15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í C-deild Alþingistíðinda. (4533)

230. mál, efni í tunnur

Haraldur Guðmundsson:

Ég álít, að það sé rétt að samþ. þetta frv., sem hv. þm. Ak. kemur hér með. Að vísu skal ég geta þess, að ég tel á engan hátt skynsamlegt til frambúðar að hugsa sér það fyrirkomulag að flytja inn frá útlöndum sundurlausar tunnur og hugsa sér ekki að gera annað hér heima en að reka þær saman og laga stafina eitthvað meira eða minna til, eins og vakir fyrir hv. þm. Ak., því að vinnulaunin við að setja tunnurnar saman eru ekki nema nokkur hl. þeirra vinnulauna, sem annars eru greidd fyrir tunnusmíði. Einmitt þess vegna held ég, að tími sé kominn til þess að gera tilraun með að smíða tunnur úr óunnum viði, kaupa óunninn við, saga hann og flétta honum og smíða tunnustafi og tunnubotnana hér heima. Þessi tilraun kostar minna en flestir gera sér í hugarlund, eins og ég hefi áður sýnt fram á.

Hv. þm. gat þess, að tollur af stöfum og efni í síldartunnur væri 20 aurar. Mig minnir hann sé ekki nema 14 aurar, en þori þó ekki að deila um það við hv. þm. En ef til þess kæmi að gera tilraun með að flytja inn óunninn við og saga hann niður í tunnustafi í landinu, þá þyrfti auðvitað um leið að athuga það, að þetta frv. gæti, ef að lögum yrði, einnig náð til óunnins víðar, sem notaður væri í tunnur. Ég er ekki alveg viss um, eftir því orðalagi, sem nú er á frv., að þetta sé skýrt, og vildi ég biðja þá n., sem væntanlega fær mál þetta til athugunar, að athuga þá hlið málsins. Ég hefi nokkuð kynnt mér þetta, og eftir því verði, sem var á þeim trjávið, sem mest er notaður í tunnur, á síðasta vetri, er bersýnilegt, að langmestur hluti tunnuverðsins er vinna við smíðar. Ég ætla, að verð á óunnum trjástofnum söguðum hafi verið um 130 kr. hver standard kominn hingað til Íslands frá Noregi. Það svarar til þess, að efni í hverjar 150 þús. tunnur myndi kosta 330 þús. kr. Ef fullsmíðuð tunna er reiknuð á 5 kr., verða þetta 750 þús. kr., eða 420 þús. kr. meira en efnið kostar. Þessar 420 þús. kr. eru því vinnulaun og gjarðir. En sé tunnan reiknuð á 6 kr., sem mun vera nær lagi, verður munurinn 150 þús. kr. meiri, eða 570 þús. kr. Það liggur því í augum uppi, að hér er um stóra fjárhæð að ræða, sem héldist kyrr í landinu og gengi til vinnulauna, ef hægt væri að smíða hér að öllu leyti tunnur úr óunnum viði. Ég veit ekki, hvað tunnustafir kosta, en þó myndu þeir verða h. u. b. helmingi dýrari en óunnir stafir. Lægsta verð myndi verða 2,60 til 3 kr. norskar úti. Ég held því, að það væri fullkomlega þess vert að taka þetta mál til athugunar, kynna sér það og afla hinna fyllstu gagna um það.