08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

1. mál, fjárlög 1933

Jörundur Brynjólfsson:

ég á hér eina brtt. við þennan kafla, þá I. á þskj. 334. Hún er um það, að veita Lúðvík Nordal lækni á Eyrarbakka 1000 kr. til að sinna læknisstörfum í Árnessýslu. Þessi læknir hefir nú starfað um alllangt skeið þar eystra og getið sér hinn bezta orðstír. Læknishérað þetta er víðlent og torvelt yfirferðar. Er því erfitt fyrir einn lækni, sem einnig er nokkuð við aldur, að gegna öllum erindum. Héraðslæknirinn er að vísu ágætismaður og ekkert nema gott um hann að segja, en nauðsyn þess að hafa tvo lækna þarna er það mikil, að nokkrir menn hafa tekið það ráð að launa öðrum lækni að nokkru, þar sem laun hans sem praktiserandi læknis hafa eigi getað orðið svo mikil, að nægt hafi honum og fjölskyldu hans til framfæris. En nú eiga þeir menn, sem hafa greitt þessi laun, erfitt með greiðslur og þá líka með þetta eins og annað. Áður hefir verið leitað til þingsins í þessu skyni, þótt ekki hafi komið fram till. um það í d. þingsins. En slíkt erindi hefir verið sent til fjvn., og eigi fengið áheyrn hjá henni. Ég hefi nú leyft mér að bera þessa till. fram fyrir hv. d. Vona ég, að hún líti með sanngirni á hana og neiti henni ekki. Ef ekki hefði verið svo erfitt sem er, þá hefði ég latið að ósk héraðsbúa og haft till. hærri. En þar sem henni er nú svo mjög í hóf stillt, þá vona ég, að hún verði samþ.

Um einstakar brtt. mun ég ekki fjölyrða. Ég get þó ekki stillt mig um að víkja að því, sem hv. frsm. sagði um vegamálin. Hann hefir vitanlega haldið fram sinni skoðun í því efni. En ég get tekið undir það, sem þeir hv. Í. þm. N.M. og hv. 1. þm. S.-M. sögðu. Þegar eins lítið er lagt af mörkum til vegagerðar eins og er í þessu frv., þá verður fyrst og fremst að leggja til grundvallar fyrir skiptingu þess, að það geri sem mest gagn, þegar miðað er við hagsmuni almennings. En það er flutningur á nauðsynjum frá og til heimila. Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir þeim till., sem vegamálastjóri hefir sent Alþingi nú, þar sem það er fyrirfram kunnugt, hvað litlum fjármunum er úr að spila til vegagerða á næsta ári. Og ég mótmæli því, þótt þessi maður hafi góðan kunnugleika á högum lands og þjóðar og láti sér annt um starf sitt, að hann kunni betur skil á þörfum manna á hverjum stað, að því er samgöngur snertir, heldur en einstakir þm., hver í sínu héraði, því til sönnunar þarf ekki annað en líta á, hvernig hann leggur til, að notað sé það litla fé, sem gert er ráð fyrir að leggja í vegagerð á næsta ári. Megninu af því vill hann láta verja til umbóta á fjöllum uppi, þótt víða séu enn í byggðum hinar verstu torfærur, og menn verði sumstaðar að flytja nauðsynjar sínar á reiðingum, vegna þess að ekki er einu sinni hægt að koma hestvögnum við til flutninganna.

Að ég kem ekki fram með till. um aukin framlög til vegagerða í sveitum stafar ekki af því, að ekki sé hin brýnasta þörf á því, heldur af hinu, að ég býst ekki við, að fjárhagur ríkissjóðs leyfi það.

Ég vildi aðeins láta það koma fram, sem ég nú hefi sagt, vegna þess að mér fannst á ummælum hv. frsm., að þar kenna hins mesta misskilnings í þessum efnum.