16.04.1932
Neðri deild: 53. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

7. mál, lax- og silungsveiði

Magnús Guðmundsson:

Það er bezt að byrja með þeirri yfirlýsingu, að ég ætla ekki að stofna til neins málþófs, þó að ég kveðji mér hljóðs. Ég tek þetta fram til þess að róa hæstv. forseta og hv. d., svo að ekki verði farið að grípa til neins örþrifaráðs.

Ég ælaði að skýra frá skoðun minni á frv. við 2. umr., en hæstv. forseti sleit henni þá svo skjótt, að það fórst fyrir.

Ég ætla því að gera það nú, áður en málið fer út úr deildinni.

Ég hefði talið heppilegt, að héruðin hefðu fengið meiri sjálfsákvörðunarrétt um veiðina en er eftir frv. Aðstaðan er svo ólík í hinum ýmsu héruðum, að erfitt er að setja ákvæði, sem alstaðar eiga við. Þá þykir mér óviðfelldið, að inn í allt frv. eru spunnin ákvæði, sem snerta veiðimálastjóra, en svo er bráðabirgðaákvæði um að fresta því, að hann verði skipaður. Ef það er meiningin, að það embætti verði ekki sett á stofn á næstunni — og því er ég fylgjandi —, þá hefði ég kunnað miklu betur við, að frv. væri breytt í þessu efni og allt það numið burt úr því, sem við kemur honum og starfi hans. Nafnið, veiðimálastjóri, finnst mér líka hálfeinkennilegt. Hann virðist eiga eingöngu að hafa eftirlit með laxveiðinni, en ekki með öðrum veiðum, sem þó eru miklu verðmeiri þetta er þó aukaatriði, en nafnið bendir til, að hann eigi að hafa með höndum umsjón yfir allri veiði landsmanna, þótt aðeins sé um laxveiðitíma að ræða. En það, sem er aðalatriðið og ég óttast, að komi í ljós, ef frv þetta verður að l. og ósarnir verði friðaðir og laxinn gengur þess vegna meira upp í árnar, er það, að veiðin aukist að sönnu í smáánum, þar sem hægt er að ná hverri bröndu, en að það verði aðeins til bráðabirgða og að ósafriðunin verði því ekki til að auka laxgengdina upp í árnar, nema í svip. Nú er svo, að sá lax, sem kominn er upp í árnar og búinn að liggja þar eitthvað, er orðinn verðminni og óhæfur til útflutnings, vegna þess hve horaður hann er. Ef því friðunarákvæði frv. verða til þess eins að minnka ósaveiðina, sem er verðmætasta veiðin, en auka veiðina í uppánum án þess að heildarveiðin aukist, þá er enginn gróði að þeim friðunarákvæðum. Þvert á móti. Það er ekkert gagn í því, þótt laxinum sé leyft að ganga upp í árnar, ef hann er svo veiddur þar horaður áður en hann hrygnir.

Út af þeim brtt., sem fram eru komnar, vil ég taka fram, að mér skilst ekki, að neitt réttlæti sé í því, ef þeir, sem missa laxveiði í sjó og selveiði fá fullar bætur, en þeir, sem missa laxveiði við ósana, fá engar bætur. Mér skilst, að þetta sé réttlætiskrafa, að sama gangi yfir alla og ekki verði þannig gert upp á milli manna. Því er að vísu haldið fram, að slíkar bætur mundu víða geta komið til greina, og erfitt yrði að meta, á hve miklum rökum slíkar kröfur yrðu byggðar. Þetta er rétt. En það er oft erfitt og fyrirhafnarsamt að fullnægja réttlætinu og er þó gert það, sem hægt er til þess. En hér á ekki einu sinni að reyna að fullnægja því. Ég held þó, að ekki verði erfiðara að meta þetta en svo margt annað, sem þó verður ekki komizt hjá að meta. Þess ber þó að gæta, að sönnunarskyldan hvílir á þeim, sem fyrir tjóninu verða. Og ef þeir geta sýnt það og sannað, að þeir verði fyrir svo og svo miklu tjóni af völdum laganna, þá finnst mér það vera skylda hvers manns með óbrjálaðri réttlætistilfinningu að búa svo um, að þeirri kröfu verði sinnt á sanngjarnan hatt. Ég er því samþ. brtt. hv. þm. Dal. um þetta efni. Mér finnst ekki hægt að samþ. frv. svo, að ekki geti komið bætur til þeirra manna, er tapa mikilsverðum hlunnindum. Mín réttlætistilfinning segir, að það sé rangt. — ég skal svo ekki hafa mál mitt lengra. En það er spá mín, að ef frv. verður samþ. eins og það nú liggur fyrir, þá muni það valda mikilli óánægju víða um land og fljótlega koma fram áskoranir um, að l. verði breytt.