15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í C-deild Alþingistíðinda. (4497)

222. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Þetta frv. er afleiðing af frv., sem var hér næst á undan á dagskránni, þar sem gert var ráð fyrir, að almennt útflutningsgjald hvíli á þessum vörum. Er því lagt til, að hið sérstaka útflutningsgjald, sem nú hvílir á þeim og er 1 kr. af hverri tunnu saltsíldar og 1 kr. af hverjum 100 kg. síldarmjöls, falli algerlega niður. Ég geri það enn að till. minni, að þessu máli verði vísað til sjútvn., tel, að það eigi þar heima, og bið þá báðar nefndirnar að athuga hvor sína hlið þessa máls, svo að það verði nú athugað næsta gaumgæfilega.