19.05.1932
Efri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

7. mál, lax- og silungsveiði

Pétur Magnússon:

Ég gat þess við 2. umr. þessa máls, að ef sú rökst. dagskrá, sem ég bar þá fram, væri felld, þá myndi ég við 3. umr. bera fram brtt. við frv. Þessar brtt. eru nú fram komnar á þskj. 735.

Ég skal nú þegar geta þess, til að fyrirbyggja misskilning, að jafnvel þótt allar þessar brtt. verði samþ., þá álít ég þetta frv. samt ekki komið í það form, sem við megi una til frambúðar. Ég hefi þó flutt þessar till., af því að þær bæta allar að nokkru úr ágöllum, sem ég tel vera á frv. Hinsvegar hefi ég ekki treyst mér til að bera fram till., er bæti úr þeim ágöllum, er ég tel stærsta á frv., sem sé um sjálfa tilhögun laxveiðinnar, því að til þess þarf miklu meiri undirbúning en unnt er að framkvæma á stuttum tíma. Ég hefi í raun og veru gert grein fyrir þessum brtt. við 2. umr., þó að hér liggi ekki fyrir fyrr en nú, og skal ég því ekki vera margorður um þær að þessu sinni.

Fyrsta brtt. er við 2. gr. 3. málsl. Eins og þetta ákvæði er nú í frv., er skilyrðislaust óheimilt að taka veiði undan ábúð. Ég er þeirrar skoðunar, að rétt hefði verið að fella þetta ákvæði alveg niður. Ég hefi ekki getað komið auga á neitt því til réttlætingar að taka þannig samningafrelsið af mönnum um þetta atriði, sem er vitanlega ekkert nema fjárhagsatriði.

Því hefir verið slegið fram, að betur sé farið með veiðina, ef hún fylgir ábúð heldur en ef eigandi hefir hana sjálfur til umráða. Í mínum augum er þetta fáránlegasti misskilningur. Ef þetta væri rétt, þá væri mannlegt eðli öðruvísi í þessu efni heldur en það er almennt talið að vera, því að það er venjulega talið svo, að eigandinn sé líklegri til að fara vel með hlutina heldur en sá, sem hefir þá til láns. Sá, sem fær veiði á leigu, oft til mjög skamms tíma, hugsar auðvitað mest um að hafa sem mest upp úr veiðinni þann tíma, sem hann hefir umrað yfir henni. Veiðieigandinn aftur á móti ætti að hugsa mest um vöxt og viðgang fiskistofnsins, af því að hann nýtur þess, ef veiðin eykst.

Auk þess verður að gæta þess, að tíðasta orsökin til þess, að veiði er tekin undan ábúð, er sú, að veiðieigandinn vill nota veiðina sem stangarveiði, annaðhvort handa sjálfum sér eða öðrum. Og um það verður varla deilt, að í fjöldamörgum laxveiðiám er stangarveiðin sú eina skynsamlega veiðiaðferð, og jafnframt sú, er mestar líkur gefur fyrir arði af ánum. En það er engin trygging fyrir því, að leiguliði noti ána fyrir stangarveiði, þó að sú veiðiaðferð væri skynsamlegust og eigandi vildi sjálfur nota ána á þann veg. Þvert á móti er mjög mikil hætta a, að margir leiguliðar hugsuðu um það eitt, að ná sem mestum laxi alveg án tillits til framtíðar verðmætis árinnar.

Af þessum ástæðum hefði ég helzt kosið, að þetta ákvæði í 3. málsgr. felli alveg niður. Ég hefi þó ekki séð mér fært að bera fram till. um það, af því að ég þykist skilja af undirtektum hv. þd. undir þetta mál, að vonlaust sé, að slík brtt. yrði samþ. Ég hefi því látið mér nægja að bera fram brtt. um undanþágu frá þessu ákvæði þannig, að veiðiréttur skuli fylgja jörðinni, nema öðruvísi semjist. Ég álit það alveg fráleitt, að veiðin skuli fortakslaust fylgja jörðinni, jafnvel þótt bæði eigandi og ábúandi vilji heldur, að hún sé tekin undan. Það getur vel staðið svo á, að ábúandi telji sér hagnað í því að vera laus við veiðina, og virðist þá bein fjarstæða að neyða hann til að taka hana, þó landeigandi einnig vilji skilja hana frá ábúðinni.

Nú liggja fyrir tvær brtt. við þessa till. mína. Önnur er frá hv. 3. landsk., að aftan við till. bætist: „og veiðimálastjóri samþykkir“. Hin brtt. er frá hv. 2. þm. Árn., að aftan við brtt. mína bætist: „og atvinnumálaráðherra samþykkir“. Ég verð að segja það, að ég sé ekki mikla ástæðu til, að slíkt samþykki þurfi hér að koma til. ef báðir málsaðiljar eru sammála um, að veiðin skuli undanþegin ábúðinni. Þó skal ég játa það, að jafnvel þótt þessi viðbót væri samþ., þá teldi ég þó nokkuð á unnið. Ef önnurhvor af þessum tveimur till. á að ná fram að ganga, þá vil ég fremur mæla með till. hv. 2. þm. Árn. Ég álit eðlilegra að leggja þetta undir æðstu yfirstjórn veiðimálanna heldur en undir það stjórnarvald, sem í raun og veru hefir ekki nema ráðgefandi vald um veiðimál. Ég hygg líka, að ráðh. mundi bera slík mál undir veiðimálastjóra, svo að mér virðist, að þótt brtt. hv. 2. þm. Árn. yrði samþ. þá vinnist þar með líka það, sem hv. 3. landsk. vill fá með sinni brtt.

Ég býst því við, að ég greiði a. m. k., ekki atkv. á móti brtt. hv. 2. þm. Árn., og er það vitanlega eingöngu af ótta við það, að ef sú viðaukatill. fellur, þá verði mín till. felld á eftir. Ég legg áherzlu á það, að gera megi ráð fyrir, að þetta samþykki atvmrh. yrði veitt í öllum tilfellum öðrum en þeim, þegar sérstaklega athugavert þætti að taka veiðina undan ábúð. Með þeim skilningi get ég fallizt á að leggja ekki á móti þessari till.

Næsta brtt. mín er við 3. gr. Þar er svo gert ráð fyrir, að þar, sem veiði hefir verið leyst frá jörð, hafi jarðareigandi innlausnarrétt á veiðinni um ótiltekinn tíma. Ég hefi áður látið þá skoðun í ljós, að þetta væri brot á stjskr., það sé ekki með rökum hægt að benda á neina þá almenningsþörf, sem geri heimilt að beita slíku eignarnámi, sem hér er um að ræða. Helmingur þessarar hv. d. var þeirrar skoðunar við ?. umr., að ekki væri ástæða til að fella þetta ákvæði niður. Til þess að bæta þó eitthvað úr þeim ágalla, sem ég tel vera á þessu, ber ég fram þá till., að ef innlausnar er ekki krafizt innan þriggja ara frá því að lögin ganga í gildi, þá falli innlausnarrétturinn niður. Ég sé ekki, hvaða sanngirni það er að játa þá, sem eignazt hafa veiðirétt án landsréttinda, bíða þannig í óvissu um ótiltekið tímabil um það, hvort þeir þurfi að játa þennan rétt af hendi. Þeir þurfa oft að gera ýmsar ráðstafanir viðvíkjandi þessum eignum sínum, og þurfa því að geta vitað eitthvað um það, hvort þeir fá að njóta eignarinnar framvegis. Það þarf ekki að benda á annað en það, hversu algengt það er, að menn, sem stunda stangarveiði, þurfa að reisa hús við þá á, sem þeir veiða í. Fylgir því ekki lítill kostnaður. Ég álít því skylt að setja hér einhver tímaákvæði og sé enga ástæðu til að hafa þann tíma lengri en 3 ár. sá tími ætti að vera nægur fyrir þann, sem innlausnarréttinn á, til þess að gera þær nauðsynlegu ráðstafanir til að innleysa veiðiréttinn aftur.

Hv. 3. landsk. hefir einnig borið fram brtt. við þetta ákvæði. Hann vill ganga skemmra en ég og leggur til, að innlausnarfresturinn sé 10 ár. Mér virðist sá frestur allt of langur, en þó mun ég greiða atkv. með brtt. hans, ef mín brtt. fellur. Vil ég mælast til þess, að hæstv. forseti beri upp mína brtt. fyrst, þar sem hún gengur lengra.

Næsta brtt. mín er við 16. gr. Er hún þess efnis, að veiðitíminn — annað en stangarveiði — sé styttur og nái eigi lengra en til 15. ágúst, í staðinn fyrir það, að nú er svo ákveðið í frv., að hann skuli ná til 15. sept. Ég skal taka það fram, að þetta er eina brtt., sem ég tel nokkru varða um tilhögun laxveiðinnar og sem gerði það að nokkrum mun líklegra, ef samþ. yrði, að veiðiárnar yrðu bættar.

Ég lýsti því allýtarlega við 2. umr., hversu lítið gagn verður yfirleitt af haustveiðinni. Nálega allur sá lax, sem veiddur er á þessum tíma, er leginn og magur og þar af leiðandi engin verzlunarvara. Hann verður þá ekki notaður öðruvísi en í heimilið og er að engu leyti betri en hvert annað saltmeti, sem lagt er til heimilisins. Hinsvegar er það svo, að það er einmitt þessi veiði, sem er allra hættulegust fyrir laxinn. Engin veiði er eins hættuleg eins og ádráttarveiði á hrygningarstöðunum, en rað er einmitt sú veiði, sem hér er um að ræða. Ég tel því mjög mikið undir hví komið, að þessi brtt. verði samþ., því að það mundi verða til þess, að lax mundi vaxa í ánum að talsverðum mun. Þessi tilhögun mundi engu síður verða til bóta fyrir þá, sem uppi til fjalla búa og helzt njóta þessarar septemberveiði, heldur en rá, sem búa við ósana og veiða framan af sumri, því að við þessa breyt. yrðu árnar laxríkari og útgengilegri fyrir stangarveiði, og það mun undantekningarlítið vera svo, að septemberveiðin er aðeins stunduð, í þeim ám, sem aðeins ætti að nota til stangarveiði.

Við þessa brtt. hefi ég borið fram varatill., að veiðitíminn skuli ná til 1. sept., ef svo kyni að fara, að aðaltill., þar sem farið er fram á, að veiði sé aðeins leyfileg til 15. ágúst, yrði felld.

Þá hefi ég einnig lagt til, að sú breyt. verði gerð á þessari sömu gr., að veiðitíminn verði aðeins 2 mán., í staðinn fyrir það, að nú er gert ráð fyrir í frv., að hann sé 3 mán. Þessi brtt. þarf engrar skýringar við. Hún miðar til þess að draga út óhæfilega mikilli laxveiði og gera veiðina arðvænlegri en hún er nú.

Næsta brtt. mín er við 18. gr. 3. lið. Þessi gr. heimilar ráðh. að friða heilar ár fyrir allri veiði annari en stangarveiði, ef útlit er fyrir, að ekki sé hægt með öðru móti að vernda fiskistofn þeirrar ár frá gereyðingu. Að mínu áliti gengur þetta ákvæði svo skammt, að útlit er til, að því verði sjaldan eða aldrei beitt. Það er sjaldan unnt að segja með fullri vissu, að stefnt sé til gereyðingar á fiskistofni einhverrar ár, þó óskynsamlega sé veitt. Ég vil því gera dálitla rýmkun á þessu og orða þennan lið þannig, að friða megi ár fyrir allri veiði nema stangarveiði, ef svo hagar til, að friðun sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir storkostlega rýrnun eða gereyðingu á fiskistofni árinnar. Ef þessi brtt. væri samþ., væru nokkru meiri líkur til, að ráðh. gæti í einstökum tilfellum tekið fram fyrir hendurnar á þeim, sem stunda veiðina þannig, að líklegt væri, að það yrði til að uppræta laxinn að mestu eða öllu leyti.

Brtt. við 23. gr. er leiðrétting á prentvillu. Þarf ég ekkert um það að ræða. Næst er brtt. við 30. gr. Í 28. gr. er svo ákveðið, að aldrei megi lagnet, króknet eða leiðari frá slíku neti ná lengra út í á en svo, að 2/3 hlutar af breidd ár eða óss séu utan þeirra. En í 30. gr. eru ákvæði um það, að girðingar megi ná yfir 1/3 ár, eins og netin, en ekki nema 1/4, þegar um ósa eða leirur er að ræða. Ég tel það mjög óheppilegt, að heimilt sé að lagnet nái lengra út í ósa og leirur en girðingarnar. Ég held einmitt, að girðingar séu góð og heppileg tæki til laxveiða. Þær gera mögulegt að geyma laxinn lifandi og varðveita hann þannig óskemmdan og gera hann því að ágætri verzlunarvöru. Ég held því, að hér sé farið öfugt að. Það ætti frekar að styðja ráð, að menn notuðu girðingar til laxveiða, með því að leyfa, að þær mættu ná lengra út en króknetin. Girðingar eru líklega heldur óveiðnari en króknet, en þær eru mjög hentugt veiðarfæri, vegna þess hve vel þær fara með laxinn. Ég tel því, að hér sé farið aftan að siðunum. En ég hefi þó ekki farið lengra í brtt. minni en það; að leggja til, að sama gangi yfir bæði þessi veiðitæki, netin og girðingarnar.

Hv. 3. landsk. hefir nú gert brtt. við 28. gr., er kveður svo a, að ekki megi heldur leggja net yfir meira en 1/4 hluta af breidd óss eða leiru. Ég álit nú þetta hvað ósana snertir alveg ástæðulaust. Ég get ekki skilið, hvers vegna hér er verið að greina á milli oss eða ár. Ég hugsa mér t. d. Hvíta í Borgarfirði, sem ég þekki einna bezt. Eftir skilgreiningu frv. heitir þar ós, sem sjávarfalla gætir. En hvers vegna á að setja aðrar reglur fyrir þann hluta árinnar? Það er sannarlega sízt auðveldara að ná laxinum á því svæði, sem áin er vatnsmest og breiðust. Svo er þetta viðar. Það er einmitt miklu minni hætta á, að laxinn sé tekinn í ógengd neðst, þar sem áin er mikil. Ofar, þar sem áin fer minnkandi og er orðin lítil, er miklu auðveldara að ráða við að tæma hana. Ég mun því greiða atkv. gegn brtt. hv. 3. landsk., en hitt tel ég skynsamlegt, að girðingar séu leyfðar jafnlangt út í ósa eða leirur og net eru leyfð nú samkv. frv.

7. brtt., við 59. gr., er sjálfsögð leiðrétting á prentvillu eða ritvillu.

Um 8. brtt., sem er við 62. gr., er heldur ekki mikið að segja. Þó er þar um nokkra efnisbreyt. að ræða. Grein þessi mælir svo fyrir, að þegar annar stofnfundur veiðifélags er haldinn — en á heim fundi skal tekin fullnaðarákvörðun um stofnun félagsins —,þá þurfi samþykki 2/3 hluta þeirra manna, er boða skal á þann fund samkv. 59. gr. frv., eða umboðsmanna þeirra, til þess að félag sé löglega stofnað. Ég tel nú óþarft að leggja slíkar hömlur á stofnun veiðifélaga, með því að heimta jafnsterkt meirihl.vald fyrir löglegri stofnun og gert er í þessari gr. Ég tel það til bóta, að veiðifélög séu stofnuð sem víðast, en þá er heldur ekki rétt að gera skilyrðin fyrir stofnun þeirra of örðug. Það er vitanlega rétt og sjálfsagt, að öllum, sem hlut eiga að máli, gefist kostur á að gæta hagsmuna sinna við stofnun slíks félagsskapar. Og fyrir því tel ég, að sé séð í frv. Ég álít, að nóg sé, að 2/3 þeirra manna, er stofnfund sækja, samþ. stofnun félagsins. Ég get varla talið það skaða, þó að þeir, sem ekki hafa meiri áhuga fyrir þessum málum en svo, að þeir sækja ekki stofnfund, hafi heldur ekki íhlutunarrétt, með því einu að vera fjarverandi, um það, hvort félagið skuli stofnað.

9. brtt. mín mun tæplega orka tvímælis. Hún ákveður, að niður falli úr frv. síðasti málsl. 82. gr., sem er um það, að ræktunarsjóður megi veita fiskiræktarfélögum lán gegn sameiginlegri ábyrgð félagsmanna. En þetta ákvæði stangast við ræktunarsjóðslögin, og kemur því ekki til mála, af þeirri ástæðu, að það verði látið standa í lögunum, ef frv. Þetta verður samþ.

Ég hefi gleymt að minnast á eina brtt., sem ég a. Hún er á þskj 764 og er við 16. gr. 1. lið. Hún stendur í sambandi við það, að ég hefi lagt til, að hinn almenni veiðitími verði styttur og ekki látinn ná lengra fram eftir sumrinu en til 15. ágúst. En ég tel ekki rétt, að hið sama gildi fyrir stangarveiði. Þetta er því viðaukatill., sem heimilar þá veiði eftir þann tíma, eftir því sem ástæður þykja til. Ég sé ekki ástæðu til að setja nánari reglur í lögin um það, en tel, að það falli undir ákvæði gr. að heimila, hvenær þá veiði megi stunda.

Ég hefi þá drepið á allar brtt. mínar og hv. 3. landsk. Ég vil enda mál mitt með því að láta þá ósk í ljós, að hv. þdm. greiði atkv. um þessar brtt. án alls ótta um það, þó þær verði samþ., að frv. nái ekki samþ. á þessu þingi. En sá ótti virtist miklu ráða um atkvgr. við 2. umr. Ef menn vilja gæta að því, hvaða breyt. urðu á frv. í Nd. frá því það var borið fram og til þess að það kom hingað, þá þarf ekki að óttast, að frv. falli þar, þó þessar brtt. verði samþ.