04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í C-deild Alþingistíðinda. (4509)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Héðinn Valdimarsson:

Mér finnst hv. landbn. taka ákaflega rangt í þetta mál. Hv. nm. líta svo á, að þeir, sem beri hita og þunga dagsins í þessu efni, séu framleiðendurnir, og þeir einir eigi öllu að raða, en þeir, sem eiga að neyta þessarar fæðutegundar, skuli engu fá að ráða.

Nú er það svo, að sum bæjarfélög hafa nægilegt ræktanlegt land til að fullnægja sinni eigin mjólkurþörf. Það land er þó ekki ræktað að fullu ennþá, en ég tel víst, að hvert bæjarfélag rækti sitt land eftir megni, eins og eðlilegt er, því að það er á allan hátt mjög hagkvæmt, að bæirnir styðjist að einhverju leyti við sinn eiginn landbúnað. Mér finnst þess vegna vera fjarri því, sem hv. frsm. kom með, að það væri ægilegt, ef innan lögsagnarumdæmis kaupstaðanna, og þá fyrst og fremst Rvíkur, fylltist allt af fjósum. Mér virðist þvert á móti æskilegt, að bærinn noti allt ræktanlegt land og kúm fjölgi í sambandi við það, og þá auðvitað líka fjósum. Það gæti ýtt undir þetta mál, ef slíkur forgangsréttur yrði veittur, sem hér er farið fram á, en þó efast ég um, að það mundi ýta meira undir menn en nú er gert, því að nú hafa þessir menn þau skilyrði til mjólkursölu, sem veitir þeim forgangsréttinn að markaðinum, en hér á að taka þann rétt af þeim.

Hv. þm. segir, að í Noregi séu menn frjálsir að því, hvort þeir eru í samlaginu eða ekki. Hér er alls ekki gengið út frá því, að þetta séu frjáls samlög. Hér á að skylda menn til að vera í þessu sölusamlagi; annars fá þeir ekki að selja mjólk í kaupstöðunum, svo að hér á að vera um algerða einkasölu að ræða.

Þá talaði hv. frsm. um, að þeir, sem gangast hér fyrir þessu máli, hefðu lofað því, að allur hagnaðurinn af þessu breytta skipulagi skyldi fara til neytenda. Ég segi fyrir mitt leyti, að mér finnst það alls ekki sanngjarnt, enda trúi ég því ekki, að það verði þannig í framkvæmdinni. Það rétta er, að báðir aðilar njóti hagnaðarins. Til hvers væru líka framleiðendur að hafa fyrir því að breyta skipulaginu, ef þeir eiga svo ekkert að fá af hagnaðinum?

Þá sagði hv. frsm., að það væru ekki ákveðin orð hjá mér, að verðið skuli miðað við það, sem nauðsynlegt er að hafa til þess að hægt sé að framleiða á hagnýtasta hátt. Það er að vísu svo, að ekki er hægt að benda á, á hvaða eyri verðið ætti að vera. En með þessu ákvæði er þó útilokað, að miðað sé við það, að þessi vara sé framleidd á sem óheppilegastan hátt. En eins og frv. er nú, er það ekki útilokað, að miðað sé við þá staði, þar sem dýrast er að framleiða mjólkina. Það er gengið út frá því, að eftirspurn verði fullnægt, en nú er ekki hægt að framleiða nóga mjólk á þeim stöðum, þar sem ódýrast er.

Þá sagði hv. frsm., að við fulltrúar bæjanna gætum alveg eins greitt atkv. um málið eins og þeir, sem væru í bæjarstjórn. Ég efast um, að hv. frsm. væri á því, að frv. fengi ekki að ganga fram, ef við kaupstaðaþingm. greiddum atkv. á móti því. Ég held því þess vegna fast fram, að slík mál sem þessi eigi að komast undir álit bæjarstjórnanna.

Ég skil vel hugsunina í þessu hjá hv. þm. Hann vill fá að halda áfram á þeirri braut, að koma á einkasölu á innlendri framleiðslu til handa bændum einum, hratt fyrir það, að bæirnir vilji það ekki. Hér er byrjunin. Svo kemur sjálfsagt lögboðið eggjafélag, lögboðið kartöflufélag, lögboðið félag um sölu á garðávöxtum og blómum og fleiri vorum og allt fyrirkomulag sniðið eftir þessu formi. Neytendur eiga ekkert að fá að segja og fá enga tryggingu fyrir rétti sínum. Þeir verða bara að treysta því, að þeir, sem reka þetta sölufélag, reyni ekki að hagnast á þeim eins og þeir gætu, sem er það eðlilega fyrir þá, sem verzlunina reka.

Ég verð því að halda fast við þessar brtt. Ég veit, að svona mál mælast illa fyrir, og það sest á áhorfendabekkjunum núna, hve mikla athygli þau vekja. Það mundi valda óánægju í bænum, ef frv. fengi afgreiðslu að bæjarstjórn forspurðri, og vona ég því, að dagskráin verði samþ.