08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

1. mál, fjárlög 1933

Sveinn Ólafsson:

Ég á hér brtt. við 13. gr., á þskj. 334. — Annríkis vegna hefi ég ekki getað setið á fundi né hlustað á umr., og því heldur ekki mælt með mínum till., en þær eru allar um sama efni, um tilfærslu á vegafé. Ég legg til, að nokkrar upphæðir séu teknar frá ákveðnum vegum, svo sem Holtavörðuheiðarvegi 20 þús., Blönduhlíðarvegi 3 þús. og Ljósavatnsskarðsvegi 3 þús. kr. Jafnframt legg ég til, að varið verði lítilli upphæð, miklu minni þó en fella skal niður, til vegagerðar á Austurlandi.

Eins og kunnugt er, eru það tveir hlutar landsins, sem jafnan hafa orðið útundan við vegagerðir. Þeir eru Vestfirðir og Austurland.

Þar sem nú svo óvenjulega lítið er veitt til vega og lítil efni til framkvæmda, þá ætti að sjálfsögðu um það að hugsa, að veita fénu þangað, sem þörf fólksins er brýnust. Koma þá fjallvegirnir eða skemmtivegir sízt til greina, en flutningabrautir um byggðir verða að teljast fólkinu nauðsynlegar. Ég lít svo á, að Holtavörðuheiði sé aðallega sumarvegur ferðamanna, en oftast þá ófær bílum á vetrum, enda um hana engir þungavöruflutningar. Svipað er um hina vegina að segja, sem ég geri tillögur um, að lækkað sé tillag til.

Ég vil líka líta svo á þessar vegagerðir, að þær séu jafnhliða atvinnubótaráðstöfun fyrir þau héruð, þar sem unnið er. Svo hefir það verið og svo mun það verða. Og þegar kreppir að um atvinnu, þá er ástæða til að skipta vegafénu niður á þau héruð, þar sem mest framboð er um vinnu. En till. hv. fjvn. sýna það, að hún hefir ekki tekið tillit til þessa eða haft slíkt fyrir augum. Skipting fjvn. á vegafénu þykir mér eigi viðunandi og hefi ég því, jafnframt tillögum mínum um lækkun, lagt til, að teknir væru inn á fjárl.frv. 2 þjóðvegakaflar á Austurlandi. Er það Geithellavegur með 6000 kr. tillagi og Breiðdalsvegur og Breiðdalsheiðar með nokkru meira, eða 7000 kr. Báðir liggja vegir þessir um tiltölulega þéttbýlar og fjölmennar sveitir, sem enn verða að búa við verstu vegleysur og sætta sig við klakkaflutning, en fyrirhugaður þjóðvegur á að liggja um báða þessa staði. Með vegagerð þessari er tvennt unnið: Möguleikar á því að nota veginn strax til nauðsynlegra flutninga og atvinnubót veitt þeim mönnum, sem búa í námunda við þessa staði og hafa mikla þörf fyrir aukna vinnu. Engin ástæða er til að fjölyrða um vegi þessa og verður að ráðast, hvernig um þetta fer. En ég treysti á nærgætni þeirra manna, sem um þetta eiga að greiða atkv. og kunnugleika hafa til þess að geta metið réttilega allar ástæður. Og ef þeir, sem miður eru kunnugir, leita sér upplýsinga um þetta hjá þeim, sem kunnugir eru, þá vil ég ekki draga í efa sanngjarnlegt álit þeirra og að óskir mínar fái góðar undirtektir. — ég gæti að vísu bent á fleiri rök máli mínu til stuðnings, en býst varla við, að þess þurfi, og mun því ekki eyða tíma þingsins með lengra máli. Ég vænti þess, að hv. fjvn. líti með sanngirni á þetta og að hún og hv. deild láti ekki hlutdrægar fortölur villa sér sýn.