11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í C-deild Alþingistíðinda. (4518)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Jón Jónsson [óyfirl.]:

Ég vona, að ég eigi ekki að skilja þessa tvo hv. þm., sem talað hafa, svo, að þeir ætli að beita sér móti því, að málið fái að ganga til 2. umr. og n. Að vísu skal ég játa, að ég hefi ekki kynnt mér efni frv. til neinnar hlítar, en mér skilst þó við fljótan yfirlestur, að hér sé um merkilegt mál að ræða, og fæ ég ekki séð, að það á nokkurn hátt vinni til ógagns fyrir Rvík, eins og mér virðist þessir tveir hv. þm. hafi verið að gefa í skyn með ræðum sínum.

Í frv. þessu eru ákvæði, sem tryggja betra fyrirkomulag um sölu mjólkur en bændur hafa orðið við að búa um langa hríð. Það hefir verið megnasta ólag á allri mjólkursölu hér í bæ, að því er virðist. Mjólkin seld hér dýru verði, en þó fá bændur lítið fyrir hana. Mér er sagt, að mjólk sé seld hér í bænum á 40–50 aur. hver lítri, en bændur fá í sinn vasa 12 aur. (JBald: Meira fá þeir). Já, kannske þeir, sem næstir búa Rvík, en austanfjalls fá þeir ekki nema 12 aur., og er ekki annað hægt að segja en að það sé mikill kostnaður, sem leggst á þá mjólk, sem seld er hér í bænum, og er ekki undarlegt, þó að bændur séu óánægðir með þetta. En auk þess er með frv. betur tryggt en annars, að neytendur fái betri og vandaðri vöru.

Virðist mér því, að stefna frv. sé sú, að vinna báðum gagn: þeim, sem mjólkina selja, og hinum, sem kaupa hana. Vona ég því, að þessu athuguðu, að hv. þdm. sjái sér fært að lofa málinu að ganga til n., og munu þá þær aths., sem fram hafa komið, teknar til greina af þeirri hv. n., sem málið fær til meðferðar.