07.04.1932
Neðri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

7. mál, lax- og silungsveiði

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Ég ætla, að það hafi verið á Alþingi 1930, sem þetta frv., eða frv. sama efnis, var fyrst flutt. Það kom seint fram á þinginu og vannst ekki tími til að sinna því að verulegu leyti. Svo var það borið fram aftur á vetrarþinginu 1931, ásamt nokkrum viðaukum og breytingum, og nú er það enn lagt hér fram á ný, og eru ýmsar af heim brtt., sem fram komu við frv. frá landbn. Nd. á vetrarþinginu 1931, færðar inn í frv. Hv. frsm. landbn. hefir nú vikið að málinu almennt og þýðingu þess, hversu mikið það varðar þjóðfélagið og þá, sem beinlínis njóta þess, hvernig löggjöfin um þetta efni er úr garði gerð. Ég fjölyrði svo ekki meira um það, en vil með nokkrum orðum víkja að þeim brtt., sem fram hafa komið við frv., fyrst af hálfu landbn. og síðar að brtt. hv. þm. Borgf., og þá að ræðu hans í sambandi við þær. Ég ætla ekki að víkja að þeim brtt. landbn., sem eru minni háttar, heldur aðeins að þeim, sem ég tel varhugaverðar og stefna í skakka átt. Ég vil ekki eyða tíma til að ræða um hinar, sakir þess að þær skipta minna máli og það yrði of langt mál að rekja þær.

Brtt. n. við 13. gr. frv. lýtur að því, að í stað þess, að í frv. er ætlazt til, að sú laxveiði í sjó verði leyfileg framvegis, sem metin hefir verið til fasteignamats 1. apríl 1922, þá er í brtt. gert ráð fyrir að leyfa þá laxveiði í sjó, sem metin hefir verið til fasteignaverðs 1. apríl 1932. Um þetta atriði, laxveiði í sjó, er það að segja, að sanngjarnt þótti að heimila framvegis þá veiði, sem metin hafði verið til fasteignaverðs í matinu frá 1922, en nú vill n. framlengja þessa ívilnun eða viðurkenningu til 1. apríl 1932. Ég skal nú ekkert fullyrða um, hvort laxveiði í sjó hefir verið tekin upp á nýjum stöðum síðastl. 10 ár, eða eftir 1. apríl 1922. En hitt er kunnugt, að raddir hafa komið fram um það á Alþingi að banna laxveiði í sjó, og þess vegna hygg ég, að menn hafi ekki tekið hana upp á síðari árum. Ég hefi ekki spurzt fyrir um það, hvort þessi sjávarveiði hafi verið metin á ný til hlunninda í hinu nýja fasteignamati, en ég held, að það hafi ekki verið tekið tillit til hennar umfram það, sem áður var. Samt sem áður held ég, að það sé óheppilegt, allra hluta vegna, að taka þetta ákvæði úr brtt. upp í lögin, en það má segja, að það sé meinlaust, ef þessi sjávarveiði hefir hvergi verið tekin upp, en hafi svo verið, þá er brtt. til hins verra, því meira sem veitt er af laxi í sjó, því skaðlegra er það fyrir laxveiði í ám og vötnum. Og hreinlegast hefði það verið, að komið hefði fram till. um, að laxveiðiréttur einstaklinga eða einstakra jarða í sjó væri innleystur, jafnvel þó að hið opinbera hefði þurft að hlaupa þar undir bagga og kosta einhverju til þess; veiðirétturinn getur varla verið metinn svo hátt samkv. fasteignamati. Skoðun mína um skaðsemi af laxveiði í sjó byggi ég á því, sem viðurkennt er hvarvetna um lönd, að hún valdi mestu tjóni og leiði til þess, að laxinn gengur smám saman til þurrðar. Ég get minnt á það, að Norðmenn, Danir og Svíar harma það mjög, að laxveiði í sjó skuli hafa verið heimiluð hjá þeim, og hið sama hefir viða komið fram í Norður-Ameríku, þar sem talið er, að sú veiði hafi mest fækkað laxinum. Þess vegna mæli ég mjög eindregið á móti þessari brtt. landbn. og vænti, að hv. þd. sýni þá varfærni í þessu máli, að hún felli hana.

Þá er brtt. n. við 14. gr., að 2. tölul. orðist svo sem þar segir. Leggur n. til, að gengið sé skemmra en ákveðið er í frv., þannig að ekki skuli sett takmörk fyrir lagningu silungsnetja í árósum eða í nánd við þá. En í frv. er lagt til, að hið sama gildi um þau og ádráttarveiði. Þó að þetta skipti ekki miklu máli, þá tel ég varlegra að langa ekki lengra en frv. gerir ráð fyrir um heimild til þessarar veiði.

Þá er ein brtt. frá landbn. við 17. gr., um vikufriðunina. Í frv. er gert ráð fyrir 60 klst. vikufriðun á lax- og göngusilungsveiði í ám. Mig rekur minni til, að í grg. frv. hafi ég áskilið mér rétt til þess að flytja brtt. við þetta atriði, þar sem ég taldi n. hafa gengið of skammt um ákvörðun á friðunartímanum. Ég tel ekki gengið nægilega langt með því að ákveða friðunartímann 60 klst., og því síður 48 klst., eins og landbn. leggur til, og byggi ég það álit mitt á erlendri reynslu, sem hefir leitt í ljós, að þessi friðunartími er allt of stuttur, t. d. fyrir vatnsföll í Noregi og Svíþjóð. Sérstaklega hefir þetta komið glöggt fram að því er snertir vatnsföll í Noregi, og þó hefði vikufriðunin þar mátt vera skemmri en hér á landi, af því að árnar eru þar flestar styttri og þola því betur skemmri friðunartíma. Reynsla Norðmanna er sú, að stytzta friðun á viku megi ekki vera skemmri en 72 klst., og auk þess hafa veiðimálastjórnir í einstökum héruðum heimildir til þess að ákveða miklu lengri vikufriðun, allt upp í 5 sólarhringa, sérstaklega þar, sem um er að ræða fastar veiðivélar og önnur föst veiðitæki. — ég ætla því, að hv. þdm. megi vera það ljóst, að ég gangi ekki of langt í kröfum um vikufriðun, þó að ég flytji brtt. um, að skemmsta friðun skuli vera 72 klst. á viku. Í vötnum og ám í Noregi er nú orðin mjög lítil laxveiði, þar sem hún var áður allmikil, og er því einkum borið við, að orsökin sé fyrst og fremst mikil laxveiði í sjó og of stutt vikufriðun í ám og vötnum. Þess vegna hefir friðunartíminn nú verið lengdur og veiðimálastjórnum einstakra héraða heimilað að lengja vikufriðunina upp í 4–5 sólarhringa, eins og áður er sagt, eftir því hvaða veiðitæki eru notuð. Þar að auki er þessum málum þannig háttað í Noregi, að mikið hefir verið byggt af klakhúsum og laxinum verið haldið við á þann hátt. En þrátt fyrir alla þessa viðleitni, eru sumstaðar þeir annmarkar á, að eigi er hægt að starfrækja klakhúsin, af því að laxveiðin er svo lítil. Milliþinganefndin, sem undirbjó þetta frv., hefir látið það í ljós, að hún hefði kosið að banna laxveiði í sjó, til þess að auka laxgengdina í árnar, en sakir þess, hversu erfitt er að innleysa þau veiðiréttindi á þessum þrengingartímum, þá var frá því horfið. Í Danmörku er þessum málum þannig komið, að sakir þess, hve laxinn hefir lítið verið friðaður þar, þá eru Danir búnir að missa alla von um að geta fjölgað laxinum þannig, að veiðin aukist frá því, sem hún er nú. Ég mun svo ekki fjölyrða um þessa brtt. mína að sinni, en vík e. t. v. nánar að vikufriðuninni síðar í sambandi við svar mitt til hv. þm. Borgf.

Þá kem ég að brtt. landbn. við 73. gr. frv., um það, hvernig fara skuli með bætur fyrir missi selveiðanytja á jörðum. Í 3. lið frvgr. er stungið upp á því, að ábúendur á jörðum ríkis, kirkju eða sveitarfélaga fái greiddar bætur fyrir missi selveiðinytja á ábýlisjörðum sínum við ófriðun selsins, er greiðist úr ríkssjóði, enda falli þær niður við næstu ábúendaskipti á jörðum þessum. Landbn. hefir ekki getað fallizt á þetta og leggur til, að það atriði verði fellt niður úr frv. Hinsvegar ætlar hún laxveiðinotendum að greiða þessar bætur. Það er nú svo, að óvíða eru friðlýst selalátur í árósum, en ef svo fer, sem búast má við, að laxveiðamennirnir greiði ekki þessar bætur, þá tefur það mjög fyrir útrýmingu selsins. Mér þykir leitt, að hv. meiri hl. landbn. skyldi henda sú smámunasemi að vera á móti þessu atriði. Og til allra hv. nm. vil ég segja það, að ég harma, að þeir skuli ekki hafa skilning á því, að slíkt mál sem þetta má ekki velta á lítilfjörlegum stundarhagsmunum; það er miklu meira framtíðarmál en svo. Það er enginn efi á því, að ef lög um lax- og silungsveiði eru skynsamlega sett og skorður reistar við því, að selurinn eyði laxinum, svo sem föng eru á, þá gefa þau landsbúum margar millj. kr. tekjur, þegar fram líða stundir. En hitt er líka jafnvíst, að ef hv. þdm. hafa ekki það glöggan skilning á þessu máli, að þeir láti sér í augum vaxa lítilsháttar útgjöld úr ríkissjóði um stundarsakir til friðunar laxinum í einni af beztu veiðiám landsins, þá dregur það mjög úr áhrifum þessara laga. Þessi á, sem ég á við, er Ölfusá. Þar eru þrjú friðlýst selalátur, sem tilheyra þremur jörðum, og ein þeirra er einstaklingseign; verður því að greiða eiganda hennar bætur fyrir missi selveiðinytja þar. Hinar tvær, Hraun og Arnarbæli í Ölfusi eru kirkjueign, og eftir till. landbn. yrðu laxveiðieigendur einnig að greiða ábúendum þeirra jarða samskonar bætur. Af þessu myndi því leiða töluverðan kostnað fyrir ekki fleiri menn en laxveiði stunda í Ölfusá, og jafnvel tilfinnanlegan. Hvort víðar stendur svipað á, veit ég ekki, en víst er um það, að hverfandi kostnaður væri fyrir ríkissjóð að inna þessa greiðslu af hendi vegna Arnarbælis.

Presturinn þar er orðinn roskinn og má því búast við, að þar verði prestaskipti áður en langt um líður, en þá falla bæturnar niður samkv. frv. hér er um meira að ræða en fjármunina eina, þar sem er skilningur sá, sem Alþingi á að sýna mönnum í efnum sem þessum. Ég vil því vænta þess, að hv. d. felli brtt. landbn. Ég ætla, að ég þurfi ekki að taka til athugunar aðrar brtt. landbn. Þær eru allar minni háttar og breyta ekki stefnu frv.

Vík ég þá að ræðu hv. þm. Borgf. og mun minnast á brtt. hans um leið og ég andmæli ræðu hans, en ekki ræða þær sérstaklega. Hv. þm. Borgf. sagði, að landbn. hefði sniðið stærstu agnúana af frv., en taldi þó, að hann hefði með brtt. sínum fært það í enn betra horf. Að því er snertir þær brtt. n., sem eru leiðréttingar á tilvitnunum til greina, get ég tekið undir þetta, en um efnishliðina er ég á öðru máli.

Hv. þm. sagði, að ég hefði gert of mikið úr því, að laxveiðin hefði minnkað, og kvað meðalveiði ekki minni en áður. En ég tel hæpið að byggja á þeim skýrslum. Útbúnaður til laxveiði er allur betri en áður og enginn vafi er a, að með þeim veiðitækjum og fé, sem lagt hefir verið í laxveiðina á síðari árum, hefir verið gengið nær fiskgengdinni en áður var. Enginn vafi er á því, að færri laxar en áður komast fram hjá veiðivelum í árósum. Þótt hv. þm. vilji byggja á tölu laxanna, sannar það lítið. Hitt sannar miklu meira, á hve mörgum jörðum lax er veiddur. En þar hefir breyting á orðið. Og eftir þeirri breytingu að dæma getur þess ekki orðið langt að bíða, að laxinn gangi til þurrðar, eins og reyndin hefir orðið á erlendis. Ég vil lítið eitt drepa á, hvernig háttað hefir verið um veiðina að þessu leyti fyrr og nú. Ég hefi áður hér á þingi gefið skýrslu, þar sem saman var borin laxveiði á jörðum eftir Jarðabók Árna Magnússonar og hagskýrslur um sama efni frá 1928. Vil ég nú tilgreina þessar tölur og ennfremur tölur eftir skýrslum frá 1930, en það eru yngstu skýrslur um þessi efni.

Veiðijarðir voru:

Sýsla: Eftir Jarðab. Á.M. 1928 1930

Árnessýsla ........ 50 38 30

Mýra- og Borgarfjs... 90 60 35

Húnavatnssýsla ...... 85 46 37

Skagafjarðarsýsla .. 55 13 6

þessar tölur sanna miklu meira en tala laxanna, þótt í svipuðu horfi sé og áður. Hv. þm. sagði, að menn hefðu svo mest nota af veiðinni, að þeir veiddu sem mest á hverjum tíma innan ramma laganna þetta kann rétt að vera, en þó verður að slá þann varnagla, að séð verði um, að laxinn gangi ekki til þurrðar. Hitt er augnabliks hagnaður, sem getur leitt til hins mesta tjóns.

Hv. þm. Borgf. þótti settar við því of ríkar skorður, að hlunnindi fylgdu jörð og jarðeigandi hefði þeirra nytjar. Hann minntist á 5. tölul. 2. gr., þar sem segir svo: „Nú er réttur til stangarveið: skilinn við landareign samkv. 4. málsgr., og er þá löglegt, að landeigandi jafnframt afsali sér rétti til annarar veiði í vatninu það tímabil, sem stangarveiðin er við landareignina skilin“. Ég veit ekki, hvort ég skildi hann rétt, en mér heyrðist á honum, að hann teldi, að með þessu væri þeim, sem tekið hafði á á leigu til stangarveiði, gefinn frekari réttur til veiði í ánni. En slíkt er auðvitað fjarstæða, þar sem það yrði undir samningum komið milli leigjanda og veiðieiganda.

Hv. þm. flytur brtt. um, að 3. gr. falli niður, en í henni er svo ákveðið, að þar sem veiðiréttur er skilinn frá landareign, áður en lögin öðluðust gildi, megi eigendur leysa veiðina til sín, hver fyrir sinni landareign, ef meiri hl. þeirra krefst og ráðh. og veiðimálanefnd samþykkir. Hv. þm. kvað illa um þetta búið, enda stríddi það á móti stjórnarskránni. Slíkt er fjarstæða, þar sem hér er ákveðið, að fullt verð komi fyrir og sé eigi gert nema almenningsheill krefji, þ. e. meiri hl. landeigenda óski þessa. Slíkt er í samræmi við ýms önnur lög og samþykktir þingsins og brýtur því alls ekki í bág við stjórnarskrána. Get ég í því efni vitnað í ýmsa fremstu lögfræðinga vora, sem stuðluðu að undirbúningi frv., enda var þetta atriði ýtarlega rætt í nefndinni.

þá kom hv. þm. Borgf. að 6. gr. Hann tók hana sem dæmi þess, hversu flausturslega n. hefði leyst störf sín af hendi, og vildi kasta þeim steini að n., að greinin væri mælikvarði á hana og störf hennar.

Ég skal nú ekki fara að þrátta við hv. þm. Borgf. um þessi ákvæði. En ég þykist þess fullviss, að hv. þm. hefir ekki kynnt sér þau nógu vel, fremur en 3. gr., til að vera dómbær um þau, og sízt til að geta brigzlað n. fyrir þau. En hann hefði átt að gæta sjálfs sín betur en svo, að hann legði út á þennan hála ís. Hann hefir sett alveg sama ákvæðið í vatnalögin frá 1924. 124. gr. þeirra laga er frá orði til orðs eins og 6. gr. þessa frv. Ég man ekki til, að hv. þm. hafi þá látið eitt orð falla um, að sú grein bryti í bág við lög og rétt. Ef hann hefir séð það, hefir hann a. m. k. brotið þingmannsskyldu sína með því að þegja. En ég ætla nú ekki, að svo hafi verið, heldur hafi hann nú ofmælt.

Ég vil minna hv. þm. á, að hægt er að skírskota til eldri laga um þetta efni en laganna frá 1923. Ákvæði Jónsbókar í landsleigubálki, 56. kap., eru mjög áþekk, og vil ég með leyfi hæstv. forseta, lesa þau upp:

„Hverr maðr á vatn ok veiðistöð fyrir sinni jörðu ok á sem at fornu hefir verit, nema með lögum sé frá komit. Vötn öll skulu svá renna sem at fornu hafa runnit; veiti þat engi maðr af bæ eða á bæ annars. nema þat brjóti sjálft“.

Til frekari glöggvunar vil ég leyfa mér að lesa upp 6. gr. „Nú skilur vatn landareignir, og er þá landeiganda hvorum megin veiði jafnheimil. Rétt er hvorum þeirra að hafa ádráttarveiði og draga vað að hvoru landi sem vill. En bæta skal hinum landspell eftir mati, ef ekki semur. Skipta má veiði samkvæmt 4. gr.“.

Þannig hljóðar gr., og samkv. ákvæðum hennar er alveg ljóst, að ef einhver jörð á veiðirétt frá báðum löndum, en ekki land nema öðru megin ár, koma þessi ákvæði um veiðirétt landeiganda beggja megin ár ekki til greina.

Ákvæði Jónsbókar um þetta efni hljóða svo ennfremur:

„Hvervetna er menn eigu fiskiá saman, þá á hvárr at veiða sem vill, meðan úskipt er ánni, ok draga váðir at hváru landi er þeir vilja, en eigi skal hann öðrum veita. En ef nokkurr þikkiz mishaldinn af, þá beiði hann skiptis á, ok skipti VI grannar þeira; þeir skulu skipta víkum eða smærum, en þeir skulu ráða, ef þá skilr á, er lengrum vilja skipta“.

Ég get bætt því við, að ljóst er, að forfeður vorir hafa haft glöggan skilning á þessu sem öðru og gætt þess að setja undir lekann, og betur en nútímamenn, sem breytt hafa árfarvegum, eins og ég mun víkja að síðar. Ég veit jafnvel til, að opinberri eign hefir verið stórspillt á hann hátt. Ég hirði ekki að lesa meira úr Jónsbók, þótt ýmislegt fleira sé í þessum kapitula, sem gaman hefði verið að rifja upp, en læt þetta nægja til að sýna, að ákvæði frv. eru hin sömu að efni til. Frv. vill stefna að því sama og forfeður vorir, að þær landsnytjar, sem hér ræðir um, geti haldizt sem bezt og helzt stóraukizt.

Hv. þm. minntist á veiðitímann og fannst óheppilegt, að hann skyldi ekki vera tilfæranlegur. Á þessu er þó gerð nokkur rýmkun í 2. lið 16. gr., en ekki skoða ég það sem neitt höfuðatriði, að sýslunefndir fjalli um það mál, og finnst, að það ætti fremur að vera á valdi fiskiræktarfélaganna.

Þá sagði hv. þm., að við hefðum lengt veiðitímann úr 3 mánuðum í 31/2 mánuð. í 2. lið 16. gr. stendur þó: „Á tímabili því, er getur í 1. málsgr., má þó hvergi stunda laxveiði, aðra en stangarveiði, nema 3 mánuði“ þetta er því byggt á misskilningi hjá hv. þm. Um stangarveiðina er ákveðið, að hún megi hefjast 1. júní og verði að enda 17 sept., eftir því hvenær hún byrjar. en megi ekki standa lengur en 3 mánuði. Hefjist veiðin 1. júní, verður hún að hætta í ágústlok.

Hv. þm. sagði, að ákvæði þau, sem áður hefðu verið í lögum um þessi efni, hefðu gefizt vel, og því verið óþarft að breyta þeim. Hann kvað veiðitímann vera styttri eftir sinni brtt. en frv. okkar, en það er ekki rétt, eins og ég hefi sýnt fram á. Hitt tel ég vafasamt, að hægt sé að fullyrða, að ástand það, sem verið hefir, hafi gefizt vel: Ég ætla, að víða, einkum við árosa, hafi verið þrengt svo að, að lítil fiskiför hafi orðið ofar í ánum. Held ég því, að ekki sé hægt að skírskota til reynslunnar í þessum efnum, þó að fleira komi raunar til greina en veiðitíminn einn.

Ég get reyndar sagt það, að fleira kemur til greina í þessu sambandi en ráð eitt, hvenær veiðin byrjar. En ég get ennfremur sagt hv. þm. Borgf. það, að það er engan veginn þýðingarlítið, að veiði byrji ekki fyrr en fiskigengd er byrjuð. Það er sökum þess, hvernig þessi fiskur verður að haga göngu sinni upp í vatnsföllin. Þegar hann kemur utan af hafinu, þarf hann að nema staðar við árósana og venjast súrefni hins ferska vatns. Hann lætur því flóðið, bera sig fram og aftur um árósana áður en hann gengur upp í árnar. Það er því enganveginn tilgangslaust, að veiði byrji ekki mjög snemma. Það eru auðvitað takmörk fyrir því, hve seint hún má byrja, en mikils er um það vert, að veiðinni sé þannig háttað, að laxinn geti án tafar haldið áfram göngu sinni.

Hv. þm. Borgf. minntist þess í þessu sambandi, að þörf væri að gera göngusilungi sömu skil. Gat hann þar um, hve margir þeir yrðu, sem misstu hlunninda af afnotum Hvítár í Borgarfirði og Norðurár, ef þessi ákvæði frv. næðu einnig til hans. Það má vera, að menn missi hlunninda um stundar sakir. Ég skal ekki um það deila. En ég vil benda hv. þm. Borgf. á reynslu annara þjóða í þessu efni. Þegar Norðmenn settu sína laxveiðilöggjöf árið 1848, höfðu þeir ströng ákvæði um göngusilung. Síðar meir, þegar sú löggjöf var endurskoðuð, gáfu þeir eftir á þeim ákvæðum og heimiluðu að veiða silunginn lengur. En hin fyrsta reynsla af þeirri ráðabreytni var sú, að laxgengd og veiðiskapur á göngusilung minnkaði. Nú á seinni tímum hafa þeir mjög hert sína löggjöf þessu viðvíkjandi, og láta eitt yfir báðar þessar tegundir ganga hvað veiðiskap snertir. Ég get einnig bent hv. þm. á laxveiðilöggjöf Englendinga; þeir gera þar engan mun á þessum tegundum.

Hv. þm. Borgf. drap í þessu sambandi á upplýsingar, sem hann hefði fengið hjá Halldóri Vilhjálmssyni, skólastjóra á Hvanneyri og Sigurði Fjeldsted í Ferjukoti. Einnig skírskotaði hann til einhvers Englendings, sem hefði stundað stangarveiði við Grímsá í Borgarfirði, og taldi að göngusilungur væri hinn mesti vágestur fyrir laxaseiðin í ánum. Hvaðan sem slíkar upplýsingar koma, vil ég fullvissa hv. þm. um, að þetta er ekki á neinum rökum byggt. Göngusilungurinn gerir ekki hið minnsta tjón. Það er vatnasilungurinn, urriðinn, sem þar er mestur vágestur. Það er ekki í fyrsta skipti, sem þeir, er rányrkju hafa stundað í stórum stíl og orðið meir til meins en gagns, þykjast bera manna bezt skyn á þessi mál. Ég minnist ritsmíðar úr þessari átt fyrir nokkrun árum, þar sem þeir menn, sem riðnir voru við flutning slíks frv. sem þessa hér á þingi, voru heimskaðir fyrir að þeir hefðu ekki stundað laxveiði og hefðu því ekki vit á þessum málum. En eftir fenginni reynslu fullyrði ég, að það eru einmitt þessir menn, sem mest hefir á borið og mest hafa spyrnt við fótunum, þegar átt hefir að ráða einhverja bót á þessum málum. Og frá þeirra hálfu hefir komið fram næsta lítil þekking á lifnaðarháttum og eðli þessara fiskitegunda, og þeir ættu því að hafa hljótt um „fróðleik“ sinn, ef hann er ekki meiri en enn hefir komið fram. Og ég vil beinlínis benda hv. þm. Borgf. á, að hann skuli ekki leggja of mikið upp úr áliti þessara manna, þótt þeim hafi auðnazt að drepa nokkrar bröndur í ám og hugsi um það eitt að drepa sem mest. Það væri undarlegt, ef jafnmiklir veiðimenn og Englendingar hefðu slík ákvæði í sinni löggjöf, ef þeim fyndist þau vera til skaða. Englendingar hafa mjög mikið gert til þess að bæta sína laxveiði, og má því nærri geta, hvort slík ákvæði eru að þeirra áliti til hinnar mestu skaðsemdar fyrir laxinn. Það þarf ekki að benda á annað en þetta til þess að fá fulla sönnun fyrir því, að rétt er að hafa hin sömu ákvæði um göngusilung og lax. Ég vona, að þessi aðvörun, sem kemur nú hér fram í þinginu af minni hálfu, verði bending til Borgfirðinga um að fara ekki að ráðum þessa enska sportmanns, sem leigt hefir Grímsá til stangarveiða, og uppræta nú ekki hverja silungsbröndu úr ánni, þvert á móti hæna göngusilung sem mest í vötnin.

Hv. þm. Borgf. harmaði mjög að ein þeirra brtt., sem fram væru bornar um þetta efni, skyldi kveða svo á, að það væri háð vilja veiðimálastjóra, hvort frekar skyldi rýmka til í þessum efnum, og finnst hún ganga tæplega nógu langt. En ég er búinn að lýsa yfir því, að þær ganga allt of langt og eiga ekki rétt á sér. Ég er ekki að álasa hv. þm. Borgf. fyrir það, að hann flytur þessa brtt. Hafi hann ekki þekkt til þessara atriða áður, þá er hverjum manni það vorkunnarmál að leggja trúnað á orð þeirra manna, sem einir þykjast sitja inni með allan fróðleik. En menn skyldu varast að taka tillit til þeirra manna, sem hafa hagnað af því, að gengið sé sem næst veiðiskap þessara nytjafiska, sem ganga í vötnin hér á landi. Það er vissulega búið að ganga allt of langt í því efni.

Ég kem þá að vikufriðuninni, sem hv. hm. gerði að umtalsefni. Ég var búinn að víkja að henni áður, svo að ég get farið fljótt yfir sögu. Hv. þm. benti á, að þar sem um væri að ræða stórár eins og Hvíta í Borgarfirði og Ölfusá, þá væri ekki mikil hætta, þótt veiðivélar næðu út í miðjar árnar. Og þótt vikufriðunin væri ekki lengri en 48 stundir, eins og lagt hefir verið til, þá ætti viðhaldi göngusilungs ekki að vera hætta búin. Ég er áður búinn að víkja svo rækilega að þessu atriði, að ég þarf ekki miklu við að bæta. En ég get aðeins tekið það fram, að reynslan er búin að sýna, að slíkt fyrirkomulag á veiðitækjum í vatnsföllum og jafnvel þótt það nái sumstaðar út í miðjar árnar, þá hefur fiskigengdin þorrið stórum. Hér er heldur ekki einungis um breidd ánna að ræða, heldur einnig hvernig straumfallið er, og er því nauðsynlegt, að reistar séu skorður við því, hvar koma megi veiðivélum fyrir. Þess vegna er það nauðsynlegt að tiltaka lengd bilsins milli hinna föstu veiðivéla í ánum, og till. n. er byggð á því, að þar sé eigi skemmra á milli en 100 metrar. Í veiðilöggjöf Norðmanna er þetta einnig talið hið minnsta, sem vera megi.

Þá minntist hv. þm. á ádráttinn og þótti undarlegt að mþn., sem virtist vilja friða laxinn, skyldi færa veiðitímann frá kl. 9 til 12. Ég get sagt hv. þm. Borgf., að ég legg enga áherzlu á þetta atriði þetta var einungis ákveðið af þeim ástæðum, að við töldum heppilegra, þar sem þessi veiði fer fram um sláttinn, að veiðimennirnir gætu notað tímann að kvöldinu og tafizt minna frá öðrum verkum. Viðvíkjandi því, sem hann sagði, að laxinn sækti í hyljina á kvöldin og að þetta fyrirkomulag væri því líklegra til að spilla og uppræta veiðiskap í vötnum, þá hygg ég það vera úr lausu lofti gripið, því að mér er kunnugt um það, að laxinn leitar frekar á grynningarnar í myrkri, sérstaklega þar sem möl er í botninum. En um þetta atriði mun ég annars ekki gera neinn ágreining, það má færa tímann til kl. 9, ef menn hafa trú á því, og ég tel ekki rétt að setja hitt í frv., ef allir eru uppfullir með, að þetta sé heppilegra.

Takmörkunum þeim, sem frv. setur um adráttarveiði, hefi ég ekkert á móti, enda er svo um búið í frv., að eftir tillögum þess manns, sem hefir þessi mál með höndum og á að hafa hina beztu dómgreind um þá hluti, á að vera hægt að friða hvern þann stað, sem hætta getur stafað af, að ádráttarveiði sé stunduð þetta er og rétt, því að tilgangslítið væri að þrengja að veiði við árósana, ef nokkrum mönnum ætti að haldast uppi að spilla veiðinni með ádrætti, sem bætt var úr með öðru ákvæði, og vil ég ekki stuðla að því, að þessi veiði verði til þess að rýra friðun laxins. Að öðru leyti held ég, að ég þurfi ekki að fjölyrða frekar um vikufriðunina. Hefi ég minnzt rækilega á hana áður og get látið mér nægja að skírskota til þess.

Þá er ákvæði 28. gr. frv. um möskvastærðina, sem hv. þm. Borgf. kemur með brtt. við. Ég get fyrir mitt leyti lýst yfir því, að ég tel það litlu máli skipta, þótt möskvastærðin verði ákveðin eins og hann nú leggur til, í stað þess, sem lagt hefir verið til af hálfu mþn. En viðvíkjandi þeim röksemdum, sem hann ber fram fyrir sínu máli, að nauðsynlegt sé að hafa þessa möskvastærð, til þess að hlífa unglaxinum, þá get ég sagt hv. þm. Borgf. það, að slíkt er engin röksemd fyrir þessari brtt. Það er þannig háttað um göngu laxins í ferskt vatn, að þangað kemur nær ekkert annað en fulltíða lax. Það er vísindalega sannað, að ekki nema örfá prósent af laxi koma nokkurn tíma upp í árnar. Þeir koma þangað ekki fyrr en þeir eru orðnir kynþroska, og ekki nema örlítið brot af heim laxi, sem eitt sinn hefir aukið kyn sitt þar, kemur aftur. Líka er þess að geta í þessu sambandi, að um fleiri en eina tegund af laxi er að ræða, og smálaxinn, sem veiðist hér stundum, er sérstök tegund, sem ekki nær meiri þroska. Hv. þm. Borgf. skírskotaði í þessu efni til bréfs frá , þeim mönnum, sem ég minntist á áðan — þeim Halldóri Vilhjálmssyni á Hvanneyri og Sigurði Fjeldsted í Ferjukoti —, þar sem þeir láta eitthvað í ljós um það, hve þetta væri stórhættulegt unglaxinum. En ég hefi vikið að því aður, hve álit slíkra manna er lítils virði. Þeir höfðu skírskotað þar til norskra laga. Ég man ekki, hvaða möskvastærð hv. þm. nefndi. (PO: Svipað og í gömlu lögunum, eða rúmlega 23 cm. að ummáli). Það mun rétt vera, eða 5,8 cm. milli votra hnúta. En í þessu sambandi vil ég geta þess, að laxinn í Noregi er nokkru stærri en sá, sem gengur í árnar hér, svo þar á þetta betur við. Ég verð einnig að minnast á það, að Norðmenn höfðu áður það ákvæði, að ekki mætti fara nær árósum með veiðiskip en 400 metra, og þykist ég vita, að í þessu bréfi, sem þessir Borgfirðingar hafa sent þm. sínum (PO: Þeir sendu þinginu það.), hafi þeir ekki látið undir höfuð leggjast að benda á þau ákvæði norskra laga, sem tiltaka, að laxinn skyldi vera friðaður 4 til 5 sólarhringa í hverri viku, til þess að tryggja sem bezt fiskigöngu í vötnin.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði, að ekki mætti fara nær árósunum en tiltekið er í frv., og vildi telja, að sumar jarðir yrðu fyrir skaða sökum þess, þá held ég, að það yrði óvíða, þótt ég þori hinsvegar ekki að staðhæfa neitt um það.

Þá minntist hv. þm. á það, sem ég hefi að nokkru vikið að áður, að ef svona langt ætti að vera á milli veiðivéla, myndi sumstaðar eigi unnt að koma veiðivélum fyrir í ánum, því að víða væru staðhættir til þess að ganga frá lögnum beztir með stuttu millibili. Þessu skal ég ekki mótmæla, því að það má vel vera rétt, þótt það réttlæti ekki þessa veiðiaðferð. Og með því móti gæti orðið gengið hættulega nærri fiskistofninum. Hvað sem þessu ákvæði líður, er nauðsynlegt, til þess að tryggja friðun þessara landsnytja, að eigi sé haft skemmra millibil en hér er lagt til.

Ég hefi þá drepið á þau atriði í ræðu hv. þm. Borgf., sem mér þóttu verulegu máli skipta, og get látið hér staðar numið. Ég vil aðeins í þessu sambandi minna á það, að ef erlendum þjóðum, sem í þessum efnum hafa sömu hagsmuna að gæta, hefði ekki verið það ljóst, hve þýðingarmikið þetta atriði er, þá hefðu þær ekki sett um það jafnrækilega löggjöf og ekki harmað, eins og nú, hve þau ákvæði hafa verið seint sett, sem tryggja þessi veiðihlunnindi. En svo hefir farið, að þeim hefir orðið það til hins mesta tjóns, hve veiðilöggjöf þeirra var áfátt. nú getum við hrósað happi yfir því, hve tiltölulega lútið fé er búið að leggja í veiðivélar í vötnum, og við eigum að nota okkur þá aðstöðu til þess að setja á löggjöf, sem hamlar því, að veiðinni verði spillt, áður en það er um seinan, því að það er víst , að ef við sýnum hirðuleysi í þessu efni, þá hafa menn áður en varir lagt mikið fé til fullkomnunar þessum veiðiútbúnaði, til þess að grípa upp veiðina. Og innan fárra ára myndi laxveiðinni í þessu landi verða stórkostlega spillt frá því, sem nú er. Sem dæmi þess, hve þær þjóðir, sem orðið hafa of seinar í þessu efni, hafa átt við mikla örðugleika að stríða, má benda á reynslu Norðmanna, sem á árunum 1848–1930 hafa fimm sinnum orðið að endurbæta sína löggjöf. Og þó er svo komið þessum veiðiskap, að þeir, sem orðið hafa of seinir á sér, harma, hve síðla þeir komu auga á þær varnarráðstafanir, sem þeir upphaflega hefðu átt að setja, en nú er orðið erfiðara viðfangs. Það mun einnig vera svo hvað Bretland snertir, að fá eru þau þing, sem þar hafa verið háð frá því á 19. öld, að ekki hafi komið þar fram meiri og minni tillögur til breytinga á laxveiðalöggjöfinni, og hafa þær gengið í þá átt að reyna að tryggja enn betur þessi hlunnindi, og tilraunir hafa verið gerðar til þess að auka fiskigengd í þessum vötnum. Mér dettur í þessu sambandi í hug á ein á Írlandi, sem ekki var laxgeng nema nokkuð upp eftir, en var svo gerð laxgeng lengra. og innan stundar var stórkostleg veiði fyrir ofan hinn áður ófæra foss. Ég man ekki glöggt, hve það skipti mörgum þúsundum punda á ári á þessu tiltölulega litla svæði, en það var mikið. Ég vænti því, að d. sýni þessu máli hinn bezta skilning og jafnframt hina mestu varfærni í að skemma ekki þau atriði í frv., sem gerð eru til endurbóta okkar laxveiðalöggjöf, þótt þau kynnu á hinum fyrstu árum að skerða hagsmuni þeirra, sem nú veiða mest. Ég er sannfærður um, að innan stundar fá þeir á skömmum tíma, en þó með minni tilkostnaði, miklu meira verðmæti en nú, auk þess sem fleiri menn á landinu nytu þeirra gæða. Það er skylda hv. þdm. að gera sér þess ljósa grein, að í þessu efni er ekki einungis verið að vinna fyrir stundarhagsmuni nokkurra manna þetta er fyrst og fremst fyrir framtíðina gert.