16.04.1932
Neðri deild: 53. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

7. mál, lax- og silungsveiði

Bjarni Ásgeirsson:

Ég á hér 2 brtt. við þetta mál á þskj. 436. Fyrri brtt., við 17. gr., er um það, að herða á friðunarákvæðum fyrir ádráttarveiði. Eins og vitanlegt er, er aðaltilgangur frv. að auka friðun á laxi, til þess að geta á hann hátt spornað við því, að laxinn eyðileggist og hjálpa til að fjölga honum. Þó að þessi friðun geti skert eitthvað veiðina á vissum jörðum í bili, þá getur það síðar orðið til þess að auka hana og þannig hjálpa mönnum til að vinna upp hallann, sem þeir kunna að verða fyrir í bili, ef veiðin rýrnar eitthvað. En nú á að samþ. ákvæði, sem auka friðunartímann við ósana. Margir eru þeirrar skoðunar, að þó að ósaveiði sé hættuleg fyrir laxinn, þá sé ádráttarveiðin ennþá skaðlegri. þess vegna álíta sumir, að ef til vill væri réttara að banna alla ádráttarveiði. Svo langt hefir n. ekki viljað ganga, en í frv. eru ákvæði um, að atvmrh. geti, eftir till. veiðimálan. og veiðimálastjóra, friðað ádrætti og jafnvel heilar ár. Nú var rætt um það í n. að auka hina almennu ádráttarfriðun fram yfir það, sem er í frv., þannig að leyfa ekki ádrátt nema 3 daga í viku, í staðinn fyrir 4 daga. Þessar till. komu fram í n. áður en málið var til 2. umr., en voru felldar vegna þess að fellt hafði verið í n. að auka friðunina við ósa jafnmikið og till. frv. fara fram á. En ég býst við, að d. muni einnig geta fallizt á að herða á friðuninni uppi í ánum. Brtt. fer fram á, að í staðinn fyrir, að leyft er að draga á í 4 daga, eins og nú er í frv., sé það fært niður í 3 daga, og heimildin um að veiða megi í 5 daga sé færð niður í 4 daga.

Önnur brtt. er við 33. gr., um það, að þar sem ár renna í kvíslum, tveimur eða fleiri, þá megi atvmrh. heimila, eftir till. veiðimálastjóra, að leggja veiðivélar út í miðja kvísl, ef ekki er lagt nema í eina. Það er gert með tilliti til staða, þar sem ég er kunnugur og ákvæði frv. eins og þau eru nú mundu geta valdið miklu tjóni fyrir hlutaðeigandi veiðieiganda. En sjálfsagt verður að athuga áður en leyfið er veitt, hvort það verði til verulegs tjóns fyrir fiskiveiðar og fiskigöngur í ánum og þar af leiðandi fyrir alla veiðieigendur. Fleira hefi ég svo ekki um þessar till. mínar að segja.