11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

7. mál, lax- og silungsveiði

Jón Baldvinsson:

Þetta laxamál er gamall kunningi, og hefir gengið seint að koma fram löggjöf um það. Fyrir nokkrum þingum hafa legið breytingar í þá átt, að takmarka ósaveiði og gera göngur laxins upp eftir ánum auðveldari. Hér í þessum umr. hafa ekki komið fram nein rök með ósaveiði fyrr en hjá hv. 4. landsk. En það eru þau rök, að nýrunninn lax, sem veiddur er við ósana, sé verðmætari en annar lax, sem er orðinn lítilsháttar leginn. Ég hefi verið að bíða eftir þessu frá þeim, sem hafa hagsmuna að gæta við ósa, því að þetta eru hin einu rök, sem hægt er að færa ósaveiðinni til stuðnings. En þar kemur aftur á móti, að með ósaveiðinni eru þeir, sem ofar búa við árnar, sviptir veiði. Mér virðist eins og hv. 2. þm. Árn., að í framtíðinni verði að vera samvinna um að nytja árnar. Nú er laxveiðin að mestu ránveiði, fyrst hjá ósabændum, er flestir reyna að taka hvern fisk, er í á gengur að vori, og síðan á haustin eru hrygningarhyljir þurrkaðir af laxi hjá þeim, sem efst búa við árnar. Hv. 4. landsk. hefir látið í ljós við mig, að réttast myndi vera að flokka árnar og banna alla veiði nema stangarveiði í nokkrum hluta þeirra. Ég er honum sammála um það, að beztu nytjar, sem bændur geta haft af smáánum, eru að leigja þær út til stangarveiði, en friða þær alveg að öðru leyti. En nú er það svo, að þótt einhver hluti ánna sé leigður til stangarveiði, vilja bændur líka veiða stofninn með ádrætti. Ég þekki á hér í nágrenninu, þar sem var góð veiði fyrir 18 árum, en nú veiðast þar í mesta lagi 10–12 laxar á ári, og stundum ekki nema einn eða tveir. 12 bændur eiga land að ánni og höfðu þeir áður um 100–200 kr. tekjur af ánni á ári, en nú sjá þeir enga krónu fyrir lax, af því að ósabændur gátu leyft ádrátt í ósnum. Sá lax, er þar hefir veiðzt, hefir að vísu verið verðmætur, en hvað sem því líður, varð niðurstaðan sú, að stofninn var upprættur og nú sest þar enginn lax framar. Þetta er afleiðingin af því, að ósaveiði var ekki bönnuð.

Mitt álit er, að þetta frv. gangi heldur skammt um friðun, en þó er margt í því til bóta, einkum ef veiðimálastjóra væri falið að skrásetja árnar, svo að fullkomnari löggjöf gæti orðið sett síðar.

það er fullkomlega eðlilegt, að ekki hafi gengið vel að koma löggjöf fram um þessi efni hér á þingi. Í slíkum málum verður jafnan hagsmunaárekstur. þeir, sem neðar búa við árnar, veiða oft mikið og hafa af því talsverðar tekjur, og þeir, sem ofar búa, sjá ofsjónum yfir því. Þetta bendir til þess, að koma þurfi á samvinnu allra veiðieigenda og friða ósana a. m. k. í smáánum. Þetta frv. er spor í áttina til þessa framtíðarskipulags, og mun ég því greiða því atkv.

Hér hefir verið deilt um 3. gr., enda er hún vafasöm og mun ég því ekki treystast til að greiða atkv. um hana. (JakM: Svo að hún geti þó gengið fram). Ég held, að eins og nú stendur þurfi leyfi ráðh. til að selja veiðirétt frá landareign, svo að þetta er takmörkunum bundið. Hinsvegar er vist, að þar sem fáir menn eiga veiðirétt og árnar eru friðaðar fyrir öðru en stangarveiði, eru árnar fullar af laxi, og er auðvitað ekki annað en gott um það að segja.

Í trausti þess, að upp úr þessu frv. komi ný löggjöf, sem tryggir veiðieigendum meiri arð í skjóli samvinnu þeirrar, sem þetta frv. er grundvöllur að, mun ég greiða frv. atkv. mitt.