19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

9. mál, brúargerðir

Jónas Þórbergsson:

Ég á brtt. á þskj. 360 um brýr á tvær ár í Dalasýslu, Miðá og Hörðudalsá, báðar á Skógstrandarleið. Ég býst við að flestir hv. þm. séu kunnugir staðháttum þarna og þessum leiðum. En það er almenningsálit vestra, að leggja verði veg af Vesturlandsvegi í Miðdölum og í Stykkishólm. Þessar ár eru baðar á þessari leið og báðar hinar mestu torfærur, einkum fyrir Skógstrendinga og Hörðudælinga, sem skipta við Búðardal og verða að sundleggja fé sett í þeim á haustin. Enda banna þær með öllu bilferðir um Hörðudal og vestur á Skógarströnd. Ég vildi því eindregið óska þess, að hv. deild tæki þessar brýr upp í frv., því að þess mun ekki langt að bíða, að vegur verði lagður milli Stykkishólms og Vesturlandsbrautar, og þá verður óhjákvæmilegt að byggja þessar brýr.