15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í C-deild Alþingistíðinda. (4536)

230. mál, efni í tunnur

Haraldur Guðmundsson:

Ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu, að innlendum atvinnurekstri sé ívilnað á þann hátt, sem farið er fram á í frv., þ. e. að lækka tolla á efnivorum, en ég er á móti því, að honum sé ívilnað með verndartollum, sem aðeins eru til þess að hækka verðlagið.

Það var rétt, sem hv. þm. G.-K. benti á aðan, að eftir tölum þeim, sem ég tók, virðist lítill munur á því, hvort keyptur er óunninn viður eða ótiltelgdir tunnustafir. Stafar þetta af því, að í öðru tilfellinu var miðað við norskar kr. En munurinn liggur ekki aðeins í því, heldur líka í hinu, að úr 500 standorðum af óunnum virði fast, auk efnis í 30 þús. síldartunnur, nálægt 100 standarðar af gagnlegu timbri, borðum og battingum. Þar er því hagnaðurinn mestur. Að við ættum að vera samkeppnisfærir við erlenda verkamenn, er að sjálfsögðu rétt, en í þessu tilfelli er ekki um slíkt að ræða. Mikið af þessari norsku tunnustafagerð er heimaiðja. Þegar skógurinn er hogginn og stórtimbrið selt, verður afgangs talsvert af smábútum og greinum; úr því smíða svo norsku bændurnir tunnustafi, þegar ekkert er annað hægt að gera á bændabýlunum. Það er því varla von, að hægt sé að keppa við slíkan atvinnurekstur, þar sem ekki er um neitt sérstakt kaupgjald að ræða, heldur heimaiðju til uppfyllingar. Hinsvegar líta margir svo á, sem kunnugir eru þessum málum, að með stórum og hagkvæmum innkaupum megi vinna upp þann mismun, sem við þetta kemur fram.