17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

18. mál, próf leikfimi- og íþróttakennara

Haraldur Guðmundsson:

Ég vildi með leyfi hæstv. forseta mega koma hér að skriflegri brtt. við frv.

Samkv. ákvæðum 1. gr. frv. er sú skylda lögð á herðar allra þeirra, sem eru fastir eða ráðnir leikfimikennarar í skolum landsins, að taka próf til starfa síns. Ég álít þetta rétt, en ákvæði gr. eru hinsvegar ekki nógu víðtæk, því að eins og kunnugt er, er stórmikill þáttur íþrótta og leikfimikennslunnar ekki í höndum skólanna, heldur í höndum íþróttafélaga og ungmennafélaga. Leikfimi- og íþróttakennsla þessara félaga er því svo mikill þáttur í þessari kennslu með þjóðinni, að sjálfsagt er, að prófskylduákvæði gr. nái einnig til hennar. Ég vil því leyfa mér að bera fram brtt. við frv., þess efnis, að aftan við gr. bætist svo hljóðandi málsliður: „Sama er um leikfimi- og íþróttakennara, sem eru fastir starfsmenn íþróttafélaga eða ungmennafélaga“.

Er hér um svo ljóst mál að ræða, að ég þykist ekki þurfa að fara um þetta fleiri orðum.