01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil fyrst geta þess, að ég mun greiða atkv. með brtt. hv. þm. N.-Ísf. Það hefir ekki staðið til, að lán yrði tekið mi, nema til þess að framkvæma það, sem stendur í 1. og 2. lið 1. gr. frv. Það hefir bara verið vangá að láta heimildina ná yfir meira. Þá hafa hv. þm. Rang. borið fram þá brtt., er þeir boðuðu við 2. umr., að þeir mundu koma fram með við 3. umr. Hún er sú, að þeir hv. þm. vilja ekki láta sér nægja, að með frv. þessu sé leyst samgöngumálið, heldur vilja þeir líka taka með kostnað við fyrirhleðslur, sem að vísu má jafna niður að 1/8, að fengnum till. sýslunefndar Rangæinga. Það er nú vitanlegt, hvert stefnir með slíkum till. Á þessu stigi er samgöngumálið vitanlega aðalatriðið. Hitt, um fyrirhleðslurnar, er stórt mál og vandasamt og ekki nærri svo undirbúið, að rétt sé nú þegar að taka ákvörðun um það. Og ég tel það vafasamt, hvort rétt sé fyrir hv. þm. að halda fast við þessa till. Ef þeir vilja leggja kapp á að fá frv. samþ., þá gæti svo farið, að þessi till. þeirra stofnaði því í voða, en um efni brtt. er engin þörf að taka ákvörðun nú. Það væri þá réttara að gera það í sérstöku frv., svo að þetta lenti ekki í hættu þess vegna. Það er ljóst af orðum hv. þm. N.-Ísf., að 4/5 hlutar samgmn. eru andvígir till. Er því frv. í hættu stefnt, ef haldið er fast við brtt.