18.03.1932
Neðri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í C-deild Alþingistíðinda. (4469)

172. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil taka það fram, að um þetta mál tala ég sem þm., en ekki sem ráðh. Flm. hafa ekki talað við stj. um frv. og hún hefir ekki seð ástæðu til að taka sérstaka afstöðu til þessa máls sem slík. Þess vegna tala ég hér ekki fyrir hönd stj. um þetta mál.

Ég get tekið það fram strax í upphafi, að mér er það ekki ljúft að standa upp til að andmæla frv., sem jafnágætur samherji minn og hv. þm. Mýr. er formælandi að og annar hv. samherji minn meðflm. En ég tel mál þetta þannig vaxið, að ég get ekki setið hjá án þess að láta skoðun mína í ljós þegar við fyrstu umr. Frv. átti að geta fengið fulla afgreiðslu nú þegar við þessa umr., því að mínu áliti er ekki um margt að ræða í sambandi við það. Það er ástæðulaust að fara út frá því að tala um kreppuráðstafanir og öflun ríkistekna og því um líkt. Það eina, sem hér er um að ræða, er hinn aukni drykkjuskapur í landinu, sem af því mundi leiða, ef leitt yrði í lög, að brugga skuli og selja áfengt öl. Sumpart mundi það auka drykkjuskapinn strax og sumpart leggja grundvöll að vaxandi drykkjuskap í framtíðinni. Þessi afleiðing yfirgnæfir svo allar aðrar ástæður með og móti frv., að um þær ætti ekki að þurfa að ræða.

Hv. flm. mun vera mér sammála um það, að frv. mundi hafa í för með sér aukna áfengisnautn í landinu, þar sem hann segir, að hér sé um svo mikla tekjuvon að ræða. Hann lysti yfir, að auknar tekjur af áfengissölu mundu nema hundruðum þúsunda, og gæti það ekki orðið nema með stórkostlega aukinni nautn áfengis. Hann lagði áherzlu á, að ölið mundi draga úr sölu Spánarvínanna. Samt sem áður býst hann við tekjuauka, sem nemur hundruðum þúsunda, af sölu áfengis, og gæti það ekki orðið nema það seldist geysimikið af öli fram yfir það, sem því nemur, er hv. flm. heldur fram, að sala Spánarvinanna minnki. Það er þess vegna augljóst, að frv. er blátt áfram flutt með það fyrir augum, að nautn áfengis í landinu aukist. Ég álít, að það sé rétt skoðun hv. flm., að ef frv. yrði að lögum, myndu tekjur ríkisins aukast í bili, því að drykkjuskapurinn mundi stórkostlega aukast. Um það atriði erum við sammála. En ég held, að það væri álíka viturlegt að auka tekjur ríkissjóðs á þann hátt eins og ef bóndi slátraði kúnum sínum til þess að fá meiri tekjur í bili.

Hv. þm. kom inn á ýmsa aðra hluti í ræðu sinni, og var það að vissu leyti skynsamlegt af honum. Það ber vott um, að þessi hv. þm. finnur, að það muni vera heppilegra fyrir þá flm. að draga umr. og athygli manna frá þeim alvarlegu afleiðingum fyrir þjóðina, sem ölgerð þessi mundi hafa í för með sér, frá þeirri spillingu og eymd, sem sigla mundi í kjölfar ofdrykkjunnar. Hv. flm. talaði um frv. sem leið til að hjálpa atvinnurekstri landsmanna í kreppunni. Hv. d. mun nú bráðum fá til meðferðar frv. um ráðstafanir í þá átt, sem þessi hv. þm. hefir átt þátt í undirbúningi að fyrir hönd Búnaðarfélagsins. Það er nauðsynjamál, sem fyrr hefði þurft að koma fyrir hv. d. En umtal um slíka hluti mega menn ekki láta skyggja á aðalatriði þess máls, sem nú liggur fyrir hv. d.

Öldrykkja er sérstakur liður í nautn áfengis, liður, sem hér er lítt þekktur. Með því að framleiða og selja áfengt öl hér er lagður grundvöllur að drykkjuskap á nýju sviði.

Það má búast við, að þetta þing, sem við nú heyjum, verði að mörgu leyti ófrjósamt. Það er útlit fyrir, að sökum ósamlyndis takist ekki að leysa þau vandamál, sem fyrir liggja, og að ekki náist samkomulag um margar þær ráðstafanir, sem þurft hefði að gera á þessum óvenjulegu tímum. Þegar þannig standa sakir, væri harla einkennilegt, ef það kæmist í gegn og yrði kannske næstum því eina „kreppuráðstöfunin“, sem samkomulag fengist um, að leyfa og ýta undir framleiðslu á áfengu öli og sölu þess í landinu, sem að vísu fengjust einhverjar tekjur af, en fyrst og fremst yrði til að auka drykkjuskap landsmanna.

Það vilja nú ef til vill einhverjir segja, að það sitji ekki á mér að tala um ýmsar tegundir drykkjuskapar og hvaða áhrif þær hafi, þar sem ég þekki ekki áfengisnautn af eigin reynslu. En ég vil nú segja, að ég hafði nægilega mikil kynni af þeirri kynslóð, sem ég ólst upp með, til þess að sjá afleiðingarnar af áfengisnautn á ýmsum sviðum og ýmsu stigi. Og ég er alls ekki sammála því, sem hv. flm. sagði, að öldrykkja væri mjög skaðlítil. Það má að vísu til sanns vegar færa að vissu leyti, þar sem ölið inniheldur miklu minna áfengi en ýmsir aðrir drykkir. En þegar lítið er á allt það, sem sækir í slóð öldrykkjunnar, þá kemur í ljós, að hún hefir jafnvel verri afleiðingar heldur en sterku drykkirnir einir út af fyrir sig. Og komi öldrykkjan hér við hliðina á þeim drykkjuskap, sem við höfum fyrir, þá er ekki við góðu að búast. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að tilbúningur á sterku öli yrði til þess að auka mjög drykkjuskap meðal þeirra stétta og einstaklinga þjóðfélagsins, sem nú eru að miklu leyti lausir við hann. Ölið mundi vekja drykkjufýsnina hjá ungum mönnum, verkamönnum og skólapiltum. Eins og Spánarvínið hefir reynzt kvenfólkinu hættulegt, mundi ölið reynast unglingum og öðrum, sem lítil peningaráð hafa. Þekki ég mörg dæmi því til sönnunar frá mínum yngri árum, áður en bannið kom til sögunnar. Og ég get nefnt dæmi um enn sorglegri áhrif öls. Ég hefi þekkt unga, breyzka menn, sem haft hafa meðvitund um breyzkleika sinn og þess vegna gengið í bindindi til þess að forða sér frá drykkjuástríðunni. En þeir hafa álitið ölið sér skaðlaust, og það hefir hrifið þá af réttri braut og steypt þeim í það hyldýpi ófarnaðarins, sem ofdrykkjan hefir í för með sér. Þess vegna segi ég hiklaust, að það sé hættulegasta leiðin, sem hægt er að fara, að leyfa að brugga og selja sterkt öl; að það væri jafnvel skárra að skömminni til að hleypa inn sterku drykkjunum aftur.

Ég ætla svo ekki að fara um þetta fleiri orðum, en aðeins víkja að því, sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að ég álít, að þetta frv. ætti að fá fullnaðarafgreiðslu þegar í stað; það mun hvort sem er aldrei ná samþykki þingsins. Þó svo færi, að þessi d. samþ. það, veit ég, að hv. Ed. gerir það ekki, þar sem aðalatriðið í því er að stuðla að aukningu drykkjuskapar í landinu, og það ofan á alla þá erfiðleika aðra, sem þjóðin á nú við að stríða.

Ég vil því beina þeirri áskorun til hv. þdm., að þeir felli þetta frv. þegar í stað.