05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Jón Ólafsson:

Ég get verið þakklátur hæstv. forsrh. fyrir undirtektir hans og loforð það, sem skein út úr orðum hans. En ég hefði kunnað betur við, að frv. hefði nú fylgt þó ekki væri nema lítil fjárveiting af fé því, sem nú er á annað borð veitt til vegagerða, svo sjá mætti í reynd einhver merki þess, að þetta sé að skoðun hæstv. ráðh. mesta samgönguvandamálið. Það er það sannarlega, og ég geri ráð fyrir, að um það verði ekki þagnað fyrr en fengizt hafa hinar fullkomnustu vegabætur, nefnil. járnbraut. Þetta millispor er e. t. v. brúkað til þess að tefja fullkomnari framkvæmdir. Þótt illa blasi nú, þá er samt ekki gott að segja, hvort lengur þyrfti að bíða eftir járnbraut en þessum framkvæmdum. Ég veit, að flutningar bænda austur og austan eru margfalt meiri en það, sem þarf til að reka járnbraut. Mestu máli skiptir það þó, að mikið af afurðum verður aldrei flutt á öðru en járnbraut.

Ég sé ekkert á móti því að samþ. þetta frv., en ég vil leggja mikla áherzlu á, að byrjað verði sem fyrst, helzt þegar eftir þetta þing. Það er augljóst, að vegagerðin stendur yfir í nokkur ár, og hún má ekki dragast verulega héðan af.