16.04.1932
Neðri deild: 53. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

7. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég hefi sem frsm. þessa frv. litið að segja. Ég vil þó geta þess, að nokkrar smávillur hafa slæðzt í frv. við prentun. Vona ég, að hæstv. forseti sjái fært að láta leiðrétta þær, þegar frv. verður prentuð upp. Þessar villur hefi ég orðið var við: Í 13. gr. er vitnað til 85. gr., en á að vera 84. gr. Í 34. gr. 2. málsgr. kemur fyrir orðið „fiskur“, en á að vera: lax. Þessi brtt. var samþ. hér í hv. d. við 2. umr., en hefir fallið úr við prentun. — N. kom ekki svo fljótt auga á þessar villur, að hún gæti komið fram með brtt. Vona ég því, að hæstv. forseti láti leiðrétta þetta.

Um brtt. þær, sem fram hafa komið, hefir n. óbundin atkvæði. Það, sem ég því segi um þær, verður frá mínu eigin sjónarmiði, en ekki n. sameiginlega.

Ég vil þá víkja að brtt. á þskj. 410. Hv. flm. hennar hefir nú flutt alllangt mál, bæði um hana og önnur einstök atriði frv. Var ekki laust við, að hann kæmist í nokkurn hita. Ég mun þó ekki bera við að heim glæðum né verða þess valdandi, að umr. lengist mjög, þótt ég hinsvegar vilji taka afstöðu til frv. í sambandi við þær brtt., er fram hafa komið.

Hv. þm. Dal. sá ýmsa agnúa á frv. og taldi brtt. sínar til þess gerðar að sverfa þá af. Ég er þó hræddur um, að þær verði ekki til þess, þótt þær verði samþ. Brtt. sanna það líka sjálfar, har sem sýnt er, að þær eru fljótfærnislega fram bornar. Fyrst kom hv. þm. Dal. fram með brtt. á þskj. 410, en hefir svo síðar orðið að koma með brtt. við hana á þskj. 437, og svo loks nú til frekari áréttingar skrifl. brtt. sem viðauka við till þetta sýnir, að hv. þm. hefir ekki hugsað málið mjög áður en hann bar till. sína fram. Brtt. hv. þm. Dal. á þskj. 410 er að vísu ein, en er þó í raun og veru í tveim liðum, annarsvegar 1. mgr., hinsvegar 2., 3. og 4. mgr., og má því fella annan liðinn, þótt hinn sé samþ.

Ég vil fyrst segja fáein orð um fyrri liðinn; með honum er veitt undanþága frá 3. mgr. 28. gr. og 2. mgr. 30. gr., og þar með undanþága frá öllum helztu ákvæðum frv. um það, hvernig megi setja veiðivélar í vötn, eða m. ö. o. undanþága frá því, sem er hyrningarsteinn frv. að því er snertir friðun laxins á göngu hans upp eftir ánum. Þessi ákvæði eru eitt af höfuðatriðum frv. Eins og brtt. hv. þm. Dal. liggur fyrir, eru í raun og veru engin takmörk sett um það, hvernig girðingum skuli fyrir komið; menn geta fengið undanþágu til að þvergirða ár. Er því samkv. brtt. hv. þm. Dal. um afturför að ræða frá ákvæðum laxalaganna frá 1886, því að samkv. þeim mátti þó aldrei leggja nema í miðja á. Nú hefir hv. þm. að vísu séð að sér og flutt skrifl. brtt. um, að þó megi ekki girða nema í miðja á, og þó aldrei nema í miðja straumlínu. Það er að vísu bot frá fyrri till. hans, svo að nú er hægt að fara að ræða um brtt. En það verð ég að segja, að ég get samt ekki greitt því atkv., að svo mjög verði leyft að rýmka til um þetta atriði. Hv. þm. taldi, að það mundi verða tryggast að miða við miðja straumlínu. En það mundi þó oft reynast allmikið álitamál, hvar væri mið straumlína. Það mundi verða sífellt deiluatriði og illt að beita við það nokkru eftirliti.

Hv. þm. taldi ekki rétt að setja svo einstrengingslega reglu, að ekki mættu net ná nema 1/3 út í á. En það er nú svo, að ef markið á að nást, að hindra rányrkjuna, þá verður að setja ströng ákvæði. Því verður ekki mótmælt, að veiði hefir stórkostlega rýrnað á síðari árum. Það hefir ekki stafað frá náttúrunni sjálfri — hún getur gefið eins mikið og áður —, heldur mönnunum. Laxalögin 1886 hafa ekki getað hindrað rányrkjuna. Þau leyfa að leggja net út í miðjar ár. Reynslan hefir sýnt, að það er ekki nóg. Nú viljum við reyna að hafa 2/3 anna frjálsa. frá þessu ákvæði vil ég engar undanþágur veita.

Hv. þm. Dal. flytur þessa brtt. á þeim grundvelli, að við frv. muni laxveiði gereyðileggjast á sumum jörðum. Ég hefi ekki þá trú. Hitt skal ég ganga inn á, að það muni rýra veiðina að nokkru, menn verði að breyta veiðiaðferðum, taka upp nýjar lagnir og breyta til á ýmsan hátt, sem veldur erfiðleikum og nokkrum kostnaði. En það mun verða erfitt að benda á dæmi þess, að veiði eyðileggist með öllu á jörð. Ég þykist þess fullviss, að slíkt eigi sér hvergi stað. Nú má benda á mjög margt í þessu sambandi. Hv. þm. sagði, að þjóðfélagið hefði viðurkennt þessi hlunnindi jarðanna og þau væru metin til fasteignaverðs og varin af ákvæðum stjórnarskrárinnar um eignarréttinn. Það er nú almennt orðin venja að vitna í stjskr., þegar takmarka skal á einn eða annan hátt rétt manna til þess að fara með náttúrunytjar eftir eigin höfði, an þess að taka tillit til, hvernig þeim er haldið við. En ég lít svo á, að það sé ekkert athugavert við það, þótt umráðaréttur einstaklinga sé takmarkaður, þegar það er gert til að vernda hlunnindin og sjá um, að þau komi að betri notum. Og því getur enginn neitað, að friðunarákvæði frv. þess, sem hér liggur fyrir, stuðla mjög að því að skapa skilyrði fyrir aukinni fiskirækt, og þar af leitandi möguleika til bættrar afkomu almennings síðar.

Síðari liðir brtt. fjalla um bætur fyrir rýrnun á laxveiði, er fara skal um á sama hátt og bætur fyrir selveiðamissi. En hér er um tvennt ólíkt að ræða. Bæturnar fyrir missi selveiðinytja eru byggðar á því, að þar eru eyðilagðar nytjar, sem ekki geta komið aftur í sömu mynd, en frv. er einmitt byggt á því, að friða laxinn fyrir sjálfum eigendum jarðanna, svo veiðin aukist frá því, sem nú er. Og nú vil ég spyrja þá hv. þm. Dal. og hv. samþm. minn, er hér var mest að minna á réttlætið í sambandi við þetta mál. Hvernig fer, ef svo verður áfram haldið, sem helzt lítur nú út fyrir, að veiðin gangi til þurrðar og ef til vill eyðileggist með öllu? Sumstaðar er lax alveg hættur að ganga í ár, þar sem mikil veiði var áður. Annarsstaðar hefir veiðin rýrnað stórlega. Og ef svo verður haldið áfram og veiðin eyðilögð í fleiri og fleiri ám, hvers virði verður veiðirétturinn þá? Ég held, að það sé einmitt ein æðsta skylda löggjafans að grípa fram fyrir hendur borgaranna, þegar þeir geta ekki séð sér farborða sjálfir. Það liggur í hlutarins eðli, að þótt einhver vildi friða fyrir sínu landi, þá kemur það að engu gagni, nema félagsskapur sé með öllum eigendum veiðivatnsins. Að því þarf löggjöfin að styðja. Ég fyrir mitt leyti er því ekki eins næmur á þessar réttlætiskröfur og hræddur við skerðing á eignarrétti, þótt nokkuð sé takmarkaður umráðaréttur manna á vissum verðmætum, þegar almannaheill krefst þess, eins og þessir tveir hv. þm. Mér virðist það nóg vernd og nægar bætur, að verði lögin framkvæmd eins og til er ætlazt, þá eykst laxgengdin, og þess hagnaðar njóta þeir. Hv. 2. þm. Skagf. kom inn á það, að það myndi nokkuð erfitt í framkvæmdinni að meta þessar bætur, en þó taldi hann erfiðleikana ekki svo mikla, að þeirra vegna gæti hann fallið frá þessari kröfu. En ég hygg, að það yrði ókleift. Það má ganga út frá því, að kröfur kæmu frá fjölmörgum veiðieigendum, ekki aðeins þeim, er við ósana búa, heldur einnig öðrum. Það má yfirleitt búast við, að um svo að segja hverja einustu jörð væri hægt að segja með nokkrum rökum, að veiðirýrnun hefði átt sér stað vegna friðunarákvæða laganna, og þá fyrst og fremst af því, að veiðitími er mjög styttur frá því, sem áður var. Hvernig getur nokkrum dottið í hug, að farið verði að greiða bætur fyrir slíkt. Enda hníga engin rök að því, þar sem hér er um friðun að ræða, sem síðar kemur eigendum sjálfum fyrst og fremst til góða. Ég þykist þess fullviss, að ef opnuð væri leið til þess í lögunum, mundu svo almennar kröfur koma um skaðabætur fyrir missi veiðinytja, að hið mesta öngþveiti yrði úr og engin leið að ná neinu samræmi.

Hv. þm. Dal. talaði um það, að í raun og veru væri verið að vísa laxinum úr öskunni í eldinn, með því að fríða hann við ósana, til þess að hann verði veiddur upp til fjalla. Þessu er því til að svara, að laxinn verður að komast upp í bergvatnsárnar til að hrygna. Hann hrygnir ekki í jökulvatni. Í þessu sambandi vil ég minna á, að í frv. eru ströng ákvæði til að takmarka ádrátt, sem er einmitt hættulegasta veiðiaðferðin. Það er bannað að draga á nema 4 daga í viku, og hv. þm. Mýr. hefir flutt brtt. um að færa það niður í 3 daga, og mun ég fyrir mitt leyti greiða þeirri till. atkv. Auk þessu eru bergvatnsárnar oft leigðar til stangarveiða, og er það mesta tryggingin fyrir því, að laxinn fái að hrygna í næði.

Hv. þm. Dal. hefir flutt þetta mál eins og með frv. sé einungis verið að ganga á rétt ósabænda, en ekki verið að friða fiskistofninn. Hann talaði um, að það væri minnkun fyrir Alþingi að ganga svo frá frv. Ég get ekki fallizt á þetta. Mér þykir það ekki minnkun fyrir þingið, þótt það reyni að friða þann fiskistofn, sem eftir er í ánum, svo að hann eyðist ekki með öllu, og enn hafa engin rök verið færð fyrir því, að veiðirýrnun verði svo mikil á einstökum jörðum, að ástæða sé til að ákveða bætur fyrir. Ástæða mín fyrir því að neita bótum byggist á því, að frv. er fyrst og fremst ætlað að vernda veiðina, og þótt hún rýrni í svip, þá réttlætist það af því, að hún verður meiri og tryggari þegar fram líða stundir. Löggjöfin hefir margoft áður farið svipað að, t. d. þegar rjúpurnar voru friðaðar. Þá mun engum hafa dottið í hug að heimta bætur til þeirra jarða, er rjúpnaveiðar voru sérstaklega stundaðar á. Mörg fleiri dæmi mætti nefna, er sýna það, að oft er gripið til svipaðra ráðstafana án bóta.

Að síðustu skal ég nefna þau ummæli hv. þm., þar sem hann minntist á, að sér virtist illa frá málinu gengið, einkum með tilliti til þess, að fresta má um sinn 11. og 12. kafla frv. um eftirlit og stjórn veiðimála og styrk til fiskiræktar. Eins og hv. þm. veit, þá lagði n. þetta til eingöngu vegna yfirstandandi örðugleika ríkissjóðs. En ég vil benda á, að það er ekki rétt, að allt eftirlit og stjórn þessara mála falli niður. Samkv. bráðabirgðaákvæðum frv. er ætlazt til þess, að sá maður, er haft hefir eftirlit með laxa- og silungaklaki hjá Búnaðarfélaginu undanfarið, gegni þessum störfum, sem veiðimálastjóra er ætlað að vinna. Þá er og ætlazt til, að hreppstjórar fyrst um sinn annist störf eftirlitsmanna við fiskivötn. það er því alls ekki rétt, að öllu eftirliti skuli frestað í bráð; því er aðeins komið fyrir á ódýrari hátt en ætlazt er til með frv., en það skal játað, ekki eins öruggu og æskilegt væri.

Hv. samþm. mínum, 2. þm. Skagf., hefi ég að nokkru svarað um leið og hv. þm. Dal. Hann minntist á það, að það væri að sínu áliti betra að veita héruðunum meiri sjálfsákvörðunarrétt um þessi mál en frv. fer fram á þetta getur haft nokkuð til síns máls, en hættan er þó sú, að ekkert verði úr framkvæmdum þetta eiga að vera heildarlög, og meiningin er, að fiskiræktarfélög taki friðunarstarfið að sér innan þess ramma, sem lögin ákveða. Ég get ekki fallizt á að leggja þetta á vald héraðanna; ég óttast, að víða mundi ekkert verða aðhafzt og friðun fara meir í handaskolum en annars. Enda eru ýms ákvæði frv. svo rúm, að héruðin geta nokkuð hreyft til veiðitíma o. fl. eftir því, sem ástæður heimta á hverjum stað. En að áliti fróðra manna er lax nú svo mjög eyddur, að víða er erfitt að fá nóg til stofnræktar þetta er að vísu nokkuð misjafnt eftir héruðum, en víða er hann alveg upprættur.

Ég ætla ekki að lengja umr. þessar úr hófi fram, en þetta verð ég þó að taka fram, einkum vegna ummæla hv. þm. Dal.

Um brtt. hv. þm. Mýr. skal ég taka það fram, að ég mun greiða atkv. með þeirri fyrri, um að banna ádrátt nema 3 daga í viku, í stað 4 daga, eins og nú er í frv. Um síðari till. hans skal ég taka það fram, að ég álít réttara að samþ. hana en 1. liðinn í till hv. þm. Dal., en lít þó svo á, að ekki sé ástæða til að samþ. hana heldur.