19.05.1932
Efri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

7. mál, lax- og silungsveiði

Pétur Magnússon:

þessi sömu atriði, sem nú eru rædd hér, voru talsvert ýtarlega rædd við 2. umr. Ég sé því ekki ástæðu til að fara mikið út í þau nú aftur. —

það eru þó fáein atriði hjá hv. 3. landsk., sem ég vil víkja að. Hann ræddi um 2. gr. og skylduna til að láta veiði fylgja ábúð á leigujörð. Hann ræddi það mál á þeim grundvelli, að það væri fyrirfram vitanlegt, að það væri hagnaður fyrir ábúanda, að veiðin fylgdi ábúðinni. Ég vil vefengja þessa fullyrðingu. Ég hygg, að það sé alveg undir hælinn lagt, að ábúanda verði að þessu hagur. Ég geri ráð fyrir því, að eftirgjald jarðarinnar hækki um sannvirði veiðinnar. En það er engan veginn víst, að abúandi hafi sannvirði upp úr veiðinni. Hann getur verið illa lagaður fyrir veiðiskap eða skort getu til að hagnýta sér hana eins og hægt væri. Ég hygg, að ábúanda geti orðið hagnaður að því að vera laus við veiðina í eins mörgum tilfellum og hitt. Hitt er þó aðalatriðið í mínum augum, að ekki verði sett ákvæði í lögin, er geta fyrirgirt það, að veiðin verði notuð á hinn skynsamasta hátt. Það er stærsta atriðið, að veiðin verði notuð svo, að hún gefi sem mestan heildararð.

Þá taldi hann sér ekki fært að fylgja brtt. minni um að takmarka veiðitímann við 15. ág. í stað 15. sept., vegna þess að í ýmsar ár gengi silungur ekki fyrir þann tíma og myndi því silungsveiði verða með öllu útilokuð þar, ef brtt. væri samþ. Ég vil þó benda a, að samkv. 16. gr. getur ráðh. heimilað að veiða lengur göngusilung. Í ýmsar ár gengur silungur heldur ekki fyrr en eftir 15. sept. Mér er kunnugt um það, að í Borgarfirði gengur silungur ekki fyrr en í sept. – okt. Aðalsilungsveiðin ofanvert við Hvítá er stunduð frá veturnóttum og fram á jólaföstu. En það er vitanlega gengið út frá því, að ráðh. veiti undanþágu þar, sem svona stendur á. Ég get því ekki séð, að þetta sé nokkur mótbára gegn brtt. minni.

Þá taldi hann tveggja mánaða veiðitíma vera svo mikla skerðingu á veiðirétti margra manna, að hann gæti ekki verið slíku ákvæði fylgjandi. Þetta fer nú eftir því, hvernig á málið er litið. Neðan til við árnar stendur veiðitíminn ekki miklu lengur en 2 mán. — laxinn er þá genginn upp. Ofan til í ánum er stangarveiðin undanskilin. Það verður því aðeins ádráttarveiði á hrygningarstöðvunum, sem takmörkuð verður. En ég tel það bættan skaða, þótt hún sé eitthvað takmörkuð. Hún er engum til sóma og ætti sem fyrst að hverfa með öllu úr sögunni. Ég er sannfærður um, eins og ég hefi drepið á, að veiðimálin komast ekki í sæmilegt horf fyrr en hún er lögð niður.

Út af 3. brtt. minni vil ég geta þess, að ég hefi rekið mig á, að stöku þdm., sem þó telja sjálfsagt að setja einhvern frest, þykir frestur minn vera helzt til stuttur, þótt þeim þyki hinsvegar fresturinn verða of langur samkv. till. hv. 3. landsk. Ég mun því bera fram skrifl. brtt., varatill. við brtt. mína, og fara meðalveginn, 5 ár. Það mun verða erfitt að sýna fram á, að þeir, sem innlausnarréttinn eiga, hafi nokkra sanngirniskröfu til lengri umhugsunarfrests.

Ég álít brtt. hv. 2. landsk. vera til bóta. Ég held, að það sé í allan stað sanngjarnt og skynsamlegt að reyna að setja einhver ákvæði um þessar ár, sem margar eru nú með beztu veiðiám landsins, til að koma í veg fyrir, að þær verði gereyðilagðar á skömmum tíma. Ég held, að brtt. miði í þá átt, og geri mér vonir um, að veiðifélögin verði til þess að koma betra lagi á veiðiskapinn en verið hefir.