21.05.1932
Neðri deild: 80. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

7. mál, lax- og silungsveiði

Sveinn Ólafsson:

Ég hefi áður borið fram rökstudda dagskrá til afgreiðslu á þessu máli, sem þó var felld. Ég tel mér skylt, þar sem ég tel ýmsar réttarbætur felast í þessu frv. — þótt ég álíti allverulega galla á því vera og geti því ekki veitt því samþykki mitt eins og það er að vera sjálfum mér samkvæmur og leggja enn til, að málinu verði frestað eða vísað til stjórnarinnar, í þeirri von, að hún leggi það betur undirbúið fyrir næsta þing.

Ég er sammála hv. 1. þm. Skagf. um það, að sú búningsbót, sem frv. átti að fá í Ed., sé harla lítils virði. Hann benti á 16. og 30. gr. frv., sem alls ekki hafa verið bættar. Og við því máttu þær því síður, sem þær voru áður stórgallaðar. Ég álít því, að ef frv. Þetta er enn tekið til yfirvegunar og þeirri athugun ekki flaustrað af, þá sé þess að vænta, að það síðar geti komið fram í viðhlítandi búningi, t. d. á næsta þingi. Ég vil benda á örfá atriði til stuðnings skoðun minni um galla frv. í 14. gr. frv. er svo ákveðið, að ekki megi hafa ádrátt í sjó nær árósum en 500 metra frá hvorri hlið. Þetta ákvæði fyrirbyggir alveg ádráttarveiði, þar sem svo hagar til, að silungsár falla í fjarðarbotna og veiðisæl grynnsli eru til beggja handa, en fjarðabotnarnir ekki breiðari en svo, að hálfri röst nemi hvorumegin ár. En þannig hagar til víðast á austurlandi, og einnig á Vesturlandi. Mér virðist þetta hastarlega og óþarfa ákvæði muni alveg fyrirbyggja ádrátt fyrir smáupsa, kola, fisk og öll slík veiðinot í framtíðinni, þar sem staðhættir eru svo sem ég lýsti. Ég hefði haldið nægilegi að tiltaka 100–200 m. friðun hvorumegin oss, og engar skynsamlegar líkur veit ég til þess, að svona víðtækt bann þurfi til að tryggja það, að laxinn gangi í arnar. Ég hygg, þótt laxveiði sé hverfandi lítil í smáám á þeim stöðum, er ég nefndi, þá megi auka hana talsvert með laxaklaki, og þurfi þá eigi önnur veiðinot að hverfa. Líkt þessu er farið ákvæðum 16. gr., þar sem svo er ákveðið, að göngusilung megi ekki veiða nema á tímabilinu frá 1. apríl til 1. sept. ár hvert. Nú eru margir þeir staðir, þar sem göngusilungur byrjar ekki göngu sína fyrr en í síðari hluta ágústmánaðar, eða jafnvel ekki fyrr en í september. Verða því þeir menn, er við slíkar veiðiár búa, með öllu sviptir veiðirétti, sem fylgt hefir jörðum þeirra frá landnámstíð — veiðirétti, sem enginn hefir véfengt í margar aldir.

Þá eru m. a. þau ákvæði í 29. gr., að ef ádráttarveiði er stunduð í straumvatni, þá megi ekki draga á yfir meira en 2/3 af breidd veiðiár, eða svo, að 1/3 af breidd hennar sé jafnan utan við ádráttinn. En því er nú svo varið, að þegar um smáar er að ræða — og þær eru margar til —, þá er ekki mögulegt að fara eftir svona fyrirmælum. Þessu er aðeins hægt að koma við í stórám, eða breiðum og lygnum vötnum, þar sem öðrum netenda er fleytt fram með bát. Ákvæðið útilokar því veiðieigendur í smáum með öllu frá því að geta hagnýtt sér veiðina.

Eins og ég hefi áður tekið fram, legg ég til, að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar, og ef svo færi, vænti ég, að það komi í annað sinn betur athugað og undirbúið en nú. Ef sú till. mín fellur, verð ég að greiða atkv. á móti frv., því að ég álít það stórgallað eins og það er nú.