15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í C-deild Alþingistíðinda. (4531)

230. mál, efni í tunnur

Ólafur Thors:

Ég vil einungis beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvort fyrir liggi nokkrar upplýsingar um gæði þessara tunna og hvort útgerðarmenn þeir, sem þær hafa notað, telja þær jafnar að gæðum beztu erlendum tunnum, því að þótt allir viðurkenni, að hlynna beri að íslenzkum iðnaði, þá myndi ég fyrir mitt leyti hika við að mæla með notkun á íslenzkum tunnum, ef ég hefði ekki a. m. k. sæmilegar líkur fyrir því, að gæði þeirra svöruðu til þess bezta, sem fáanlegt er erlendis. Því að það veit hv. flm. eins vel og ég, að í þessu efni veltur mjög mikið á því, að þær tunnur, sem við notum undir okkar síld, séu hinar beztu, sem föng eru á. Í öðru lagi vil ég spyrja hv. flm., hvort fyrir liggi nokkrar upplýsingar um það, að þessi tilslökun af hendi ríkissjóðs um tollaívilnun á innfluttum efnivörum til smíða tunnanna sé svo þýðingarmikil liður í þessum iðnrekstri, að líklegt sé, að hann falli og standi með því, hvernig tekið verður á þessu máli: Ef það er svo, að gæði tunnanna svari til hins bezta, sem kostur er á á erlendum markaði, og séu jafnframt líkur til þess, að á miklu velti fyrir þennan iðnrekstur, sem er á byrjunarstigi, hvort Alþingi tekur vel í þessa málaleitan eða ekki, þá mun ég fyrir mitt leyti hafa tilhneigingu til að styðja frv.