08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

1. mál, fjárlög 1933

Bjarni Ásgeirsson:

Ég á brtt. á þskj. 362 ásamt hv. þm. Borgf., um ráð, að heimila ríkisstj. að inna af höndum til Búnaðarbanka Íslands greiðslu á viðlagasjóðsláni mjólkurfélagsins „Mjallar“, ásamt ógreiddum vöxtum 17700 kr. Svo er mál með vexti, að undanfarin ár hafa Borgfirðingar starfrækt mjólkurniðursuðuverksmiðju, er Mjöll heitir. Var verksmiðja þessi stofnuð á stríðsárunum, og því byggð upp á mestu dýrtíðarárunum. Hún varð fljótlega fyrir ýmiskonar óhöppum. Þannig brunnu t. d. öll hús hennar eitt árið. Var hún þá flutt ofan í Borgarnes og reist þar af nýju. Kostaði það ærna peninga og mikla fyrirhöfn. Þar að auki varð hún fyrir ýmsum öðrum óhöppum, sem ekki þýðir að nefna hér. Í einu orði sagt: Hún mun hafa gengið í gegn um alla þá barnasjúkdóma, sem slík fyrirtæki geta hent.

Á síðastliðnu sumri hætti hún að starfa, og voru þá hús hennar og vélar seldar Kaupfélagi Borgfirðinga fyrir 60000 kr. Kaupfélagið endurreisti svo verksmiðjuna og gerði úr henni fullkomið mjólkurbú, sem nú er fimmta fullkomnasta mjólkurbúið, sem hér starfar. Þegar gamla „Mjöll“ var gerð upp, var svo komið, að allt hlutaféð var tapað, og skuldir hennar, sem ekkert var til fyrir, orðnar 30 þús. kr. Af þessari upphæð hvílir helmingurinn á Ýmsum bændum í Borgarfirði, en hinn helmingurinn, sem nú er orðinn með vöxtum 17700 kr., hvílir aðallega á þremur bændum þar, sem eru í sjálfsskuldarábyrgð fyrir upphæðinni, og er það sú upphæð sem hér er farið fram á að fá eftir gefna.

Það virðist nú ærið hart, að þessir menn, sem hafa lagt á sig mikið erfiði vegna fyrirtækisins, endurgjaldslaust með öllu og tapað hlutafé sínu með vöxtum, skuli nú þurfa að greiða fé þetta líka, sem þeir eru í ábyrgð fyrir, en gengið hefir til almenningshagsmuna.

Nú hafa þeir aðiljar efra, sem standa undir hinum hl. upphæðarinnar, boðizt til að greiða sinn hluta, en það eru eins og ég gat um aðan ýmsir bændur auk Sparisjóðs Mýrasýslu. En þá er eftir viðlagasjóðslánið, sem hér er farið fram á, að ríkissjóður greiði. Ég vil nú minna á nokkur atriði, sem mæla með því, að þetta verði gert. Þetta nýja mjólkurbú, sem reist var síðastliðið vor í Borgarnesi, er vafalaust ódýrasta mjólkurbú landsins. Flóabúið kostaði t. d. 300 þús., og styrkur sá, sem því var veittur úr ríkissjóði, nam því 75 þús. kr. Mjólkurbú Ölfusinga kostaði um 200 þús., og styrkur ríkissjóðs til þess nam því 50 þús. En mjólkurbúið í Borgarnesi kostaði fullbúið með velum ekki nema 130 þús. kr. Njóti það nú sama styrks úr ríkissjóði og hin búin, fer hann ekki yfir 30 þús. króna. Þó að ríkissjóður greiði einnig þessa upphæð, sem hér er farið fram á, verður framlag hans til þessa mjólkurbús þó tæplega eins og styrkur sá, sem greiddur var til Ölfusbúsins á sínum tíma.

Það sem liggur til grundvallar fyrir því, hve þetta nýja mjólkurbú Borgfirðinga varð ódýrt, er það, hversu lagt hinar dýru vélar frá gömlu Mjöll voru reiknaðar. Hefði mjólkurbú þetta verið reist á sama tíma og hin búin, er enginn vafi á því, að það hefði orðið miklu dýrara og styrkur ríkisins því mun hærri, en sökum þess, að það fær áhöld og hús gömlu „Mjallar“, verður það svona ódýrt. Það mælir því allt með því, að héraðsbúar njóti þess, sem þeir lögðu á sig áður en styrkurinn til mjólkurbúanna var lögtekinn. Þessu nýja mjólkurbúi þeirra Borgfirðinganna yrði því ekkert ívilnað fram yfir hin mjólkurbúin, þó að ríkissjóður greiddi umfram 30 þús. kr. styrkinn þessar 17700 kr. — vegna þess, hve hús og velar þess urðu ódýrar.

Auk þess má fullyrða, að ef Borgfirðingar hefðu ekki brotizt í að koma þessu fyrirtæki upp, væri engin verksmiðja starfandi hér, sem gati soðið mjólk niður, en það hefir mikla þýðingu, þar sem með því sparast allur sá erlendi gjaldeyrir, sem annars færi út úr landinu fyrir niðursoðna mjólk.

Búið hefir þannig verið endurreist. Erlendur maður með fullkominni þekkingu á þessum hlutum hefir verið fenginn til þess að veita því forstöðu, enda gefa vörur þær, sem það framleiðir, á engan hátt eftir samskonar vörum erlendum. Afkoma fyrirtækis þessa í framtíðinni byggist að sjálfsögðu á því, hvort það nýtur þeirrar verndar hins opinbera, sem það þarf og á heimtingu á. Ég fyrir mitt leyti efast ekki um, að hv. þm. veiti því þá vernd, sem því ber, enda er annað ekki sæmilegt, því að það væri hart að hegna heim mönnum, sem öðrum fremur hafa lagt á sig erfiði og fjárframlög, með því að láta þetta mjólkurbú ekki njóta sama styrks og önnur bú.

Ég vænti nú, að allir hv. þm., sem hlýtt hafa á mál mitt, sannfærist um réttmæti þessarar till. okkar hv. þm. Borgf., en því miður hafa þeir ekki verið nógu margir. Vona ég því, að þeir hvísli rökum þessa máls í eyru sessunauta sinna áður en til atkv. verður gengið.