11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í C-deild Alþingistíðinda. (4523)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Magnús Torfason:

Að því er snertir 1. gr. þessa frv., þá skal ég játa, að hún er ekki ljóst orðuð. En ég hefi skilið hana eins og hv. 1. landsk. Þar er talað um félagsskap, er þeir framleiðendur, sem að mjólkurbúunum standa, geti myndað á „framleiðslusvæðinu“ um sölu afurða sinna. Eftir þessari setningu virðist eiga að takmarka félagsskapinn við þá, sem eru í mjólkurbúunum. Þá er í næstu setningu talað um alla mjólkurframleiðendur á „sölusvæðinu“. En hvað er meint með orðinu sölusvæði? Ég held, að það sé næst að ætla, að þar, sem varan er seld, sé sölusvæði, eða m. o. o. kaupstaðirnir, þar sem vara framleiðenda er seld. Ég játa, að mér virðist erfitt að koma þessu. saman. Ég get varla hugsað mér, að hér sé átt við mjólkurframleiðendur bæði austanfjalls og hér fyrir sunnan í Rvík og nágrenni hennar. Mer virðist eðlilegast, að átt sé við það svæði, Rvík og Hafnarfjörð, þar sem mjólkurafurðirnar eru seldar, en þetta er óljóst í frv. Að því er snertir samþykktir þær, er ég áður nefndi, þá veit ég ekki betur en að með þeim séu gerðar bindandi ákvarðanir um ýms atriði á svæði atvinnurekstrar einstakra manna. Ég nefndi t. d. fiskiveiðasamþykktir, en ég get líka nefnt fleiri slíkar, svo sem samþykktir fóðurbirgðafélaga, fiskiræktarfélaga, brunatryggingarsamþykktir o. fl. Allar þessar samþykktir eru meira og minna bindandi fyrir einstaklinga á þeim svæðum, sem þær ná yfir, og valda meiri og minni skerðing á eignarrétti þeirra.

Hv. 2. landsk. sagði, að með þessu frv. væri ráðizt á sjálfsákvörðunarrétt kaupstaðanna. Ég hygg, að það geti nú ekki verið, a. m. k. ekki nema að mjög litlu leyti. Ég veit ekki til, að kaupstaðirnir með sínu sjálfstjórnarvaldi hafi látið sér koma til hugar að hafa áhrif á söluverð þessara afurða. Ég játa, að ég hefi ekki athugað, hvað bæjarstj. í Rvík og Hafnarfirði hafa nýlega gert að því er snertir verzlun með mjólkurafurðir, en ég hygg, að það sé ekkert annað en það, sem heyrir undir heilbrigðisráðstafanir. Ég hygg, að það sé ekki meiningin með þessu frv. að hnekkja á nokkurn hátt því valdi, sem hv. þm. talaði um.

Hv. 2. landsk. talaði um, að með þessu frv. væri verið að ofurselja hring mjólkurframleiðenda eitthvert óhæfilegt vald í mjólkursölumálunum. Ég játa, að ég skil ekki almennilega, hvað hv. þm. á við með þessu. En ef ástæða er til að tala um að ofurselja vald í sambandi við þetta litla frv., þá er verið að ofurselja það ríkisstj., því að samkv. þessu frv. má ekkert annað gera en það, sem atvmrn. samþ. Annars bjóst ég ekki við, að hv. 2. landsk. þætti nú svo afskaplega leitt það lambaketið.

Ég skoða þessar umr., sem hér hafa farið fram, leiðbeinandi fyrir þá hv. n.; sem fær hetta frv. til meðferðar. Og þess vegna leyfi ég mér að benda n. á, að síðasta málsgr. 5. gr. frv. þarf að vera fullkomnari. Þar er ekkert ákveðið um það, hvert sektir fyrir brot á reglugerðinni skuli renna, eða hvernig farið skuli með þau mál, sem rísa kunna út af brotum á henni. Vitaskuld gerir það minna til, en af því að þetta mál er nokkuð sérstaks eðlis, þá er viðkunnanlegra að kveða nánar á um það.