16.04.1932
Neðri deild: 53. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

7. mál, lax- og silungsveiði

Sveinn Ólafsson:

Það er ekki undarlegt, þótt ágreiningur hafi risið út af þessu frv. Að vísu er frv. að stofni til þarft og gott að því leyti, sem það lýtur að almennum ákvæðum um veiði í vötnum. En upp í frv. hefir verið tekið margt, sem ætti eftir eðli málsins og landsháttum að falla undir samþykktarvald sýslunefnda eða sveitarfélaga. Í frv. er ekki tekið tillit til breytilegra ástæðna í ýmsum landshlutum, og það er fyrirsjáanlegt, ef þetta verður að lögum, að þá hlýtur að risa upp megn óánægja yfir nærgöngulum og óþörfum ákvæðum laganna víðsvegar um landið, af því að landeigendur og búendur á vissum svæðum verða sviptir veiðirétti, sem um aldir hefir óvéfengdur verið og öllum meinalaus. Það tvennt þarf glögglega að aðgreina, ef vel á að fara, sem heima á í almennum lögum, og hitt, sem eftir staðháttum og venjum fellur eðlilega undir samþykktarvald héraðanna.

Ég ætla ekki að tefja tímann með því að vitna í einstakar gr. frv. eða taka upp það, sem áður hefir verið sagt, en ég get undirskrifað allt það, sem þeir hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. Skagf. hafa sagt um þetta mál. Ég er sammála þeim um, að hér hafi höfundum mistekizt átakanlega, þegar frv. var búinn sá búningur, sem það nú hefir fengið. Það virðist ekki skipta miklu máli í augum þeirra manna, sem samið hafa og flutt þetta frv., þó að það kunni að snerta illa fáeina búendur, en reynslan mun síðar sýna stór galla á frv. þessu, ef lögfest verður. Mér er þetta vel ljóst og skal t. d. geta þess, að á nokkrum stöðum í nágrenni mínu hagar svo til, að samkv. ákvæðum frv. yrði aldagamall veiðiréttur alveg tekinn af búendum og landeigendum, og það réttur, sem aldrei hefir verið véfengdur eða nokkrum manni er hagur að fella. Í þessu máli verður því að leita álits og samþykkis héraða og hlutaðeigenda. Staðhættirnir eru svo breytilegir, að ekki er fært að setja heildarlög um þessi atriði, nema með þeim hætti að ætla héruðum og einstaklingum svigrúm til samþykkta um skaðlega tilhögun. Ég vil því leyfa mér að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Þar sem á frv. þessu eru ennþá allmikil missmíði, einkum að því er snertir ákvæði vegna breytilegra staðhátta frá einu héraði til annars, og með því að ætla verður, að ríkisstjórnin leggi frv. fyrir næsta þing í haldkvæmara búningi, telur deildin ekki ástæðu til að ræða frv. frekar af þessu sinni og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.