20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og hv. þd.m. er kunnugt, er þetta mál ekki alveg nýtt hér á Alþingi. Mönnum mun vera kunnugt um það, og yfirleitt kunnugra en mér, að vatnasvæði þetta á Rangárvöllum er nú orðið einn hinn mesti farartálmi, sem til er í byggðum þessa lands, þó að samgöngumálum okkar sé ekki komið lengra áleiðis en það, að segja má að við séum í miðjum klíðum í þeim efnum. Ég er ekki svo kunnugur þarna austur frá, að ég geti af eigin reynslu lýst þeim erfiðleikum, sem þessi stóru vatnsföll valda, en bæði af þeim skjölum, sem fyrir hafa legið um þetta efni, og af viðræðum við vegamálastjóra er okkur nm. Það ljóst, að hér er um mjög stór samgöngumál að ræða og að brýn nauðsyn er á að hefjast handa og ráða bót á þeim vandræðum, sem þessi mikli farartálmi veldur.

Sú lausn þessa máls, sem frv. gerir ráð fyrir, er að nokkru leyti aðeins byrjun, þannig að á bak við liggur, að þó gert sé það, sem rætt er um í frv., þá muni þurfa meiri framkvæmdir þarna í framtíðinni. En þær framkvæmdir munu frekar heyra undir annað en samgöngubætur. Það, sem átt er við með frv., er hinsvegar það, að byrjað sé á að ráða bót á samgunguvandræðunum með því að brúa Þverá og Affall og síðan Markarfljót.

Samgmn. hefir átt ýtarlegt tal við vegamálastjóra um þetta mál. Af þeim ýtarlegu upplýsingum, sem hann hefir gefið n. og að nokkru leyti má finna í þingtíðindunnm frá 1931, í grg., sem þá fylgdi þessu frv., hefir n. sannfærzt um, að óhjákvæmilegt væri að sinna þessu máli, og að það væri þá aðgengilegast að gera það á þann hátt, sem með þessu frv. er ákveðið. Sérstaklega virðist þetta þing ekki geta gengið fram hjá því að skipa þessu máli með lögum, þar sem héraðbúar hafa hafizt handa umg fjársöfnun og bjóða nú fram fé að láni, til þess að hinar fyrstu framkvæmdir geti byrjað.

N. flytur hér eina smávægilega brtt. við frv. Hún er við 10. gr. og er í því fólgin, að þar sem nefndir eru 1. og 2. liður 1. gr., komi í staðinn: 1. til 4. lið 1. gr. Eins og sjá má af 10. gr. frv., er ríkissjóði heimiluð lántaka til þess að hefja með þær framkvæmdir, sem ákveðnar eru í frv. Féð, sem héraðsbúar eru búnir að safna í því skyni að lána ríkissjóði, mun vera um 100 þús. kr., og gert er ráð fyrir, að það muni nægja til þess að brúa Þverá og Affall. En Rangæingar munu það stórhuga að þeir munu beita sínum ýtrustu kröftum til þess, að lengra verði hægt að ganga og brú komi á Markarfljót líka innan tíðar. Og ég hefi fyrir því góðar heimildir, að þegar búið er að framkvæma það, sem tilgreint er í 1. og 2. lið 1. gr., þá muni þeir hugsa sér að hefja fjársöfnun á ný, til þess að komið geti brú á Markarfljót líka. Þess vegna vilja þeir fá þessa breyt. á frv., að ríkissjóði sé heimilað að taka líka lán til þeirra framkvæmda, sem greindar eru í 3. og A. lið 1. gr., sem er brú á Markarfljót og nauðsynlegar fyrirhleðslur í sambandi við hana.

Ég geri ráð fyrir, að ég þurfi ekki að skýra þetta mál frekar fyrir hv. þdm., enda brestur mig til þess persónulegan kunnugleika, eins og ég tók áður fram. En það er mér óhætt að segja fyrir hönd samgmn., að hún telur, að þingið eigi að mæta þessu mikla nauðsynjamáli með fullum skilningi og samþ. frv. eins og það liggur nú fyrir, með þeirri einu breyt., sem n. flytur á þskj. 441. Ég þykist vita, að frv. mæti ekki neinni andstöðu hér í hv. d., og hefi því ekki þessi orð mín fleiri.