, jafnmerkilegt mál og hér er um að ræða, og sem var jafnmikið ágreiningsmál fyrir rúmum 20 árum og þá þótti þess vert að vera rætt mikið hér á þingi, skuli nú sæta slíkri áðbúð frá hálfu sumra hv. dm., að þeir vilji fella það frá n. og frekari umr. ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að hv. d. ætli að fara þannig að í þessu máli.