08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

1. mál, fjárlög 1933

Jónas Þorbergsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 334, sem ég vildi með nokkrum orðum gera grein fyrir. Er þá fyrst brtt. mín undir rómv. XII. á þessu þskj., þar sem ég fer fram á 3000 kr., en til vara 2000 kr., til Kvennabrekkusafnaðar í Dalasýslu, vegna sérstakra fjarhagsvandræða safnaðarins út af kirkjubyggingu. Ég hefi fengið tilmæli frá mörgum málsmetandi mönnum í þessum söfnuði um að bera fram till. í þessa átt. Tildrög málsins eru þau, að fyrir nokkrum árum síðan var kirkja þessa safnaðar flutt frá Sauðafelli að Kvennabrekku og endurreist þar mjög myndarlega. Út af þessum flutningi kirkjunnar reis ágreiningur innan safnaðarins, svo að nokkur hluti hans sagði sig úr þjóðkirkjunni. Ennfremur hafa nokkrir safnaðarmanna látið undir höfuð leggjast að greiða lögboðin gjöld til kirkjunnar, og þykir jafnvel við því búið, að þeir mundu einnig segja sig úr þjóðkirkjunni, ef hart væri gengið eftir gjöldum. Af þessum orsökum er byrði sú, sem hvílir á þeim, sem eftir eru í söfnuðinum og greiða gjöld sín til kirkjunnar, óeðlilega þung, og þyngri en þeir geta staðið undir. Hér er því farið fram á, að Alþingi hlaupi undir bagga með söfnuðinum og létti undir með honum, aðeins þó að litlu leyti. Mörgum kann nú að virðast, að hér sé farið inn á nýja leið, en við nánari athugun hljóta allir að sjá, að svo er ekki. Það hafa þrásinnis legið fyrir Þinginu styrkbeiðnir frá hreppsfélögum, sem hafa verið nauðulega stödd sökum sveitarþyngsla. Beiðnum þessum hefir oft verið sinnt. Hér er alveg um hliðstætt dæmi að ræða. Því að þar sem safnaðarkirkjur eru, er söfnuðunum á það að bera þær uppi. Ég fæ nú ekki séð muninn á því, hvort Alþingi hjálpar sveitarfélagi eða sóknarfélagi. Vænti ég því, að hv. dm. fallist á till. þessa og greiði henni atkv. sitt.

Þá á ég brtt. þess efnis að veita Eggert Magnússyni í Fjarðarhorni örlítinn styrk til dýralækninga. Við hv. 1. þm. Eyf. höfum hér svipað mál að flytja. Hann mælti vel fyrir till. sinni, og get ég því að nokkru vísað til röksemda hans. Maður þessi hefir um nokkuð langan tíma stundað dýralækningar á Vesturlandi, og það með mjög góðum árangri. Beiðni um þennan styrk lá fyrir síðasta þingi, og get ég fyrir því vísað til þess, sem ég sagði þá um mann þennan, og sé því ekki átstæðu til þess að fara að endurtaka það nú.

Þá eru hér nokkrar fleiri brtt., sem ég er við riðinn, m. a. á þessu sama þskj., XXII,1. Þar er farið fram á, að fyrrv. pósti, Torfa Sæmundssyni, verði greiddar 300 kr., og til vara 200 kr., sem eftirlaun. Ég tek það fram, að fyrst þingið hefir einu sinni gengið inn á þá braut að veita póstum eftirlaun, tel ég, að það geti ekki kippt að sér hendinni með það nú. Þá yrðu allir þeir, sem enn hafa ekki fengið eftirlaun, útilokaðir frá þessum fríðindum, án þess að þeir hafi nokkuð til unnið. Ég bar þessa till. fram hér á Alþingi í sumar, og samþ. þessi hv. d. hana, en hv. Ed. sá sér ekki fært að leggja út í slíkan kostnað og felldi hana. Ég hefi nú tekið till. upp aftur og vona, að hún komist til hv. Ed., og þar hafi þau sinnaskipti orðið, að hún komist nú inn í fjárlögin.

Hér er á ferðinni önnur samskonar till., að ég held frá hv. þm. Ak., og get ég með góðri samvizku gefið henni mín beztu meðmæli. Ég þekki manninn, sem þar um ræðir, persónulega, og hefir hann fyllilega unnið til viðurkenningar fyrir sitt dygga starf.

Næsta till. mín, á þskj. 334. XXII,2, er þess efnis að veita Önnu H. Eiríksdóttur, ljósmóður, örlítil eftirlaun. Með tilvísun til þess, að hv. fjvn. tekur fram í áliti sínu, að flestar slíkar umsóknir séu svo úr garði gerðar, að með þeim vanti nauðsynlegar skýrslur og upplýsingar, mun ég taka þessa brtt. aftur til 3. umr. og hafa þá útvegað allar þær skýrslur, sem þessari umsókn þurfa að fylgja.

Þó að umr. um fyrri kafla fjárlaganna sé nú lokið, vil ég fara fáum orðum um eina till. á þskj. 360, þar sem farið er fram á styrk til Guðmundar Karls Péturssonar til þess að halda áfram nami í skurðlækningafræði erlendis. Ég get gefið þessari till. mín beztu meðmæli. Öllum hv. dm. hlýtur að vera ljóst, hvílík nauðsyn það er, að við sendum úrvalsmenn utan til þess að fylgjast með í handlækningum og ala upp góða sérfræðinga í þeirri grein. Og ég þekki þennan mann ekki að öðru en frábærri reglusemi og dugnaði, enda kunnugt um, að hann hefir tekið hæst próf í sinni grein, sem tekið hefir verið við háskólann. Við eigum svo fáa lækna í þessari grein, að ef þeir fatlast eða falla skyndilega frá, gæti okkur borizt mikill vandi á hendur.

Þá kem ég að aðaltill. minni, en ég verið að segja, að mér er þvert um geð að tala um hana yfir tómum stólum, því að ég geri ráð fyrir, að þeir taki rök mín ekki til greina. Ég mun því taka þá till. aftur til 3. umr., og fresta framsögu þangað til.