15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í C-deild Alþingistíðinda. (4537)

230. mál, efni í tunnur

Ólafur Thors:

Út af því, sem ég sagði um samkeppni hinna innlendu og erlendu verkamanna, get ég gengið inn á það, að það sé erfitt fyrir innlenda verkamenn að keppa við þá framleiðslu, sem unnin er í hjáverkum hjá bændum í Noregi. En því var þannig háttað á þeim árum, sem ég var við síldarverzlun riðinn, að tunnur þær, sem notaðar voru þá, voru smíðaðar í verksmiðjum. Þær, sem heima voru smíðaðar, þóttu verri og voru því ekki notaðar.

Að endingu vil ég segja það, að eins og það þykir óbilgjarnt að gera þá kröfu til íslenzkra verkamanna, að þeir geti keppt við norska hjáverkavinnu, eins er líka óbilgjarnt að heimta hærra kaup við iðnrekstur hér en greitt er við tilsvarandi iðnrekstur í öðrum löndum.