01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Ég vildi aðeins leiðrétta dálítinn misskilning hjá hv. þm. V.-Sk. Hann vildi halda því fram, og ég hélt, að það væri rétt, að hann væri eins kunnugur þarna eins og við þm. héraðsins. En ég sé, að það gætti misskilnings hjá honum um ýms atriði á þessum svæðum, sem sýnir það, að hann er ekki eins kunnugur þar og við. Og má benda til þess, að hann heldur því fram, að Fljótshlíðinnni sé ekki hætta búin fyrir utan Hlíðarenda. Það er rétt, að það er mest fyrir innan Hlíðarenda, í lnnhlíðinni, sem skemmdirnar eru, svo að það getur varla liðið á löngu áður en sá hluti er allur í auðn. En þar með er ekki allt upp talið. Á síðustu árum hafa verið mikil landbrot utar í Hlíðinni, og það alla leið út á móts við Breiðabólstað. Þar hafa farið í auðn allstór svæði, sem áin hefir lagt undir sig.

Um þessar flóðgáttir býst ég við, að sé ekki neitt verulegt, sem þess sé vert að fara að deila um. Að ekki hafi verið notað vatn áður þarna í Landeyjunum, er ekki rétt. Það er mjög almennt, að vatn úr þessum ám sé notað til áveitu. Og það er eitt af því, sem gerir þessar sveitir svo byggilegar, hvað vatnið er þar gott til áveitu. Það er sjálfsagt að halda áfram að gera þessum sveitum mögulegt að nota vatnið til áveitu þótt fyrirhleðslurnar komi. Þegar fyrirhleðsla var gerð fyrir Djúpós og Valalæk, þá tók vatnið af Safamýri og þurrkaðist hún upp. En nú kemur það í ljós, að það verður að ná vatninu aftur til áveitu. Það verður að stefna að því, að ná tökum á vötnunum þannig, að hægt sé að verjast skemmdum af ágangi af þeim, en jafnframt að taka þau svo í þjónustu sína sem frekast má að gagni verða.