06.04.1932
Neðri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í C-deild Alþingistíðinda. (4429)

162. mál, sala þjóðjarða og kirkjugarða

Pétur Ottesen:

Maður á nú stundum því að venjast, bæði hér á Alþ. og á landsmálafundum, að menn neiti staðreyndum. En lengra hefi ég aldrei vitað gengið í því að neita staðreyndum en þegar því er neitað, að þjóðjarðasalan hafi átt mikinn þátt í þeim auknu framförum, bæði í jarðrækt og bættum húsakynnum, sem orðið hafa síðan þau lög voru sett. Lengra er ómögulegt að ganga í því að neita staðreyndum. En það er það, sem hefir verið gert af þeim mönnum, sem flytja þetta frv. og skrifað hafa neðan við það þessa merkilegu grg. á þskj. 162, og sömuleiðis af þeim, sem tekið hafa undir hana, bæði hv. 1. þm. Skagf. og þm. Dal.

Þeim mönnum, sem nokkurntíma hafa stigið fæti á guðs græna jörð og haft opin augu á því ferðalagi, held ég að hljóti að vera það ljóst, að með þjóðjarðasölunni ásamt stofnun hreppabúnaðarfélaganna var stigið verulegt og drjúgt spor til aukinnar jarðræktar og með því lagður grundvöllurinn að þeim framkvæmdum, sem síðar hafa orðið á þessu sviði. Eins og tekið hefir verið fram af hv. 2. þm. Skagf. og þm. S.-Þ., sér þess glögg merki, hvar sala hefir farið fram. Þess sér óræk merki í stórfelldum jarðabótum, og þá ekki siður í húsabótum, sem gerðar hafa verið, og þar með bætt skilyrði fyrir afkomu og líðan manna í sveitum landsins. Það er áreiðanlegt, að þeir menn, sem þessu máli réðu á Alþ., þeir hafa bæði haft góðan skilning á nauðsyn sveitanna og unnið happaverk fyrir þær með því að ákveða að selja þessar jarðir. Og þó nú svo sé, að ekki séu eftir nema fáar jarðir, sem selja má — því þjóðjarðasölulögin taka undan jarðir, sem ekki má selja nema með sérstökum l. í hvert sinn, t. d. öll prestssetur og þær jarðir, sem geta komið til greina sem sérstakt menntasetur, annaðhvort fyrir héraðið eða ríkið, eða til annara almennra þarfa, — þá á, bara í áframhaldi af hinu heppilega, góða og rétta spori, sem stigið var með þjóðjarðasölulögunum, að stíga það nú til fulls og selja þessar jarðar, sem ríkið á eftir, og láta þær koma í hendur borgaranna, sem bera byrðar ríkis og sveita, því á annara herðar koma þær nú ekki.

Það kemur nokkuð undarlega við, þegar talað er um, að ríkissjóður hafi beðið mikinn halla við að selja þessar jarðir. Það er eins og þessi verðmunur, sem verið er að tala um, að sé nú orðinn á jörðunum, sé tapaður þjóðfélaginu fyrir fullt og allt, eins og honum hafi verið sökkt í eitthvert sjávardjúp, þar sem hann steinsökkvi og komi þaðan aldrei aftur, fyrr en að eilífu nóni. Nei, sá munur, sem kann að vera á söluverði jarðanna, þegar ríkið selur þær, og svo við síðari sölur, sem venjulegast stafar af bótum á jörðunum, hann verður vissulega eftir í þjóðfélaginu, hann fellur í skaut borgaranna, beint eða óbeint, þessara sömu borgara, sem bera uppi þarfir þjóðfélagsins. Það er nú ekki annað að leita eftir fé til opinberra þarfa en til þessara manna, hvort heldur það er til sveitarþarfa eða í ríkissjóðinn.

Hv. 1. þm. Skagf. var mikið að tala um það aðan, að þegar aftur hefði farið fram sala á þessum jörðum, hefðu þær verið seldar fyrir miklu hærra verð en þegar ríkið seldi þær. Þetta er sjálfsagt alveg rétt. En í flestum tilfellum byggist þessi verðhækkun á því, að jarðirnar hafa aukizt að verðmæti við þær framkvæmdir, sem á þeim hafa verið gerðar, bæði í ræktun og stórendurbættum húsakynnum, svo að aðalgrundvöllurinn fyrir því, að þær hafa verið seldar hærra verði eftir að þær hafa verið í einstaklings eign nokkur ár, er vitanlega sá, að jarðirnar hafa tekið svo miklum stakkaskiptum við það að skipta um eigendur — við það að ganga úr eign ríkisins og komast í eigu borgaranna í landinu. Jarðirnar hafa fyrir dugnað og framtakssemi þessara nýju eigenda aukizt að verðgildi, og það er ofureðlilegt, að þetta verðgildi gangi kaupum og sölum eins og önnur verðgildi, sem mönnum er nú ekki ennþá neitað að verzla með. Það getur verið, að eitthvað af þessari verðhækkun stafi af framkvæmdum, sem unnar eru fyrir atbeina hins opinbera; ég skal ekki neitt mæla á móti því. En sá verðmunur er þá heldur ekki tapaður þjóðfélaginu, heldur er hann ávaxtaður og margfaldaður eins og önnur verðgildi þjóðarinnar og er gjaldstofn, sem ríkið og sveitarfélögin m. a. byggja tekjuöflun sína á.

Ég vil benda á það, út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það hefðu fjölda margir menn orðið að flýja úr sveitunum á mölina í kaupstöðunum, að ef sú stefna hefði ekki verið uppi í þjóðfélaginu að selja jarðirnar, og við á þann hátt farið á mis við þær framfarir, sem orðið hafa í ræktun og húsabótum í sveitum landsins, einmitt fyrir það, að jarðirnar voru seldar, þá hefðu það orðið margfalt fleiri, sem mundu hafa farið á mölina, en það þó eru, sem hafa gert það, því þetta hefir orðið í verulegum mæli til að stöðva þann straum af fólki, sem annars hefði orðið að flytja í kaupstaðina; og það hefir ekki þurft að grípa til eins róttækra ráðstafana til að halda því jafnvægi milli sveita og kaupstaða, sem p6 ennþá er, fyrir forsjálni fyrrv. valdhafa í þessu efni.

Þá var sami hv. þm. (StgrS) að tala um afnotarétt og eignarrétt. Það er nú svo, að. eignarréttur er sterkasta hvötin, sem til er til að. knýja fram hjá mönnum þær athafnir, sem gefa uppskeru. Það er sterkasta hvötin fyrir menn til að leggja fram orku sína til framleiðslunnar, að þeir geti sjálfir átt þau tæki, sem til framleiðslunnar þarf, hvort heldur það nú eru tæki til að vinna auðæfi úr djúpi sjávar eða úr hinni gróðursælu íslenzku mold. Þegar lítið er á þessa hlið málsins, þá hefir það mjög mikla, mjög verulega þýðingu til þess að ná sem beztum árangri, að þessir menn viti, að þeir eru að vinna að því að verða eigendur tækjanna, sem útheimtast til. Þess að framleiða þessi verðmæti. Það má því ekki rugla því saman, að menn hafi takmarkaðan afnotarétt af einhverjum hlut og að þeir séu raunverulegir eigendur hans. Það er þetta, sem hefir staðið ljóst og skýrt fyrir þeim mönnum, sem ákváðu, að þær jarðir, sem konungs- og kirkjuvaldið höfðu sölsað undir sig á fyrri öldum, skyldu komast aftur í eigu borgaranna. Það var ekki af góðu til komið eða af þjóðlegri rót runnið, þegar borgararnir hér á landi misstu eignir sínar og óðul undir vald konungs og kirkju. Það var ekki verið að bjarga hagsmunum þjóðarinnar með því hattalagi; sagan sýnir okkur hið gagnstæða. Þetta varð til niðurdreps starfslöngun og framtaki þjóðarinnar. Með þjóðjarðasölulögunum var bætt fyrir þessar fornu syndir og skapaðir möguleikar fyrir borgarana til þess að fá jarðirnar aftur á eigin hönd og reka búuskapinn á sinni eigin eign. Ég verð því að segja, að það er verið að spyrna á móti eðlilegri framþróun á sviði ræktunar og umbóta í sveitum, ef nú á að kippa að sér hendinni aftur um sölu þjóðjarða og kirkjujarða þeirra, sem enn eru eftir í eign ríkisins, og þar með draga úr eða fyrirbyggja, að umbætur verði auknar á jörðunum, ræktun og byggingar og annað, er framtakssamir einstaklingar gera á sínum eigin jörðum. En reynslan hefir sýnt, að þetta eru afleiðingarnar af því, að er jarðirnar ganga úr eign einstaklinganna. Og þetta er vitanlega í algerðu ósamræmi við þá stefnu, sem nú ríkir um að hlynna að jarðræktinni og bæta lífsskilyrðin í sveitum landsins.

Mér er það sérstaklega minnisstætt frá þeim árum, þegar verið var að vinna að fasteignamatinu hinu fyrra í einni af beztu búsældarsveitunum í Borgarfjarðarsýslu, hvað ein jörðin í sveitinni, prestssetursjörðin, sem er gamalt höfuðból, hafði dregizt aftur úr um allar umbætur, einkum húsagerð. Þar var ekki járnþak á neinu húsi og engin heyhlaða. En á nálega öllum öðrum jörðum í sveitinni höfðu orðið mjög miklar framfarir í húsabótum, víða búið að byggja reisulega, og jarðræktinni hafði fleygt áfram. Margar jarðir í þessari sveit voru áður ríkis- og kirkjueign, en þá nálega allar komnar í sjálfsabúð, og frá því stöfuðu umskiptin. Slík dæmi sem þetta verða ekki tölum talin. Áður var það svo, að flestir af þeim mönnum, sem sofnuðu fé, höfðu ekki aðra möguleika til að ávaxta fé sitt en að kaupa fyrir það jarðir. Á þann hátt söfnuðust miklar jarðeignir í hendur einstakra manna. En hvernig er svo stefnan og straumurinn í þessu efni í seinni tíð? Stefnan er sú, að fleiri og fleiri af bændum í sveitum landsins hafa nú keypt ábýlisjarðir sínar, bæði af þessum jarðeignamönnum og því opinbera. Þannig hefir smámsaman orðið ákaflega mikil og stórfelld breyt. í þá att, að sjálfsábúð bænda hefir aukizt. Ég held það sé varla hægt að benda á, að jarðeignir hafi í seinni tíð safnazt á fárra manna hendur, þó sumstaðar kunni máske að eima eitthvað eftir af því, að einstakir menn eigi margar jarðir. (StgrS: Helmingur af bændum í landinu eru enn leiguliðar). Já, það fullyrðir hv. þm., en ég veit ekki, hvernig hann dregur markalínuna milli sveita- og sjávarþorpa, eða hvorumegin hann telur þann fjölda smábænda, sem býr í eða við kauptúnin og lifir á grasnyt samhliða daglaunavinnu eða sjómennsku. En hitt vitum við, að breytingin hefir orðið stórkostleg, og hún heldur alltaf áfram í þá eðlilegu framþróunarátt, að fleiri og fleiri bændur eignast ábýli sín. Með þessu frv. er því alveg gengið í berhögg við þá eðlilegu framþróun á þessu sviði. Hv. þm. S.-K. benti á greinilegt dæmi þess, að það er hægra sagt en gert að búa svo um hnútana milli jarðeigenda og abúenda, að það leiði ekki til árekstra í einstökum atriðum. Ég býst við, að með ábúðarlöggjöf sé erfitt að búa þannig um, að ekki verði ýmsir þröskuldar á þeirri leið til hindrunar því, að dugnaðarmenn fái notið sín og verka sinna. Ég efast mjög um, að það takist að búa þannig um, að ábúðartilhögunin valdi ekki sífelldum árekstrum, og álit, að hnúturinn sé eðlilegast og bezt leystur á þann hatt, að ábíandi hverrar jarðar sé jafnframt eigandi hennar.

Það hefir verið talað um, að einkaeign á jörðum leiddi til óhæfilegrar verðhækkunar á þeim. Eins og atvinnuvegir þjóðarinnar eru misbrestasamir, gefa arð í góðum árum, en valda töpum þegar illa árar, eins er því hattað með verðmæti jarðanna. Þó að jörð sé talin í hæfilegu verði í goðæri, þegar verðhlutfallið á milli aðkeyptrar voru og innlendrar framleiðslu er bændum hagstætt, þá getur farið svo, að sama verð þyki ósanngjarnlega hátt í vondum árum, þegar afrakstur jarðarinnar svarar ekki til þess og verðhlutföll erlendrar og innlendrar voru eru bændum óhagstæð. Þetta á ekkert sérstaklega við um verð jarðanna, heldur um öll þau tæki, sem notuð eru til framleiðslunnar, þegar verð þeirra á hverjum tíma stendur ekki í réttu hlutfalli við afraksturinn. En sala fasteigna fer að eðlilegum hætti eftir staðháttum og afkomuhorfum búnaðarins á hverjum tíma. Verðlag á fasteignum er háð þessu eins og annað verðlag. Ég veit, að það er stefna þeirra manna, sem fylgja þessu frv., að allar eignir séu bezt komnar hjá ríkinu og að borgurunum sé ekki trúandi fyrir þeim. En ég er alveg á öndverðum meið við þá stefnu. Vitanlega eru jarðirnar út af fyrir sig verðlausar nema mannshöndin yrki þær með atorku og dugnaði og þeim tækjum, sem nauðsynleg eru til þess. Það fer því mikið eftir framtaki einstaklinganna á hverjum stað, hvernig jarðirnar eru hagnýttar. Þess vegna er það heppilegast og mest trygging og öryggi í því fólgið fyrir góða afkomu og umbætur á jörðinni, að sá, sem á henni býr, eigi hana. Ég get mjög tekið undir það, sem hæstv. forsrh. sagði um þetta mál. En það var hæstv. dómsmrh., sem virtist hlynntur frv. og taldi heppilegt, að ríkið ætti jarðirnar. Virtist mér hann halda því fram, að þá væri hægt að minnka þann kostnað, sem kemur á ríkissjóð fyrir endurbætur á jörðunum. En ég vil benda á, að samkv. frv. til l. um ábúð og úttekt jarða er lagður á ríkissjóð og aðra jarðaeigendur mikill kostnaður, þar sem ætlazt er til, að eigendur jarða kosti eigi aðeins allar húsabyggingar á jörðunum, heldur og að miklu leyti viðhald húsanna. Með báðum þessum frv., sem nú liggja fyrir þinginu um ábúð og úttekt á jörðum og um hefting á þjóðjarða- og kirkjujarðasölunni, er miklum útgjaldabyrðum hlaðið á ríkissjóð, ef þau verða samþ. í því formi, sem þau eru nú. Eina leiðin til þess að losa ríkið við þann kostnað, sem ábúðarlagafrv. gerir ráð fyrir, er sú, að ríkið selji ábúendum jarðirnar.

Hv. þm. Dal. kom nokkuð inn á þetta mál og for að tala um stefnur og skoðanir manna í Þingeyjarsýslu í þessu máli, sem brutu mjög í bága við það, sem fram kom í ræðu hv. þm. S.-Þ., er hann flutti hér áðan í deildinni. Hv. þm. Dal. vildi stefna að því, að ríkið ætti sem mest af jarðeignum, eins og nýlega kom fram í ritgerð í „Tímanum“ eftir einn af ráðunautum Búnaðarfél. Ísl., og þar var því ennfremur haldið fram, að ríkið ætti smámsaman að kaupa upp jarðir einstakra manna. Þá gat hv. þm. Dal. um tímarit, sem fyrst hefði verið gefið út í Þingeyjarsýslu, en síðar á Akureyri, að ég ætla, og mun nú vera orðið höfuðmalgagn kommúnista hér á landi. Ég var kaupandi að þessu tímariti og las það meðan það var gefið út í Þingeyjarsýslu. Þar var ákveðið haldið fram kenningum Henry George, sem að því leyti fellu saman við kenningar sócíalista, að hann vildi láta ríkið ná eignarhaldi á öllum jörðum og lóðum. Ætlaðist hann til, að lagður væri þar skattur á lönd og lóðir í þessum tilgangi, þannig að ekki borgaði sig fyrir einstaklinga að eiga jarðir. Með þessari aðferð vildi hann koma jörðunum í eign ríkisins. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er vitanlega einnig af þeirri rót runnið. Þegar stöðva á söluna á þjóðjörðum og kirkjujörðum, er girt fyrir það, að einstaklingar geti byggt upp efnahagsstarfsemi sína og aukið sjálfstæði sitt á þeim grundvelli, að þeir geti átt sjálfir jarðirnar, sem þeir búa á. Þetta er náttúrlega í fullu samræmi við grundvallarskoðun hv. þm. Dal. Hann vill, að ríkissjóður seilist lengra og lengra eftir verðmætum og eignum einstaklinganna, enda kemur það heim við það, sem hann sagði í Tímanum, þegar hann var ritstjóri hans: „Feimulaus og skefjalaus hnefaréttur fortíðarinnar er í nútíðarviðskiptum klæddur í búning löghelgaðra rána, bakferlis og þjófnaðar“. Þetta segir hann um eignarréttarskipulagið, sem nú gildir, þar sem sjálfstæðir einstaklingar eru undirstaða þjóðfélagsins. Það er skoðun hv. þm. og er í fullu samræmi við allt annað hjá honum. Við, sem andmælt höfum þessu frv., lítum svo á, að þetta sé háskaleg stefna, sem leiði til ófarnaðar fyrir þjóðina. hér er því aðeins um tvær ólíkar stefnur að ræða, sem greiða verður atkv. um, hvort það á að halda áfram að selja jarðeignir ríkisins og stuðla að sjálfsábúð í landinu eða ekki. Ég er fyrir mitt leyti svo sannfærður um réttmæti þess, að stuðla beri að sjálfsábúðinni, að ég vil ekki lengja líf frv. Ég þykist líka vita, að allir hv. þm. séu búnir að átta sig á þeim stefnumun, sem hér er um að ræða, og þurfi ekki lengri frest til atkvgr. um frv.