16.04.1932
Neðri deild: 53. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

7. mál, lax- og silungsveiði

Jónas Þorbergsson:

Það verður sennilega um þetta frv. eins og marga aðra yfirgripsmikla lagabálka, að það verður ekki við fyrstu smíð í alla staði fullkomið. Má gera ráð fyrir því, að enda þótt það nú í einhverri mynd nái samþykki hér á þingi, mun reynslan sýna agnúana og færa það til samræmis við þær breytilegu ástæður, sem því er ætlað að hafa áhrif á og snerta. Mér hefir virzt, að á frv. væru ennþá verulegir agnúar. Ég hefi því leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 410 og við hana brtt. á þskj. 437. Aðaltilgangur minn með þessum brtt. er að reyna að koma því til leiðar, að færð verði til meira samræmis þau ákvæði í frv., sem snerta skerðingu eignarréttar, afnotaréttar og hlunnindaréttar einstakra manna í landinu. Mér virðist á þessu vera verulegur misbrestur eins og frv. liggur nú fyrir. Ég skal leyfa mér að fara nokkrum orðum um hinar einstöku till. eða liði þeirra till., sem ég hefi borið fram á þskj. 410. 1. liður gerir ráð fyrir því, að veita megi undanþágu frá þeim ákvæðum, að aðeins megi girða 1/3 hluta ár, ef þeir staðhættir eru fyrir hendi, að slík ráðstöfun, sem frv. gerir nú ráð fyrir, mundi skerða stórlega eða jafnvel svipta jarðareiganda aðstöðu til veiðinnar. Ég hefi með till. á þskj. 437 borið fram breyt. á þessum lið, þannig að ég ætlast til, að inn í hann komi tilvísun til 3. málsgr. 27. gr., sem hefir af vangá fallið úr, þegar ég samdi aðaltill. Enn fremur skal ég leyfa mér að lýsa yfir því, að ég mun bera fram viðaukatill. við þennan lið, brtt., sem ég ætlast til, að hljóði á þessa leið: „Þó mega veiðivélar aldrei ná lengra en út í miðja aðalstraumlínu og aldrei lengra en út í miðja á“. Ef fyrsti liður er samþ. eins og hann er, þá eru ekki takmörk sett gegn því, að leggja megi lengra en út í miðja aðalstraumlínu. En samkv. þeirri till., sem ég bar fram við 2. umr., gerði ég ráð fyrir, að þessi takmörkun væri bundin við miðja aðalstraumlínu. Það fannst mér sanngjarnt og mundi helzt falla saman við breytilegar ástæður, sem fyrir hendi kynnu að vera á hverjum stað. Nú var það fellt, og til þess að ná þessari takmörkun, þá hefi ég leyft mér að bera fram við þennan lið, með því að hann tryggir það ekki, að ekki sé gengið lengra en ég hefi óskað eftir að gengið yrði í þessu efni, breytingu, sem yrði til þess að draga úr þeirri andúð, sem kynni að verða gegn því, að þessi takmörkun yrði þannig ákveðin. Ég hefi áður tekið það fram í umr. um þetta mál, að ég teldi varhugavert og óskynsamlegt að setja í lög jafneinstrengingslegt ákvæði eins og það, að hvergi megi setja veiðitæki lengra en til í 1/3 hluta árinnar, því breytilegar ástæður, svo sem straumafar og landslag, getur gert óhjákvæmilegt og nauðsynlegt, að hægt sé að víkja út frá þessu, og þá sé skynsamlegt að hafa opnar leiðir til þess, að þetta megi gera og það sé undir eftirliti og með heimild þeirra manna, sem hafa aðstöðu til að kynna sér þetta á hverjum stað og eiga að sjá um, að lögin séu framkvæmd á þann réttasta og bezta hátt, en þó þannig, að þau nái sínum aðaltilgangi. Ég vonast því fastlega til, að hv. dm. geti fallizt 5, að þessar brtt. séu eftir atvikum réttlátar og skynsamlegar.

Þá kem ég að því, sem í raun og veru er aðalefni þessarar till og ég geri ráð fyrir, að orki frekast tvímælis og valdi ef til vill nokkurri mótspyrnu í d. Það er sú till., sem ég ber fram um það, að sama sé játið gilda um missi laxveiðahlunninda á einstökum jörðum af völdum þessara laga eins og yfirleitt gildir um missi selveiðanytja og laxveiðanytja í sjó.

Ef lögin valda því, að eign einstakra manna rýrnar, þá er viðurkennt í tveim tilfellum, að bætur skuli koma fyrir. Í 13. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að laxveiði, sem stunduð hefir verið í sjó og tekið hefir verið tillit til í fasteignamati, megi haldast áfram. Þar er því vikið frá þeirri aðalákvörðun laganna að banna laxveiði í sjó, til þess að eigandi þeirrar veiði skuli ekki verða fyrir tjóni. Og í 73. gr. frv. er svo ákveðið, að ef einhverjir missa selveiðinytjar vegna framkvæmda laganna, þá skuli það tjón að fullu bætt.

Nú er það kunnugt, að verðmæti margra jarða hér á landi hefir að meira eða minna leyti byggzt á laxveiðinytjum. Hér hafa gengið kaupum og sölu með sérstöku tilliti til þessa. Í fasteignamati er tekið fullt tillit til þessara gæða, og eigendur jarðanna hafa orðið að borga skyldur og skatta af þeim. Það hefir því verið viðurkennd stefna með þjóðinni, að fullt tillit bæri að taka til þessara hlunninda, og kaupendur að slíkum jörðum hafa orðið að gjalda fullt verð fyrir þau. Ég get því ekki séð, að ef það er nauðsynlegt, sanngjarnt og sjálfsagt að bæta fyrir missi þessara hlunninda á einum stað, þá eigi sú regla ekki líka að gilda alstaðar. Í brtt. minni er þó ekki farið lengra en það, að ef ráðstafanir þær, sem gerðar eru samkv. l. þessum, valda verulegu tjóni, þá sé skylt að bæta það tjón á sama hátt og missi selveiðinytja samkv. frv. En þessar bætur mundu þá fyrst koma til greina, þegar sannað væri, að veiðinot hefðu rýrnað vegna aðgerða laganna, og þá yrðu bætur borgaðar eftir mati. Er það ekki viðsjárverðara en um annað bæði í þessum lög um sem öðrum, sem ekki verður komizt hjá að leggja undir mat. Ég skal viðurkenna það, að ég er ekki sterkur í lögfræðinni. En ég sé ekki annað en að þær ráðstafanir, sem gerðar verða samkv. frv., ef mínar brtt. verða ekki samþ., komi í beinan bág við 63. gr. stjórnarskrárinnar. er kveður svo á, að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsheill krefji, enda svo fyrir mælt, að fullt verð komi fyrir. Í frv. þessu eru fyrirmæli, sem rýra munu laxveiðinot einstakra manna, og það bótalaust. Því má að vísu halda fram, og það með miklum rétti, að það sé gert vegna almenningsheilla. En þá skilst mér líka nauðsynlegt að samþ. brtt. mínar, sem koma í veg fyrir, að ákvæði frv. verði í ósamræmi við 63. gr. stjskr.

Ég hefi nú í viðtali, sem ég hefi átt við nokkra hv. þm. út af brtt. mínum og málinu í heild sinni, heyrt ýmsar mótbárur, sem ég býst við, að komi fram undir umr. Skal ég því minnast á þær helztu:

Fyrsta mótbáran er sú, að það sé stefnt að því með frv., að laxveiði aukist svo vegna aðgerða þess, að þótt veiðieigendur við ósana biðu nokkurn halla í bili, þá myndi laxveiði fljótt aukast svo, að þeir fengju hann síðar uppbættan með aukinni veiði. Það er nú rétt, að þetta er tilgangur frv. En þó svo sé, þá getur auðveldlega farið svo, að þessi veiðiaukning komi ekki fram, og sízt alstaðar. Og því síður má slá því föstu, að þessi veiðiaukning komi svo fljótt fram, að það valdi ekki einstökum mönnum, sem byggja afkomu sína nú á laxveiði, verulegu tjóni, því að hætt er við, að þess verði víða verulega langt að bíða, að laxganga aukist vegna aðgerða laganna.

Í öðru lagi er fyrir því gert ráð með bráðabirgðaákvæði frv., að skotið, sé á frest eftirliti með veiðinni og fjárveitingum til stuðnings fiskirækt í landinu. Að þessu leyti skortir því mikið á, að afgreiðsla þessa máls megi teljast viðunandi. Með þessum ákvæðum er kippt í burt þeim tveimur höfuðatriðum þessa máls, sem vera ættu samferða hinum öðrum ákvæðum frv. Það er því langt frá því, þótt frv. verði samþ., að máli þessu sé komið í æskilegt horf. Í þeim atriðum, sem lagt er til að frestað verði, felst einmitt laukrétt stefna. Ef þessum málum ætti að verða komið í æskilegt horf, þá þyrfti helzt hvert veiðihverfi að eiga ósajarðirnar, sem heyra ám þeirra til, og stunda þar veiði í félagi. Sá lax, sem þar veiðist fyrst á vorin, er beztur og verðmestur. Það er því hreinn hagur, að nokkuð sé veitt af honum þar, áður en hann kemst upp í bergvatnsárnar, sem eru margar svo litlar, að þar má gersópa laxinum í net og strádrepa hann fyrir hrygningartíma. Þeir, sem því leggja kapp á, að laxinum sé hleypt upp í árnar án eftirlits með veiðinni þar, vilja friða hann við ósana, þar sem hann er verðmætastur, en hugsa svo ekkert um, þótt hann sé strádrepinn uppi í hinum litlu bergvatnsám þetta kalla ég að hleypa laxinum úr öskunni í eldinn, því að eftir því sem fengurinn verður meiri, verður meira kapp lagt á að veiða og nær gengið stofninum en ella. Og með slíkum hætti verður ekki takmarki laganna náð.

Ef veiðin á að verða sem mest að gagni, þá verður það á þann hátt, að leyft sé að veiða við ósana, þar sem laxinn er verðmestur, með skynsamlegum takmörkunum. Það þarf að auka laxgengdina með klaki og góðu eftirliti. Hitt er ekki rétt aðferð, að vernda laxinn á þann hátt, að friða ósana til þess eins að laxinn komizt heim að bæjardyrum þeirra, sem búa við smáárnar, og sé drepinn þar. Í slíkum ám er honum miklu meiri hætta búin en við ósana.

En þótt sú brtt. mín, sem að þessu lýtur, verði samþ., þá get ég ekki verið samþykkur því ranglæti, að sumum verði bættur upp að fullu sá skaði, sem þeir verða fyrir vegna framkvæmda þessara laga, en að aðrir verði að þola sama tjón bótalaust. Mér finnst, að það væri minnkun fyrir Alþingi að samþ. slík ákvæði. Og ég tel, að brtt. mínar séu prófsteinninn á hv. deild, hvort hún vill ganga svo frá þessu máli.

Ég mun ekki vekja neitt málþóf um þetta frekar en um önnur mál. Ég býst heldur ekki við, að málið upplýsist mikið við langar umr. Heppilegast tel ég því, að umr. fari að styttast, en atkv. látin skera úr.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. fors. skrifl. brtt. við 1. málsgr. brtt. á þskj. 410.