08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. fyrri kafla (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. þdm., sem brtt. flytja við þennan hluta fjárlagafrv., hafa nú talað fyrir þeim. Fjvn. hefir ekki haft tækifæri til að taka afstöðu til hverrar einstakrar brtt. á þskj. 334. Það, sem ég segi um þær, get ég því ekki sagt fyrir hönd n., og verður að skrifa það á minn eigin reikning.

Ég skal fyrst víkja nokkrum orðum að þeim till., sem mestu máli skipta, en það eru brtt. um framlög til ýmissa sérstakra vega. Mér kom það ekki á óvart, þótt menn litu á það öðrum augum en vegamálastjóri og n., hvar helzt á að láta vinna fyrir það fé, sem til vegagerða er ætlað á næsta ári. Þar kemur svo margt til greina, og þá ekki sízt sérhagsmunir héraðanna. En vitanlega verður n. að líta á þetta mál með heildarhagsmunina fyrir augum. N. hafði líka óhagstæða aðstöðu að því leyti, að ekki lá fyrir henni erindi um framlag til neins af þessum vegum, sem um ræðir í brtt. einstakra þm. þessir þm., sem till. flytja, hafa heldur ekki fundið n. að máli né mælzt til þess, að hún tæki þessa vegi upp í till. sínar. Og mér finnst það til of mikils mælzt af hv. þn., að ætlast til, að n. tæki þessa vegi upp í till. sínar á móti till. vegamálastjóra, án þess að fyrir lægju neinar upplýsingar um nauðsyn þeirra.

Sumir hv. þm., sem brtt. flytja, ætlast þó að vísu til þess, að fylgt sé að nokkru leyti till. n., nefnilega að því, er snertir þær heildarupphæðir, sem gert er ráð fyrir að verja til vegagerða. Hinsvegar leggja þeir til, að færðar séu til upphæðir, þannig, að tekið sé fé af einum vegi til að leggja í annan. Í þessu efni hafa þeir fundið einn verulegan tekjustofn, og það er Holtavörðuheiðarvegurinn. Hv. 1. þm. N.-M. ætlar að taka þaðan 20 þús. kr. og leggja þær í ýmsa vegi í sínu kjördæmi. Hv. 1. þm. S.-N. ætlar líka að taka þar 20 þús. kr. og verja þeim að nokkru leyti til vega í Suður-Múlasýslu, en að nokkru leyti ráðstafar hann heim ekki. Og svo ætla loks hv. þm. Rang. að taka þarna 10 þús. kr. til Fjallbaksvegar í Landsveit. Það var bara hundaheppni, að það skyldi hrökkva til alls þessa, það sem eftir till. n. átti að verja til Holtavörðuheiðarvegar. Ég hefði eftir þetta ekki látið mér bilt við verða, þótt hv. jafnaðarmenn hefðu í brtt. sinni við 16. gr. lagt til, að upphæðin, sem þeir vilja fá til atvinnubóta, væri einnig tekin af tillaginu til Holtavörðuheiðarvegar. Þar er auðvitað ekki nema um eina milljón að ræða.

Hv. þm., sem brtt. flytja, halda því fram, að svo miklu hafi verið varið til Holtavörðuheiðarvegar undanfarið, að vel sé fært að klípa af fjárveitingunni til hans nú. Ef gert er ráð fyrir, að þessir hv. þm. hafi ekki vitað um till. hvors annars, virðast þeir ætlast til, að 30 þús. kr. verði veittar til þessa vegar, því að enginn þeirra gengur lengra en það að taka 20 þús. kr. af þeim 50 þús. kr., sem n. ætlaði honum. þótt það væri samþ., mundu þessar 20 þús. kr. hrökkva skammt til 20 þús. kr. vegar í Norður-Mýlasýslu, 20 þús. kr. vegar í Suður-Múlasýslu og 10 þús. kr. vegar í Rangarvallasýslu. Það verður því, ef taka á brtt. hv. þm. til greina, annaðhvort að leggja allar upphæðirnar saman og fella alveg niður framlagið til Holtavörðuheiðarvegarins, eða þá að hækka heildarupphæð þá, sem ætluð er til vegagerða.

Um Holtavörðuheiðina er það að segja, að nýi vegurinn er nú að sunnan frá kominn upp undir heiðina, en langversti kaflinn á leiðinni yfir heiðina er á henni sunnanverðri. Á þessa árs fjárlögum eru ætlaðar 30 þús. kr. til þessa vegar, og fyrir þær byst vegamálastjóri við, að hægt sé að leggja 21/2 km. Ef veittar eru 50 þús. kr. á næsta árs fjárlögum, býst hann við, að vegurinn komist niður fyrir Holtastein, en þangað þarf hann að komast, ef hann á að koma að notum, því þar kemur hann fyrst í samband við gamla veginn. Verði ekki lagt fram svo mikið, kemur það, sem búið er að leggja fram, engum að notum. Þetta byst ég ekki við, að hv. þdm. hafi gert sér grein fyrir, þegar þeir gerðu till. um að lækka framlagið til Holtavörðuheiðarvegar. Það verður að játa, að þessi fjárveiting er hlutfallslega nokkuð há, samanborið við það, sem lagt er til vega annarsstaðar eftir till. n., en þar sem um er að ræða að gera nothæfan talsvert dýran vegarkafla á þeim hluta leiðarinnar milli Suðurlands og Norðurlands, sem og reiðastur er yfirferðar, sýnist ekki mega skera framlagið um of við neglur sér.

Ég skal fúslega viðurkenna, að fyrir hérað eins og Húnavatnssýslu er þessi vegur ekki bráðaðkallandi. Þeirra hluta vegna þarf ég því ekki að mæla með honum. En á síðasta þingi voru 30 pus. kr. veittar til þessa vegar. Þær koma ekki að neinu haldi, nema haldið sá áfram. Sporið var stigið á síðasta þingi, og það verður ekki aftur snúið. hér er farið fram á hið minnsta, sem hægt er að komast af með til að koma nýja veginum í samband við hann gamla. Þegar það er gert, þá væri forsvaranlegt að láta frekari að gerðir bíða; ef þörf er á í 1–2 ár. þeim, sem farið hafa norðurleiðina, kemur nokkurnveginn saman um, að næstversti kafli þeirrar leiðar sé í Húnavatnssýslunni, í út-Víðidalnum. Það væri því freistandi fyrir mig að slást í hópinn og klípa eitthvað af Holtavörðuheiði í þennan veg. Í allsherjaráætlunum landsverkfræðings frá 1907 og vegamálastjóra 1924 er það tekið fram, að þennan kafla sé nauðsynlegt að leggja á allra næstu árum. En hann er ókominn enn. Ég hefi áður kvartað yfir þessu, en samt fer ég ekki í fótspor þessara hv. þm., að mjólka Holtavörðuheiði til hagsbóta fyrir mitt kjördæmi.

Hv. þm. Skagf. hafa farið að kroppa í Vatnsskarðsveg, taka af honum 5000 kr. og leggja í Hofsósveg. Ég skal ekki mæla á móti þörfinni á þessum vegi. En á það er að líta, að vegurinn yfir Vatnsskarð komi að notum og nái á gamla veginn, en til þess að svo verði, verður að leggja 7 km., sem áætlað er að kosti 75 þús. kr. Það er því nauðsyn, að haldið verði vel áfram, eftir að byrjað er, svo að það, sem lagt er, verði ekki lengi ónothæft. Að vísu er að því leyti öðruvísi ásatt með þetta en Holtavörðuheiði, að enn er ekki byrjað á vegarlagningunni. En árlega er varið stórfé í viðhald gamla vegarins, og hafa farið í það undanfarin ár um 4000 kr. á ári. Viðhaldið í þrjú ár nemur því upp undir það eins miklu og þessi spotti kostar. Það eru því beinir hagsmunir ríkisins að koma þessum vegi afram. — ég álít nú samt, að þeir hv. þm. Skagf. hafi að því leyti betri málstað en þeir, sem eru að höggva í Holtavörðuheiði, að þarna er þó ekki búð að leggja í neitt, og því ekkert, sem liggur rentulaust, þótt fjárveitingin falli niður. Það hefði því mátt búast við, að einhverjir fleiri hefðu beint skeytum sínum í þessa átt, en það hrekkur náttúrlega ekki eins langt og Holtavörðuheiði, jafnvel þótt upphæðin sé tekin öll.

Það hefir ekki komið neitt fram hjá heim. er talað hafa fyrir brtt. sínum, er sýni það, að þessir umræddu vegir séu nauðsynlegri en þeir, sem n. leggur til að lagðir verði. Hitt vita allir, að þörfin á vegum er mikil. Hv. 1. þm. S.-M. talaði um það, að það væri enn flutt á klökkum í sínu héraði. Ég býst við, að svo sé víðar, og þetta sannar ekki, að nauðsyn nýrra vega sé ríkari þar en annarsstaðar. En það mun vera erfitt að fullyrða hað, að n. hafi farið rangt að og lagt til, að veitt sé fé til vega, sem minni þörf er á en þeim, sem verða að bíða. Við hofum haft álit vegamálastjóra við að styðjast, og þótt hv. 1. þm. Árn. hafi kastað hnútum til okkar fyrir að hafa farið að tillögum hans, þá er þó þar með ekki sannað, að þær hafi verið óréttmætar.

Ég ætla nú samt ekki, þar sem n. hefir ekki haft tækifæri til að taka afstöðu til þessara brtt., að slást harðvítuglega móti þeim.

Út af því, sem rætt hefir verið um brtt. n. um borðfé konungs, vil ég taka það fram, að í fyrri ræðu minni var ég að skýra frá því, hvernig sú greiðsla hefði verið framkvæmd undanfarið. Upphæðin var færð í ísl. kr. á landsreikningi eins og í fjárlögum, en gengismunurinn settur á gengisreikning, og kom því á óviss útgjöld á landsreikningi. Ég hygg, að þetta sé mörgum þm. kunnugt. Það hefir aldrei komið fram aths. um þetta, og aldrei hefir verið leitað aukafjárveitingar sérstaklega. Úr því þetta hefir verið svona framkvæmt, þá lít ég svo á, að ekki komi til mála að hætta að greiða gengismuninn. Það kemur ekki af neinni sérstakri konungshollustu, en ég skoða þetta vera fyrir löngu viðurkennt af Alþingi, hvort sem það var réttmætt eða ekki. Þingið hefir samþykkt þetta óbeinlínis. Þessi greiðsla hefir áður verið margfalt hærri en hún er nú áætluð; árið I924 nærri jafnhá hinu lögboðna borðfé. Það var ekki síður ástæða til að finna að því þá. Ég tel ekki hjá því verða komizt að greiða þetta, enda hefir hæstv. fjmrh. lýst yfir því, að hvað sem þessari till. liði, þá yrði þessi upphæð greidd sem mismunur á gengisreikningi. Ég er á m6ti þessari greiðslu, en ég álít hana þess eðlis, að ekki verði hjá því komizt að greiða hana eftir fyrri framkvæmdum þings og stj. (EA: Ef ísl. krónan kemst niður í 10 aura, þá verður þetta lagleg súpa!) Þetta var lagleg súpa 1924. En það eru fleiri upphæðir en þessi, sem eins er farið um. Sendiherra er þannig líka greitt í d. kr.

Um þessar smábrtt., sem eftir eru, hefi ég lítið að segja. Þar er ein um styrk til Lúðvíks læknis Nordals á Eyrarbakka. Nú situr héraðslæknir á Eyrarbakka, og ég hefi ekki heyrt þau rök, er hafa sannfært mig um nauðsyn þess, að hafa tvo lækna þar. Um II. brtt. á þskj. 334 hefi ég fyrir mitt leyti lítið að segja. Mér skildist í fyrra, að sú fjárveiting, er þá var veitt, ætti að nægja, en ég hefi ekki skap í mér til að mæla gegn till.

Hv. þm. Seyðf. var með ýmsar áætlanir um kostnað við vegagerð yfir Fjarðarheiði. Það má vera, að þær áætlanir séu réttar, en þær eru á talsvert annan hátt en áætlanir vegamálastjóra. Hann álítur kostnaðinn um 360 þús. kr. Hv. þm. Seyðf. telur hann 200 þús. kr., og ódýrari leiðina 60 þús. kr., en hana telur vegamálastjóri 100 þús. kr. Auk þess, sem vegur þessi þarf sjálfsagt mikið viðhald, þá verður hann varla fær nema sumarmánuðina, júlí-okt., og þá raunar ekki færari en svo, að þurfa mun að moka snjó úr talsvert mörgum giljum. Hv. þm. geta því séð, að þetta er ekkert glæsilegt fyrirtæki.

Ég er ekki nægilega kunnugur Fjallbaksvegi í Landsveit, til þess að ég geti um hann rætt núna. Ég hefi beðið vegamálastjóra um upplýsingar, en ekki fengið þær enn. En hitt er víst, að vegamálastjóri telur vegagerð þarna ekki eins aðkallandi sem víða annarsstaðar.

Það er auðvitað ávallt álitamál, hvaða vegi eigi að leggja og hvaða vegi að láta bíða. Ég veit, að hv. flm. þessara brtt. er yfirleitt vorkunn, því alstaðar er þörfin mikil á auknum vegum og bættum samgöngum. Og um allar þessar brtt. má segja það, að um leið og þær fara fram á umbætur á vegakerfinu, þá fara þær líka fram á aukna atvinnu, og það er gott að henni sé dreift sem víðast yfir. En á það má þá líka benda, að heildarkostnaður við slíkar vegalagningar verður tiltölulega meiri, sé fénu dreift mjög mikið.