01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil aðeins upplýsa, að skoðun meiri hl. samgmn. er sú, að lántökuheimildin nái aðeins til brúargerða á Þverá og Affall. Öllum er kunnugt, að sýslubúar í Rangárvallasýslu hafa lofað að leggja fram allmikið fé, en hinsvegar er engin heimild fyrir því í frv. að taka lán til þessara brúargerða. Nú er samgmn. einhuga um að veita þessa heimild, og finnst mér ekki rétt að leggjast á móti því, en þó vil ég ekki, að ríkið taki ábyrgð á öllu, sem þarf til framkvæmda þessa máls, og vil ég láta fara fram nákvæmari rannsókn, áður en byrjað er á framkvæmdum á verkinu. Vænti ég þess, að báðir hv. þm. Rang. séu því samþykkir, að heimildin nái aðeins til að brúa Þverá og Affall, því að um annað var ekki talað í samgmn. Ber ég hér fram skrifl brtt. um, að lántökuheimildin sé bundin við 1. og 2. tölul. 1. gr. frv., til þess að taka af öll tvímæli um ráð, að lánið verði einungis tekið til að brúa Þverá og Affall.

Þá finnst mér brtt. á þskj. 283 nokkuð undarleg. Hv. þm. Rang. vilja koma öllu þessu fyrirhleðsluverki á ríkissjóð. Meiri hl. samgmn. kom til móts við þessa hv. þm. með því að leggja til, að ríkissjóður greiði 7/8 hluta af kostnaði við endurbætur á Seljalandsgarði. Hinsvegar eru flóðgarðar kostaðir af ríkinu að 3/4, en sýslubúum að 1/4. Mikið af þessum vötnum veitir ágang á einstakar jarðir, og er því ekki ósanngjarnt, að þeir, sem losna við ágang vatnanna, borgi eitthvað. Samgmn. leggur eindregið á móti till. á þskj. 283. Með löggjöfinni frá 1923 er lagt á vald sýslun. að jafna niður þeim kostnaði, sem sýslan lætur af hendi. Ef brtt. á. þskj. 283 verður samþ., þá verða 3. og 4. gr. frv. óþarfar, því að samkv. brtt. á ríkið að kosta allt. Hitt mun reynast erfiðara að fá samþykki Rangæinga eftir á um að jafna niður einhverjum hluta kostnaðarins, þegar ríkissjóður hefir greitt hann allan fyrirfram. Ég er sem samgmnm. hlynntur þessu frv., en get þó ekki gengið lengra en ég nú hefi lýst. Hefi ég því gert brtt., sem ég mun nú afhenda hæstv. forseta.