08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

1. mál, fjárlög 1933

Pétur Ottesen:

Af ummælum hv. frsm., er hann talaði um lækkun á borðfé konungs, mátti skilja, að þetta væri í fyrsta sinni, sem það kæmi til tals að færa þessa greiðslu niður. Áður en sambandslögin voru samþykkt, hafði stj. tekið upp í fjárl. 50 þús. kr. til konungs, en á sama þingi var borið fram frv. til 1. um greiðslu á borðfé konungs, og var þá upphæðin hækkuð upp í 60 þús. kr., og náði frv. samþykki þingsins. Mætti þessi hækkun talsverðri mótspyrnu, og hafa á síðari þingum komið fram till. um að lækka þetta, að greiða ekki gengismun, heldur greiða allt í íslenzkum krónum, eins og borgurum landsins eru greidd laun þeirra. Er það því ekkert nýtt, þótt till. komi fram um að færa þetta niður.

Það, sem sérstaklega kom mér til að taka hér til máls nú aftur, var það, að hv. frsm. gerði ráð fyrir því, að enda þótt þetta yrði samþ. hér á þingi, myndi hæstv. stj. samt hafa það að engu. Vil ég enn mótmæla því, að henni sé þannig gefið undir fótinn um það, að hún anætti ganga í berhögg við samþykktir Alþingis, ef henni sýndist svo. Finnst mér þingið hafa fulla ástæðu til að halda fast í vald sitt, meir en það hefir gert undanfarið, heldur en að vera að gefa stj. undir fótinn með að virða að vettugi samþykktir þess og lög. Vildi ég mótmæla þessu kröftuglega, því að það er síður en svo, að hv. frsm. hafi nokkra heimild til þess frá fjvn. að mæla svo, hvorki um þetta atriði né önnur fjárlagaatriði, heldur var það þvert á móti brýnt fyrir frsm. í n. að halda því fast að stj., að hún færi hvergi út fyrir ákvæði fjárlaganna, nema í þeim tilfellum, að áætlanir í lögbundnar greiðslur reyndust of lágar.