11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í C-deild Alþingistíðinda. (4517)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. þm. Reykv. lýsti því, hvernig í þessu frv. er verið að ganga á rétt Rvíkur og annara kaupstaða, sem áður hafa haft vald til að ákveða sjálfir um þessa hluti, sem frv. fjallar um, og hvernig verið er að fá þetta vald í hendur mjólkurframleiðendum utanbæjar. Þeir geta nú ráðið því, hvar mjólk verður framvegis seld í kaupstöðum, ef þetta nær fram að ganga, en það hefir áður legið í valdi bæjarstjórna að löggilda mjólkurbúðir. Er þetta varhugavert, því að með þessu eru kaupendur afskiptir áhrifum um það, hvernig með mjólkina er farið o. s. frv. Þó er sagt í 2. gr., að neytendur skuli vera tryggðir gegn því, að framleiðendur setji verðið of hátt. En engu að síður verða neytendurnir með þessu lagi ofurseldir þeim. Væri það alveg ótækt, ef mjólkurframleiðendur gætu sagt: í þessari götu, þessu húsi, skal vera mjólkursala, hvað svo sem heilbrigðisstj. og aðrir aðilar kynnu að hafa á móti því. Satt er það, að ólag er á mjólkursölunni eins og nú er, en það má bæta á marga lund, og er það alls ekki rétta leiðin að gefa mjólkurfélögunum einræði í þessu. A. m. k. ættu þau að ákveða þetta í samráði við kaupstaðina. Vil ég því mælast til þess, ef málið fer í n., að hún taki tillit til þeirrar umsagnar, sem komið hefir frá bæjarstj Rvíkur.

Annars vil ég geta þess, að bændur hér í nágrenninu hafa sent þinginu skjal mikið, þar sem þeir telja þetta varhugaverða leið. Eiga þessir menn til samans 800–900 kýr og eru allir úr lögsagnarumdæmi Rvíkur og selja alla sína mjólk hingað. Væri það óeðlilegt, ef þessir mörgu aðilar, sem framleiða mjólk fyrir bæjarbúa, væru afskiptir öllum áhrifum hér um. Yrðu þeir þá annaðhvort að beygja sig undir vald mjólkurhringanna eða þá að hætta, og er það líklegast. Hafa þeir lagt mikið í kostnað við ræktun. Að vísu er mjólkin dýrari hjá þeim, en það er líka bezta mjólkin, sem kemur til bæjarins, og einasta barnamjólkin, sem um er að ræða. Enginn skilji orð mín svo, að ekkert eftirlit eigi að vera með þessu, en ég held, að því sé bezt borgið í höndum heilbrigðisstj. og bæjarstj. framvegis eins og að undanförnu.