01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Það er ekki þörf á að minnast frekar á þessa brtt. Ég talaði um hana við 2. umr., þegar ég boðaði framkomu hennar í d. Á þskj. 277 er brtt. frá samgmn. um að heimila ríkisstj. að taka lán til framkvæmda þeirra, sem taldar eru í 1. gr. frv., og er hún fram komin vegna þess, að heimild þarf til að taka það fé að láni til framkvæmdanna, sem Rangæingar hafa nú sjálfir boðið fram til þess. Og mun sú upphæð alls um 100 þús. kr. Vænti ég þess, að hv. d. leggist ekki á móti því, að þetta verði tekið inn í lögin.

Brtt. á þskj. 283 er flutt af okkur báðum hm. Rang. Eins og ég minntist á síðast, vildi ég ekki gera ágreining í n. út af því, að n. vildi ekki fallast á það, að allar framkvæmdir, sem ákveðnar eru í frv., væru greiddar úr ríkissjóði, þó að ég hafi haldið því fram, að rétta væri fyrst og fremst samgöngumál, en ekki landvarnarmál. Því höfum við gert þá brtt. við 2. gr., að í 3. málsgr. komi í stað orðsins „þannig“ orðin „af ríkissjóði“, en í stað 4. og 5. málsgr. komi: „Því getur atvmrh., að fengnum till. sýslun. Rangárvallasýslu, látið jafna niður allt að 1/8 kostnaðarins“. Vona ég, að hv. d. sjái, að hér er ekki farið fram á annað en venja er til, þegar um samgöngubætur er að ræða á þjóðvegum. Er því sjálfsagt, að ríkissjóður greiði það, sem farið er fram á í brtt.