20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Páll Hermannsson:

Hv. þm. Snæf. gat þess, að í samgmn. hafi verið nokkur ágreiningur um þetta mál. Ég verð að segja það, að við hinir nm. munum hafa verið á svipaðri skoðun og hv. þm. Snæf. í þessu máli. Það er vitanlegt, að fé vantar til framkvæmda nú, og vafasamt er, hvort rétt sé að binda framtíðinni stóra bagga.

En það, sem ýtti undir mig til þess að greiða fyrir frv., var það, að með því er drepið niður þeim ágreiningi, sem verið hefir um lausn þessa samgöngumáls. Þar hefir verið bent á ýmsar leiðir, t. d. járnbraut, yfirbyggðan veg. En lausn frv., sem liggur hér fyrir, er vafalítið sú bezta.

Ég vil minnast á þau ummæli, sem hér hafa fallið um það, hve annt mönnum væri um framkvæmdir. Ég tel það mjög eðlilegt, að mönnum sé annast um verklegar framkvæmdir í sínu eigin byggðarlagi. En yfirleitt finnst mér samgmn. láta sér annt um afgreiðslu allra þeirra mála, er hún fær í hendur, og þá engu síður hv. þm. Snæf. en aðrir nefndarmenn.